Vetrarmót Loga og Trausta var haldið á laugardaginn. Þau fóru með þrjú hross, systkinin. Bjarni fór með Hrefnu í unghrossaflokkinn og Tinnu í aðalflokkinn, hvar Ragnheiður tefldi fram Eldingu.
Hrefna (u. Þóroddi og Kolbrúnu) varð þriðja í tryppaflokknum, og kom mjög vel fyrir. Tinna (u. Glampa Vatnsleysu og Klukku) hlaut sama sæti í opna flokknum, og var kannski ekki eins mögnuð og hún er búin að vera hérna heima undanfarið – fór þó prýðilega þegar hún fór að hitna.
Ragnheiður gerði sér lítið fyrir á Eldingu (u. Þóroddi og Bliku) og vann aðalflokkinn, sannarlega að verðleikum. Það er alltaf hægt að treysta á Eldingu, hvað sem hver segir.
Annars er gaman að segja frá því að Traustafélagar fjölmenntu og stóðu sig vel, hlutu t.a.m. 3 efstu sætin í flokki eldri hrossa. Þátttakan í yngri flokkunum var hins vegar lítil, og alls engin af hálfu Traustafólks í barna- og unglingaflokkum. Vonandi stendur það til bóta með hækkandi sól.