Ég reyndi um daginn að skrifa frétt um Stóðhestaveisluna í Rangárhöllinni 19.03. Hún tapaðist hins vegar alveg, hvarf sjónum – og nú ætla ég að gera nýja tilraun.
Þarna fór sumsé fram fyrsta afkvæmasýningin á Þóroddi. Daníel Jónsson átti nú allan heiður af því að koma henni á, og reið sjálfur undanfaranum Grunni frá Grund. Síðan komu þrír stóðhestar aðrir: Arnoddur frá Auðsholtshjáleigu – setinn af Bylgju Gauksdóttur, Hvessir frá Ásbrú – setinn af Guðmundi Björgvinssyni, Rómur frá Gíslholti – setinn af Sigursteini Sumarliðasyni. Fimmta hrossið var svo Von frá Þóroddsstöðum – setin af Bjarna Bjarnasyni. Þetta eru allt fljúgandi góð alhliða 1. verðlaunahross, og gefa fyrirheit um að vel muni takast að efna í virkilega góðan hóp í alvöru afkvæmasýningu. Mér fannst góður rómur að þessu ger. Þegar efnt er til slíkra viðburða, þarf að treysta mjög á á eigendur og knapa þeirra hrossa sem helst koma til greina. Það er raunar alveg snilld hversu viljugir þeir eru að koma til móts við mann, og fyrir það vil ég þakka. Annars er margt gott um þessa sýningu að segja, og þarna sáust nokkrir virkilega góðir og fjölhæfir stóðhestar með alvöru skeiði – eftir því sem hægt er að biðja um við þessar hallaraðstæður, því auðvitað er það svo að helst þarf að vera búið að æfa hrossin þarna inni til þess að þau taki virkilega vel á skeiðinu.