Þessi mynd (eidfaxi.is) er af sigurvegurum í 150 m. skeiði á Metamóti Spretts um liðna helgi. Jörpu hestarnir eru synir Þórodds frá Þóroddsstöðum: Dalvar frá Horni (14,23 sek) og Ormur frá Framnesi (14,58 sek).
Tvö Þóroddsstaðahross voru í hópi þeirra sem fóru á svipuðum tíma. Blikka fór á 14,59 og nýliðinn Randver á 14,89. Kjarvals- og Þokudóttirin Blikka sýndi fáheyrt öryggi, fór alla fjóra spretti gilda og bætti sig í hverri raun. Randver er sonur Illings og Gunnar – hann er fjórða afkvæmi móður sinnar sem lætur verulega að sér kveða í kappreiðaskeiði. Hin eru Kolbeinn (heimsmeistari í gæðingaskeiði og handhafi eins besta tíma sem náðst hefur í 250 m, 21,5 sek), Hrund og skeiðdrottningin Hera, Íslandsmethafi í 250 m skeiði, Landsmótsmeistari í sömu grein og þrefaldur Íslandsmeistari í 100 m skeiði (2013, 2014, 2015). Við þetta má bæta að Glúmur frá Þóroddsstöðum vann gott afrek í 250 m skeiði á fyrrnefndu móti, fór sprettfærið á 22,8 sek – á sínu fyrsta keppnistímabili. Hann er farinn að sýna af sér fádæma skeiðhörku, og aðeins tímaspursmál að allt smelli saman, startið, niðurtakan og sjálfur skeiðspretturinn – þá gerist eitthvað frásagnarvert, spái ég.