Viðtal við pistlahöfund thoroddsstadir.is birtist í Eiðfaxa í dag, tekið að aflokinni málstefnu um hrossarækt, sem haldin var á Hvanneyri á dögunum. Viðtalið tók hin kunna hestakona Birna Tryggvadóttir Thorlacius, og birtist það hér í fullri lengd.

Trúverðugleiki og vinnugleði
Birna Tryggvadóttir Thorlacius

Nú á haustdögum hélt Landbúnaðarháskóli Íslands og Fagráð í hrossarækt málþing á Hvanneyri sem bar yfirskriftina „Hvernig náum við meiri árangri?” Þar fluttu starfandi kynbótadómarar framsögu um hvernig kynbótakerfið og dómakerfið virkar og efni því tengt. Þetta málstefnufyrirkomulag er vonandi eitthvað sem komið er til að vera, og mætti sjá fyrir sér að uppskeruhátíð hestamanna komi í lok ráðstefnunnar ár hvert.

Einn af þeim sem kvaddi sér hljóðs í opnum umræðum á þessu málþingi var Bjarni Þorkelsson. Bjarni hélt langt og ítarlegt erindi og ræddi málin út frá sínu sjónarhorni. Bjarni hefur verið viðloðandi hestamennsku frá barnsaldri og hefur komið að henni frá hinum ýmsu hliðum hennar. Hann var til að mynda í Fagráði í fjögur ár og er þar af leiðandi öllum hnútum kunnugur.

Okkur lék forvitni á að vita hvað það væri sem drifi þennan ötula mann fram að tala fyrir fullum sal af fólki af svo miklum eldmóð.
Gríðarleg vonbrigði með vinnubrögðin
Aðspurður um hvað fengi hann til að stíga fram og halda erindi á málþinginu sagði Bjarni ástæðuna vera þá að honum ásamt fleirum fannst þeir hafa verið sviknir. Eftir atburðinn á Selfossi í vor (beinu útsendinguna úr dómpalli) sendu Bjarni og félagar hans bréf til fagráðs og tjáðu óánægju sína. Svar fagráðs var á þann veg að þeir vísuðu á málþingið. „Þetta var það eina í bréfinu sem gaf einhverja von um að við þessu yrði brugðist” sagði Bjarni um viðbrögð fagráðs .
„Ég túlkaði svo auglýsinguna um málþingið sem algjört rof á því sem heitið hafði verið, hafði aldrei látið hvarfla að mér að Fagráð í hrossarækt léti hafa sig út í það að snúa svona útúr þessu,” sagði Bjarni. „ Og það var megin ástæðan fyrir því hvernig ég hagaði orðum mínum á málþinginu”.

Ekki er annað að skilja á yfirlýsingu Fagráðs frá fundi þess 1. júlí, en að Fagráð ætli búgreinafélögum og aðalfundi Félags hrossabænda að taka afstöðu til aðalerindis þeirra félaga, þ.e. þess sem fram kom í beinu útsendingunni, þar sem hraunað var yfir hesta og menn, og fram komu athugasemdir sem engan veginn ríma við áherslur Fagráðs. Bjarni telur það næsta furðulegt að vísa slíku máli til félagskerfis hestamanna, í stað þess að taka á því á réttum vettvangi. Í kjölfarið hljóti nú að berast formlegt erindi frá Fagráði til nefndra aðila, með ósk um fyrirtekt og afgreiðslu!

Vinnuumhverfi hrossaræktenda
Aðspurður um hans tilfinningu og skoðun á því hvað einkenni vinuumhverfi hrossaræktenda segir Bjarni að honum finnist starfsumhverfið vera erfitt nú um stundir. Honum finnst það til að mynda óviðunandi að menn þurfi yfir höfuð að hugsa út í það hjá hvaða dómnefndum þeir lenda hverju sinni. Bjarni kom á málþinginu orðum að mikilvægi þess að hrossaræktarráðunauturinn passaði uppá að viðhalda vinnugleðinni sem löngum hefur einkennt umhverfi hrossaræktenda: Tali til ræktenda, knapa og áhorfenda, kynni sér málin, komi á bæina og sé með fólkinu. Að mati Bjarna á það ekki að vera í höndum utanaðkomandi aðila að tala til fólksins í brekkunni heldur eigi það að vera í höndum hrossaræktarráðunautarins að sinna þeim lið, það ætti að vera eitt af hans aðalhlutverkum, að minnsta kosti strax og sjálfum reiðdómnum sleppir, ekki síst á landsmótum.

Skortur á meiri tengslum við ræktendur
Bjarni var inntur nánar eftir þessum orðum og þeim tilvísunum sem í þeim felast: „Starfsumhverfið er vissulega ólíkt nú, þ.e. fleiri hross og fleiri bú. Ég er ekki að segja að það sé sjálfgert eða auðvelt að viðhalda þessu gamla vinnulagi, en það er samt mikils virði – að minnsta kosti er ég sannfærður um að það er verðugt verkefni að upphugsa leiðir til að viðhalda vinnugleðinni, létta andrúmsloftið og bæta starfsumhverfið.”

