Folaldasýning Hrossaræktarfélagsins Goða var haldin í dag í Hólmarshöllinni á Minniborg. Að vanda komum við með eina kerru, allt merfolöld að þessu sinni, hestfolöld eru nú engin til hér á Þóroddsstöðum!
1. sæti í hryssuflokki hlaut Trú frá Þóroddsstöðum, eig. Margrét Hafliðadóttir. Trú er undan Trausta frá Þóroddsstöðum og Von frá sama bæ, Þóroddsdóttur og Dömu, Nökkvadóttur frá V.-Geldingaholti og Glímu frá Laugarvatni. Trú er fyrsta afkvæmi stórgæðingsins Trausta, sem lætur að sér kveða, afar vel gerð og fljúgandi rúm og hágeng mýktarhryssa. Hún er sammæðra Fjöður frá Þóroddsstöðum, þeirrar sem kvað að á LM 2016 á Hólum í Hjaltadal í sumar, og nefnd hefur verið á þessum blöðum.
Í öðru sæti varð Nótt frá Þóroddsstöðum, eig. Bjarni Bjarnason. Nótt er undan Króki frá Ytra-Dalsgerði og Kolbrúnu frá Þóroddsstöðum, Hilmisdóttur frá Sauðárkróki og Svölu frá Þóroddsstöðum, Svartsdóttur frá Unalæk og Limru frá Laugarvatni, Angadóttur frá Laugarvatni og fyrrnefndrar Glímu frá sama bæ. Nótt er sammæðra Þóroddsdótturinni Hrefnu frá Þóroddsstöðum, sem var 4ra vetra á LM 2012 í Reykjavík, og vakti a.m.k. athygli glöggra hestamanna fyrir eindregna gæðingskosti.
Þriðja merfolaldið sem ég nefni hér, er NN, eig. Þorkell Bjarnason. Hún undan áðurnefndum Trausta og Freyju frá Þóroddsstöðum, rauðtvístörnótt efnishryssa sem ástæða er til að spá vel fyrir. Hún varð fimmta í flokknum.