Eftirfarandi var tekið saman í tilefni af því að Hrossaræktarbúið á Þóroddsstöðum var tilnefnt til tveggja heiðursviðurkenninga – sem Ræktunarbú og Keppnishrossabú ársins 2015 – og einnig vegna þess að Bjarni Bjarnason var tilnefndur sem skeiðknapi ársins 2015.
Ræktunarsaga Þóroddsstaða / Laugarvatnshrossa hrossa spannar nú meira en hálfa öld. Helstu merkisberar hennar verða margir nefndir í umfjöllun sem hér fylgir – en árið 2015 unnust þessi afrek.
a) staðfesting WorldFengs á heiðursverðlaunum stóðhestsins Þórodds frá Þóroddsstöðum 4ða árið í röð. Tveir heiðursverðlaunastóðhestar í viðbót eru undan Laugarvatns/Þóroddsstaðahrossum (Gári undan Limru frá Laugarvatni og Nökkvi undan Anga frá Laugarvatni). Einn heiðursverðlaunahesturinn í viðbót er afkomandi Laugarvatnshrossa, þótt nokkru lengra sé að rekja það (Garri – Angi er langafi hans).
b) fimm hross sýnd í kynbótadómi
1. Trausti 4v. aðaleink. 8,44, hæsti dómur ársins á 4ra vetra stóðhesti. Trausti er undan Þresti frá Hvammi og Snót frá Þóroddsstöðum. Snót er undan Aroni frá Strandarhöfði og Dömu frá Þóroddsstöðum, dóttur Nökkva frá Geldingaholti (Angasonar) og Glímu frá Laugarvatni (Dreyradóttur frá Álfsnesi).
Í bakættum Trausta er óslitinn straumur flugvakurra og fjölhæfra gæðingshrossa. Glíma er langamma hans, eins og áður sagði, hún var undan Sjöfn, dóttur Slaufu, dóttur Fjaðrar frá Tungufelli, sem kalla má upphafshryssu hrossaræktar á Laugarvatni/ Þóroddsstöðum.
Í þessu baklandi getur að líta helstu merkisbera í einni stærstu hallarbyltingu sem gerð hefur verið í íslenskri hrossarækt: Hrafn 802 frá Holtsmúla, Náttfara 776 frá Ytra-Dalsgerði, Sörla 653 frá Sauðárkróki, Ófeig 882 frá Flugumýri, Þátt 722 frá Kirkjubæ, Gáska frá Hofsstöðum. Segja má að Orri frá Þúfu tilheyri næstu byltingarbylgju, hann er líka á bak við Trausta.
Trausti er rauðblesóttur, léttbyggt og léttstígt alhliða gæðingsefni. Hann var auðtaminn og afar skapljúfur. Að sögn fór hann snemma vetrar að gefa til kynna úr hverju hann var gerður.
2. Hnokki 8v. geldingur, aðaleink. 8,59 (hæfileikaeink. 8,89). Hnokki er óvenjulegur gæðingur, eins og dómurinn segir til um – og hefur einnig unnið eftirtektarverð afrek á hringvellinum, einkum í fimmgangi, en einnig í fjórgangi og tölti. Hnokki er undan Dömu frá Þóroddsstöðum og Aroni frá Strandarhöfði, og þannig eiga þeir Trausti margar greinar sameiginlega í sínu ættartré. Það gildir líka um þau hross sem talin verða hér á eftir, og fylla flokk sýndra hrossa frá Þóroddsstöðum árið 2015 – og skipa Hrossaræktarbúinu á Þóroddsstöðum á bekk meðal tilnefndra ræktunarbúa ársins 2015:
3. Fáfnir 7v. aðaleink. 8,29 u. Aroni Strandarhöfði og Klukku frá Þóroddsstöðum, Þorradóttur frá Þúfu og Áslaugar frá Þóroddsstöðum, Kjarvalsdóttur frá Sauðárkróki
4. Tinna 8v. aðaleink. 8,15 u. Glampa frá Vatnsleysu og fyrrnefndrar Klukku frá Þóroddsstöðum.
5. Nökkvi 5v. aðaleink. 7,90 u. Keili frá Miðsitju og Blökk Þyrnisdóttur og Jöru frá Laugarvatni
Keppnisárangur er í rauninni fyrst og síðast ræktunarárangur. Hrossaræktarbúið á Þóroddsstöðum er nú tilnefnt í flokki keppnishrossa annað árið í röð, og segja má að það styðji mjög tilnefninguna um ræktunarbúið. Hér getur að líta helstu afrek á keppnisvellinum 2015:
c) Hnokki IS 2007188805 sýndi sjaldgæfa fjölhæfni og tók þátt í 3 greinum í uppsveitadeild: Fjórgangi (2. sæti, eink 7,0 / fimmgangi (1. sæti, eink. 7,3 og tölti (1. sæti, eink. 7,4).
