Þessa daga er verið að útskrifa í bili nokkur heimatryppi, sem hafa verið í frumtamningu sl. uþb. sex vikur – og önnur sem voru nú í haust að byrja í 2. bekk.
Af þessum hópi er allt gott að frétta, allt þægt og meðfærilegt, ganghreint og í langflestum er töltið innan seilingar.
Einhver þessara tryppa verða sjálfsagt inni í vetur, það hefur engin lokaákvörðun verið tekin um það og ræðst auðvitað af því hvernig verkefnastaðan verður að öðru leyti.
Þröm er 3ja vetra rauð hryssa undan Snót og Þóroddi. Hún kynnir sig afar vel.
Hvöt er 3ja vetra rauðglófext hryssa undan Frigg og Hvessi frá Ásbrú, Þóroddssyni. Hún er reiðhestsleg.
Furða er 3ja vetra gráskjótt hryssa undan Bliku og Kvisti frá Skagaströnd. Hún gæti komið vel til.
Hressing er 3ja vetra rauð hryssa undan Heru og Tígli frá Gýgjarhóli. Hún er til alls líkleg.
Rót er 3ja vetra sótrauðstj. hryssa undan Gerði og Grunni frá Grund, Þóroddssyni. Hún er ganggóð og mjúkgeng.
Stikla er 3j vetra brún hryssa undan Æsu og Stála. Hún er reisnarlítil, en vel geng.
Flosi er 4ra vetra brúnn foli undan Klukku og Þóroddi. Hann er gullfallegt reiðhestsefni, nú seldur Guðmundi Gíslasyni, einum tryggasta viðskiptavini og talsmanni Þóroddsstaðahrossa.
Fluga er 4ra vetra grástj. hryssa undan Bliku og Þóroddi. Hún verður góð.
Gloría er 4ra vetra brún hryssa undan Glettu og Þresti frá Hvammi. Hún er smávaxin, en kná.
Meining er 4ra vetra rauðglófext hryssa undan Hæru í Miðengi og Þóroddi. Hún er bráðefnileg.
Að auki hafa verið tamin hér í haust nokkur tryppi frá góðum viðskiptavinum – og lofa góðu: Tvö frá Snæbirni Efstadal u. bræðrunum Hróki og Elliða, ung Gaumsdóttir, sameign þeirra Snæbjörns í Austurey og Guðríðar bæjarfulltrúa í Kópavogi, ungur rauðblesóttur Stálasonur frá sr. Baldri Kristjánssyni, brúnn efnishestur frá Benedikt Skúlasyni, annar rauður frá Rúnari Gunnarssyni, tveir hestar frá Ingibjörgu Svínavatni, foli frá Litla-Hofi í Öræfum og nýútskrifuð eftir tveggja mánaða tamningu er grá hryssa stórmyndarleg (5 vetra) frá Hreini bróður mínum, þæg og góðgeng Goðadóttir frá Þóroddsstöðum.
Í næstu viku er svo á dagskrá að byrja á næsta hóp, 4ra vetra folum. Meira um það síðar.