Trausti frá Þóroddsstöðum, rauðblesóttur 4ra vetra stóðhestur, fór í kynbótadóm á Gaddsstaðaflötum í dag.
Trausti er undan Þresti frá Hvammi og Snót frá Þóroddsstöðum, Aronsdóttur og Dömu, Glímudóttur, Sjafnardóttur, Slaufudóttur, Fjaðrardóttur frá Tungufelli – svo nefndar séu formæðurnar, allt 1. verðlauna hryssur og 3 af þeim með heiðursverðlaun f. afkvæmi.
Útkoman var sérlega glæsileg: Bygging 8,23 – Hæfileikar 8,58 – Aðaleinkunn 8,44. Þetta er hæsti dómur ársins á 4ra vetra stóðhesti, er mér sagt.
Eigandi Trausta og ræktandi er Bjarni Bjarnason – að þessu sinni fékk hann félaga sinn og stórsnillinginn Árna Björn Pálsson til að sýna.
Trausti er einkar fínlegur stóðhestur, nettur og fallega byggður. Snemma vetrar varð ljóst að hér var á ferðinni óvenjulegt gæðingsefni. Hér hefur flestum heimamerum verið haldið undir Trausta nú þegar, svo nú er pláss fyrir aðkomumerar.