Bjarni hefur þessa dagana heyrt í mörgu fólki sem man tímanna tvenna og vitnar gjarnan í þessa gömlu tíma þegar meira var unnið með fólkinu. „ Þeir eru ófáir sem vitna nú í andrúmsloft sem hafi verið annað áður, það þurfi að peppa menn upp.”

Vandamálið liggur ekki í kerfinu sjálfu
Bjarni talar um að sett hafi verið á laggirnar málþing eða ráðstefna sem gekk út á það að sannfæra fólk um að kerfið væri gott. „Það er hins vegar ekki kerfið sjálft sem mér er efst í huga akkúrat núna, heldur þær brotalamir sem ásannast hefur að eru til staðar.”
Bjarna finnst sem sagt vandamálið ekki liggja í kerfinu sjálfu, þó svo að sjálfsögðu mætti svosem alltaf bæta það, og þyrfti auðvitað að vera sífellt til skoðunar:
„Hins vegar fá nýjar og gamlar kröfur um gerbreytingu á kerfinu auðvitað byr undir báða vængi þegar svona uppákomur verða, ofaní rökstudda gagnrýni sem eðlilega er haldið á lofti.”
Máli sínu til stuðnings nefndi Bjarni að samræmi milli einstakra dómnefnda, hér á landi sem og á milli landa, væri oft ábótavant. Þá væru vægari menntunarkröfur gerðar til dómara erlendis, en allir dómar gengju jafnréttháir inn í World-Feng. „Það getur vel verið að það sé ekki auðvelt að laga þetta en það verður allavega ekki gert nema það sé viðurkennt að vandinn sé fyrir hendi.”

Í þeim hópi dómara sem nú væri að störfum, er augljóslega fólk sem ekki er hæft vegna fordóma og aðra skorti hreinlega ýmislegt af því sem þarf til að öðlast nægjanlegan trúverðugleika gagnvart fólkinu, sem kaupir af þeim þjónustuna.
„Ég myndi segja að reynsla og traust væri það sem að þyrfti að prýða góðan dómara og mikill og góður alhliða hestamennskubakgrunnur – með tilskilinni menntun.
Það er erfitt að setja fram svona gagnrýni, því að hún hittir líka fyrir margt af því góða fólki í dómarastéttinni sem henni er alls ekki beint að. En það verður ekki undan vikist. Og þess heldur er það lífsspursmál allrar búgreinarinnar, kynbótadómaranna líka, að tekið sé á málum af festu og þeir settir útaf sakramentinu sem til þess hafa unnið – að minnsta kosti þangað til annað hefur verið ákveðið.”
Jafnframt benti Bjarni á að nýliðun væri nauðsynleg í dómarastéttinni og minnti á mikilvægi þess að fólk geti unnið sig upp og öðlast reynslu með reyndari menn sér við hlið.

Trúverðugleikinn hefur laskast
Um þær hugmyndir sem á kreiki hafa verið um nýtt og breytt fyrirkomulag í dómgæslu, þ.e. að hver og einn dómari dæmi fyrir sig og aðgengi dómara að grunnupplýsingum um einstaka hross séu ekki fyrir hendi, segir Bjarni:
„Þetta fær byr undir báða vængi af því að trúverðugleikinn hefur laskast.
Ég tala þó ekki fyrir þessum breytingum að sinni, að skipta upp dómurunum. En ef áfram verður skellt við skollaeyrum og vandinn ekki viðurkenndur, þá tel ég þetta vera skásta kostinn til að leysa málið – að gera ekki neitt er ekki í boði.”

Misgengi í stefnumótun Fagráðs og áherslum hjá einstaka dómurum og dómnefndum finnst Bjarna hróplegt á stundum, og nefndi sem dæmi orð sem féllu í beinu útsendingunni á Selfossi.

Í útsendingunni mátti heyra settar fram kröfur sem aðeins ætti að gera til þaultamdra og fullorðinna íþróttakeppnishrossa. Orð, sem þar féllu, gangi til að mynda þvert á orð Víkings Gunnarssonar í ræðu hans á málþinginu. Þar tók Víkingur af öll tvímæli: Kynbótasýningar eru ekki íþróttakeppni, sagði hann. Annað hefur oft virst uppi á teningnum við dóma – og fékkst rækilega staðfest í beinu útsendingunni á Selfossi.

Telur að hægt sé að bæta starfsumhverfið
Að lokum var Bjarni spurður út í það hvernig og hvort hann teldi að hægt væri að bæta starfsumhverfið. Hann taldi svo vera – en forsenda þess væri að forsvarsmenn viðurkenndu að það þyrfti yfir höfuð að bæta starfsumhverfið, það væri fyrsta skrefið.

Hann vildi meina að eins og staðan væri í dag að það væri hreinlega ekki viðurkennt að það væru brotalamir í þessari dómaframkvæmd. „Það þarf að brjóta odd af oflæti og viðurkenna vandann. Á því grundvallast það að hægt sé að laga og bæta málin í framhaldinu á sem farsælastan hátt – og meira þarf ég og fjölmargir aðrir ekki að heyra til að byrja með, við það myndi ég sætta mig í bili. ”

%d bloggers like this: