Fórum á kappreiðar og gæðingaskeið Meistaradeildar í dag í Hafnarfirði. Gott var blessað veðrið og völlurinn ótrúlega góður miðað við árstíma.
Hins vegar var bágt að verða vitni að ótrúlega klúðurslegri framkvæmd kappreiðanna, vegna sérstakra reglna sem gilda í Meistaradeild. Það var einhvers konar úrslitafyrirkomulag sem aldrei á við á skeiðkappreiðum og reyndist eins og við er að búast: Í dag var sá útnefndur sigurvegari sem náði aðeins 10. besta árangrinum – og hann hefði í raun getað sigrað þótt hann lægi alveg í því og „skartaði“ lakasta tíma dagsins – bara af því að aðeins hjá honum lá í úrslitasprettinum.
Við lánuðum tvær skeiðhryssur í keppnina í dag, og náðu þær góðum árangri: Vera fór á 15,3 – sem var þriðji besti tími dagsins – og Hrund fór á 15,41, sjötta besta tímanum. Báðar unnu sinn riðil, og Vera bar sigurorð af sjálfum Óðni frá Búðardal, sem varð að gera sér að góðu að fylgja henni eins og skugginn, eftir að hún hafði brunað fram úr honum strax eftir niðurtökuna. Besta tímanum náði Selda frá Sörlatungu. Hún fór á 15,11, en Veigar frá Varmalæk varð annar á 15,16.