Vallamótið var haldið um daginn. Mótið var með svolítið nýju sniði, því gæðingakeppni í A- og B- flokki hafði þegar farið fram, og henni gerð skil hér.
Þátttaka okkar Þóroddsstaðafólks takmarkaðist að þessu sinni við einn hest í firmakeppninni! En hann var heldur ekki af lakara taginu, því þar var Ragnheiður mín mætt með Ígul sinn. Eftir mikla þolreið kepptu fimm hestar til úrslita. Ígull fór mjög fallega að vanda, og hafnaði í fjórða sæti. Efstur varð Nökkvi frá Efri-Brú, en knapi á honum var ung stúlka, Móeiður dóttir Óla Fjalars.
Að sjálfsögðu riðum við á mótið og af því. Það var mjög skemmtileg fjölskylduferð, og óhætt að segja að allir væru vel ríðandi. Af ungum hrossum er óhætt að segja að Fregn sé að slá alveg í gegn, og má ekki líka minnast á Fléttu í því sambandi? Mér sýndist hún fara ansi vel hjá Ragnheiði minni, rétt eins of Fregn hjá Freyju. Þorkell reið skeiðmerunum Veru og Hrund. Hann hefur alveg sérstakt lag á Hrund, hún mylur töltið, létt og lipur í taumum. Bjarni hafði Kóng sinn og Eldingu. Elding er meira upp á sport hjá honum held ég, því ekki þarf hann að taka hnakkinn af Kóngi á svona smávegalengdum.
Magga reið Hlé sínum að mestu. Hann er í fínu formi, orðinn 20 vetra. Það getur verið að einhverjir samferðahestanna séu jafngóðir, en enginn betri. Ég var á Hvítingi og Berki, og brá mér að auki örlítið á Hrepp. Allir eru þeir þægilegir, eiginlega bara góðir. Önnur ferðahross voru Ígull og Spöng, um snilld þeirra þarf akki að spyrja. Blakkur er hins vegar þungur og óþjálfaður, og fékk ekkert alltof gott orð hjá knapanum.
Á heimleiðinni var gestur með í för, sr. Baldur Kristánsson, gamall og góður kunningi og viðskiptavinur. Hann keypti af mér Hruna og Skotta fyrir nokkrum árum, og er nú að líta í kringum sig.
Ferðalagið gekk að óskum, og vandséð að hægt sé að hafa það betra en að ríða þetta í kveldblíðunni.