Þorkell tók í gær tvö hross suður til Keflavíkur, Veru og Straum. Camilla Petra ætlar að þjálfa Veru fyrir átök sumarsins – raunar ætla ég að það verði frekar eins og léttur leikur hjá þeim, því báðar eru fimar og flinkar………
Þorkell var Straumi feginn, fannst mér, hann prófaði hann hérna heima um daginn og var held ég alveg hissa hvað var orðinn góður hjá Bjarna. Sá var nú líka búinn að leggja vinnu í hann í allan fyrravetur. Ég heyrði svo í Þorkeli í dag þegar hann var nýkominn af hestinum, og heyrðist vera ánægður. Lætur vel af reiðhallaraðstöðunni í Keflavík, 70 metra löng höll og ýmislegt hægt að gera. Bjarni járnar í dag og ríður út, en hann er ansi kaldur núna, dag eftir dag. Ég sá til hans á Von, hún er nú undirbúin fyrir úrtöku Uppsveitadeildarinnar, sem á að fara fram 29. janúar. Fékk í dag skemmtilegt og fróðlegt bréf frá Flemming hinum danska, þar sem hann segir mér frá efnilegum Núma- og Hamsbörnum sem hann er að láta temja. Flemming stefnir á að sýna Núma til heiðursverðlauna í vor. Númi hefur raunar um hríð haft stöðu heiðursverðlaunahests, en ekki hefur verið unnt að koma við sýningu enn sem komið er. Ég kalla raunar gott ef hægt er að skrapa saman í hóp undan honum þarna út í Danmörku – en hver veit!