Hnokki varð efstur í 5-gangi í fyrri umferð Úrtökumóts fyrir HM á Kjóavöllum, (eink. 7,13).
Hnokki hlaut 6,93 í forkeppni í tölti (T3) á Meistaramóti Spretts 5. september, og keppti til úrslita í greininni.
d) Hera IS 2005288800 varð Íslandsmeistari í 100 m flugskeiði á 7,49 sek. (Íslandsmót á Kjóavöllum). Þetta var þriðji Íslandsmeistaratitill Heru í röð í 100 m flugskeiði: 2013, 2014, 2015.
Hera á besta tíma ársins í 100 m flugskeiði, 7,42 sek.
Hera á næst besta tíma sumarsins í 250 m skeiði, 22,1 sek. (Úrtökumót fyrir HM á Kjóavöllum, 1. sæti)
Hera varð í þriðja sæti í 250 m skeiði á 22,3 sek. (Íslandsmót á Kjóavöllum)
Hera vann flugskeið Meistaradeildar 2015 og varð í 2. sæti í 150 m (14,84 sek.)
e) Glúmur IS 2007188806 á best 7,81 sek. í 100 m flugskeiði (Skeiðleikar 5) og 22,8 sek. í 250 m skeiði (Meistaramót Spretts). Glúmur varð annar í flugskeiði Uppsveitadeildar.
f) Blikka IS 2006288809 á nokkra frábæra tíma í 150 m skeiði, best 14,59 sek. (Meistaramót Spretts). Hún sigraði 150 m skeið á 14,83 sek. (Skeiðleikum 4) og hreppti oftar verðlaunasæti. Blikka hljóp 100 m flugskeið á 7,89 sek. (Skeiðleikar 5)
g) Dís IS 2005288804 fór 100 m flugskeið á 8,28 sek. og 150 m skeið á 15,72 sek. (Skeiðleikar á Selfossi)
h) Randver IS 2008188800 fór 150 m skeið á 14,89 sek. (Meistaramót Spretts) – á fyrsta keppnisári
i) Goði IS 2003188801 fór á 15,27 sek. í 150 m skeiði og 23,74 sek. í 250 m skeiði.
j) Vera IS 1999288806 fór 100 m skeið á 7,84 (Svíþjóð)
k) Tinna IS 2007288804 komst í úrslit í 5-gangi á Icy-cup í Svíþjóð, eink. 6,10
l) Fáfnir IS 2008188804 hlaut 8,54 í forkeppni A-flokks á Stórmóti Geysis
m) Dagsbrún IS 2009288811 varð efst í A-flokki í gæðingakeppni Hmf. Trausta á Þorkelsvelli í júlí.
n) Elding IS 2005288815 varð efst (að samanlögðu) á vetrarmótum Loga/Trausta, og komst svo í úrslit í töltmóti Loga/Smára/Trausta í apríl.
Bjarni Bjarnason varð stigahæsti knapinn í Uppsveitadeild og lið hans, Arionbankaliðið, annað stigahæsta liðið.
Undir hans stjórn unnu Þóroddsstaðahrossin langflest afrekin, sem hér eru talin. Bjarni er nú tilnefndur í flokki skeiðknapa ársins 2015, annað árið í röð.
Folöldin og veturgömlu tryppin á Þóroddsstöðum eru undan eftirtöldum hestum: Þóroddi frá Þóroddsstöðum, Lord frá Vatnsleysu, Nóa frá Stórahofi, Organista frá Horni, Lexus frá Vatnsleysu, Króki frá Ytradalsgerði, Gikki frá Þóroddsstöðum (3v. u. Sæ Bakkakoti) og Stála frá Kjarri.
Í sumar fóru flestar hryssurnar undir Trausta frá Þóroddsstöðum, en líka er von á folöldum undan Aðli frá Nýjabæ og Forseta frá Vorsabæ.
3ja og 4ra vetra tryppi, sem frumtamin hafa verið, eru undan Þóroddi, Grími frá Neðra-Seli, Gaumi frá Auðsholtshjáleigu, Ás frá Ármóti, Kvisti frá Skagaströnd, Sæ frá Bakkakoti, Arði frá Brautarholti, Þresti frá Hvammi, Hróki frá Efstadal, Hvessi frá Ásbrú, Verði frá Árbæ, Ísadór frá Efra-Langholti, Kráki frá Blesastöðum.