Enn og aftur lætur skeiðdrottningin Hera frá Þóroddsstöðum að sér kveða. Nú sigraði hún í skeiðkappreiðum landsmóts (250 m. skeið), og setti í leiðinni Íslands- og heimsmet: 21,76!
Þessi árangur Bjarna Bjarnasonar og Heru frá Þóroddsstöðum er engin tilviljun, og hiklaust má segja að markviss ræktun og áratuga undirbúningur og vinna liggi hér að baki – þótt mestu varði í augnablikinu einbeittur vilji þess sem um tauminn heldur og trú hans á verkefnið.
Undir öruggri stjórn eiganda síns og knapa, Bjarna Bjarnasonar, er Hera nú orðin sú ofurstjarna sem okkur Þóroddsstaðabændur hefur lengi grunað að orðið gæti. Þetta afrek hefur leyst úr læðingi tilfinningar sem ekki verður reynt að greina frá hér. Segja má að öll kappreiðasaga frá LM 1958 rifjist nú upp, en þá sigraði 250 m skeiðið gæðingur afa míns, Bjarna Bjarnasonar skólastjóra á Laugarvatni. Hesturinn hét Trausti frá Hofsstöðum, og í höfuðið á honum hestamannafélagið hér um slóðir. 1962 varð annar gæðingur sama manns í 1.-2. sæti á landsmóti, Gustur frá Hæli. Knapinn var í báðum tilfellum Skúli Kristjónsson í Svignaskarði, fjölskylduvinur á Laugarvatni. Þriðji afrekshestur Bjarna skólastjóra var Blakkur frá Gullberastöðum (f.1947). Hann sigraði í gæðingakeppni og 250 m skeiði á FM 1961 á Gaddstaðaflötum.
Ræktunarsaga skeiðhrossanna frá Laugarvatni/Þóroddsstöðum er um það bil jafngömul þessum afrekum. 1961 fæddist Sindri, sonur Fjaðrar frá Tungufelli og Silfurtopps frá Reykjadal. Sindri varð í fyllingu tímans einhver alsnjallasti vekringur allra tíma, amk. tæknilega séð: Honum var hleypt af fullri snerpu fram á línu, og tekinn niður með snöggu léttu bragði. Margir snjallir vekringar hafa síðan orðið til: Slaufa, systir Sindra; Hera eldri; Sóley Birkis; Ás frá Hesti; Áki Þorkels Þ.; Hari BÞ.;Þoka Þ. Bj.; Gunnur og afkvæmi hennar: Hera títtnefnd, Kolbeinn og Hrund; Vera (sigurvegari í 100 m flugskeiði á LM 2014 á 7,36); Dís og Blikka, og síðast nefni ég – í bili, því mörg bíða átekta – einn þann alefnilegasta, Goða frá Þóroddsstöðum.
Ógleymanleg augnablik rifjast upp, líka mistökin: Var Sindri rétt að segja að tryggja sér landsmótssigur 1978, þegar hann lenti í forarvilpu og fór upp rétt við marklínuna? Var svipað uppi á teningnum þegar Heru eldri fipaðist er fáir metrar voru í endamarkið á LM 1974? Fjórir sögulegir 150 m sprettir Áka á Murneyri, sá besti á 13,9 sek. Geysisprettir hjá Gunni og Bjarna mínum 14 ára gömlum á Hellu og síðan á LM 2000 í Rvík (13,9 sek.) Kolbeinn (og Bjarni) að taka alla keppinauta sína í ævintýraspretti á FM í Hornafirði, sigldi fram úr þeim einum af öðrum, hratt og örugglega. Vera og Þorkell Bjarnason sigra á 1. Skeiðleikum 2010, og gefa fyrirheit um það sem koma skal. Vera og Camilla Petra stinga alla af í Mosfellsbæ 2011, tíminn 14,35. Vera og Bjarni í ógleymanlegum kappspretti við Óðin Búðardal, hnífjöfn í mark og tíminn 14,14 (Metamót Andvara 2011). Vera og Bjarni Íslandsmeistararar í 150 m skeiði 2011. Vera og Vigdís Matthíasdóttir landsmótsmeistarar 2014 í 100 m flugskeiði á 7,36.
Hera yngri 6 vetra á LM 2011 á Vindheimamelum, naumlega í 2. sæti á 7,52. Hera Íslandsmeistari í Borgarnesi 2013, Hera á Reykjavíkurleikum 2014 langfyrst á 22,3. Hera í fyrri spretti seinni umferðar á LM 2014 á 22,13. Og – eins og segir orðrétt í inngangi hér að ofan – Enn og aftur lætur skeiðdrottningin Hera frá Þóroddsstöðum að sér kveða. Nú sigraði hún í skeiðkappreiðum landsmóts (250 m. skeið), og setti í leiðinni Íslands- og heimsmet: 21,76!