Komum í dag, við Magga, í hesthúsið hjá Danna og Guðbjörgu austur á Hellu. Sáum höfðingjann Þórodd vel til hafðan og fallega fóðraðan. Það er búið að ríða honum talsvert, og ekki er annað að finna en að fóturinn sé í góðu lagi. Danni er bjartsýnn á að hann komist brátt í sitt gamla góða form.Það eru allnokkur afkvæmi Þórodds í þjálfun eða tamningu hjá Danna, og heyrist mér þeir félagar, Danni og Guðmundur járningameistari, spá vel fyrir þeim. Danni er þegar farinn að hyggja að sýningu á fáeinum afkvæmum í Rangárhöllinni síðla í vetur. Stefni að næstu heimsókn einhvern góðviðrisdag í febrúar, og fæ þá kannski að sjá einhver tilþrif. Danni tók svo fram á gang bráðfallegan Þytsson sem þau eiga með Hilmari Sæmundssyni, Grím að nafni. Það er freistandi að halda undir hann í vor. Komum svo við í hesthúsinu hjá Sigurði Karlssyni og sonum hans og sáum m.a. þrjú afkvæmi Þyrnis og Þórodds, taminn hest undan Þyrni, gófextan, nösóttan. Hann er í góðu áliti, heyrðist mér. Hitt eru folöld, brún að lit, og ég er illa svikinn ef þau bregðast!

%d bloggers like this: