Í dag – á afmælisdegi Hreins bróður míns – var haldið gæðingamót Trausta, í fyrsta sinn á nýjum velli á Laugarvatni. Umgjörð vallarins og staðsetning er í algjörum sérflokki, og get ég ekki stillt mig um að tilfæra hér eina af snilldarvísum Páls Guðmundssonar á Hjálmsstöðum, sem hlýtur að mega teljast sveitarskáld Laugardals:
Sólarbaugur bjartur hlær
brenna taugar halnum.
Meðan augað opnast fær
ann ég Laugardalnum.
Völlurinn sjálfur er ekki fullgerður, en verður vonandi góður.

Við gerðum góða ferð á mótið. Von sigraði í B-flokki að þessu sinni (hún vann A-flokkinn í fyrra!) með einkunnina 8,45. Elding vann A-flokkinn með einkunnina 8,40. Báðar voru setnar af Bjarna Bjarnasyni og sigruðu með nokkrum yfirburðum, einkum Elding. Þessar hryssur eru báðar undan Þóroddi, Von undan Dömu og Elding undan Bliku. Bjarni hlaut svo sæmdarútnefninguna Knapi mótsins.
Ígull og Ragnheiður urðu í 4. sæti í B-flokki með 8,17 í aðaleinkunn. Dís endaði í 5. sæti í A-flokki eftir að hafa orðið 3ja í forkeppni (8,05). Kannski verður gerð nánari grein fyrir úrslitum síðar, en þetta verður að duga í bili.

%d bloggers like this: