Ég ætla fyrst að segja frá því að ég skráði mig af bragði og fyrirvaralaust á Málþing um hrossarækt, sem auglýst var á dögunum. Ég stóð í þeirri trú að það væri haldið að gefnu tilefni – hélt raunar að málþingið væri beinlínis viðbragð Fagráðs í hrossarækt við því umróti sem varð vegna beinnar útsendingar frá störfum dómnefndar kynbótahrossa á Selfossi í vor, og að þar myndi svarað erindum sem til ráðsins hafði verið beint í kjölfar þess sögulega atburðar. Eða hvernig átti að skilja niðurlag bréfs sem Fagráð sendi mér 1. júlí: „Í framhaldinu hefur Fagráð nú ákveðið í samráði við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri að boða til málþings um kynbótakerfið o.s.frv.“
Í fyrstu auglýsingu um málþingið var ekkert getið um dagskrá eða frummmælendur, en yfirskriftin óneitanlega frekar lofandi, þótt í spurnarformi væri: Hvernig náum við betri árangri í hrossarækt?
Þegar svo kom að því að dagskráin var auglýst, var þar ekkert sem benti til þess að fjalla ætti um málin út frá þeim tilefnum sem gefist hafa. Þar á ég við, svo dæmi séu tekin:
1. Beinu útsendinguna á Selfossi og viðurlög við því sem þar kom fram.
2. Háværa kröfu um að fyrirkomulagi dómstarfanna verði gjörbreytt.
3. Rökstuddar efasemdir um að samræmis gæti milli dómnefnda hvar sem þær starfa hér á landi og ekki síður erlendis.
4. Mismunandi menntunarkröfur til dómara hérlendis og erlendis.
5. Hæfis- og siðareglur dómara.
6. Ábyrgð dómnefndarformanna.
7. Skort á trausti til einstakra dómnefndarmanna.
8. Meint misgengi í stefnumótun Fagráðs og áherslum einstakra dómara og dómnefnda.
Margt fleira er lítt eða ekki rætt, m.a. tillögur um breytt fyrirkomulag landsmótsdóma og að leggja af yfirlitssýningar, svo ekki sé minnst á aðrar raunhæfar aðgerðir vegna skýrslu dýralæknis hrossasjúkdóma um áverka og álag á sýningarhrossum.
Til alls þessa og margs fleira hafa einstaklingar og félagasamtök beðið Fagráð að taka afstöðu – bréflega en árangurslaust –og vissulega eru þetta allt atriði sem geta haft áhrif á svarið við lykilspurningunni hér að ofan: Hvernig náum við betri árangri ?
Allir frummælendur á málþinginu eru innmúraðir fulltrúar kerfisins, sem gagnrýnt hefur verið og liggur nú undir ámæli. Engan tón annan virðist eiga að slá, ekkert hljóð virðist eiga að heyrast úr horni. Einn auglýstra frummælenda var í dómnefndinni sem beraði sig fyrir útvarpshlustendum á Selfossi í vor, og túlkaði þar sjónarmið sem trauðla fara saman við áherslur Fagráðs, eins og ég hef skilið þær.
Hefur Fagráð mælt fyrir um þetta einstefnufyrirkomulag málþingsins? Hver er annars aðkoma Fagráðs að skipulagningu þessa viðburðar? Allir hafðir með í ráðum, væntanlega?
Og hvernig er yfirleitt hægt að halda málþing með annarri eins yfirskrift og lykilspurningu eins og þessari hér: „Hvernig náum við betri árangri í hrossarækt“ án þess að hrossaræktendur sjálfir séu spurðir, og þeirra álits leitað að minnsta kosti til jafns við þá fulltrúa kerfisins sem hér hafa talað? Nú þurfa menn að átta sig á því hvor aðilinn er í þjónustuhlutverki og fær borgað fyrir vinnuna sína. Hvernig er yfirleitt hægt að ná betri árangri í hrossarækt án aðkomu hrossabænda? Hverjir eru annars þessir „við“ sem vísað er til í yfirskriftinni? Af hverju eru hrossabændur ekki hér meðal framsögumanna? Hafa þeir ekkert til málanna að leggja? Eru ekki hrossabændur þeir lykilmenn sem allt grunnstarfið hvílir á? Þeir borga á endanum brúsann hvað sem hver segir, meðal annars síhækkandi þjónustugjöld og álögur í sambandi við skylduga hluti á borð við örmerkingu, grunnskráningu, DNA sýni, blóðsýni, spattmyndatökur, aðgang að Veraldarfeng, kynbótadóma, almenna ráðunautaþjónustu og hvers kyns skráningarvinnu, svo ekki sé talað um einstaka þúsundkall fyrir aðgang að málstefnum og fræðslufundum.
Ef það er tilfellið, sem ætlast mætti til fyrirfram, að Fagráð hafi komið óskipt að undirbúningi þessa málþings, þá sýnist mega telja að skipuleggjendur málþingsins – og sjálfsagt þeir fulltrúar kerfisins sem auglýstir eru sem frummælendur – líti svo á að til þess að ná betri árangri skorti okkur hrossabændur einvörðungu meiri og betri uppfræðslu um kynbótamatið og kynbótadómana og einhliða leiðbeiningu þess fólks sem við þá starfar. Allt muni verða slétt og fellt, ef við hefðum bara betri skilning á þessum vísindum.
Sérstök athygli er hér vakin á því að Endurmenntunardeild LBHÍ hefur verið falið að hafa veg og vanda af „námskeiðshaldinu“ og rukkar um þátttökugjald.
Þótt taka megi undir að símenntun um þessa hluti alla sé góð og gild, þá hafa atvikin hagað því svo til að þessi almennu þekkingaratriði, sem nú virðist eiga að hamra í gegnum svellþykkar höfuðskeljar hrossabænda, eru ekki efst í huga okkar flestra um þessar mundir. Það er raunar trú margra, eins og fram hefur komið, að leiðin að betri árangri í hrossarækt liggi ekki síst í því starfi sem unnið er úti á akrinum. Farsælt væri að viðhalda vinnugleðinni sem löngum hefur ríkt úti á þeim akri, þrátt fyrir misjafnt gengi og rysjótt tíðarfar. Þar hefur hrossaræktarráðunautur ávallt gegnt lykilhlutverki, að blása mönnum í brjóst von og trú á verkefnið, ekki síst þegar róðurinn er þungur. Líka á því byggist hin jafna stígandi og óumdeildi árangur sem náðst hefur í hrossarækt á umliðnum áratugum.
Ekkert í auglýsingu um Málþing í hrossarækt benti til þess að þau él birti senn upp, sem á dundu í vor. Átti ég samt að fara vestur á Hvanneyri og taka þátt í málþingi sem allt benti til – samkvæmt auglýsingu – að fjallaði um málefni sem ég hef lagt mig fram um að meðtaka í áratugi, en eru mér sannast sagna ekkert sérstaklega hugleikin að sinni? Þarna lá efinn, ég var ekki viss……………
Og svo byrjaði yfirklórið. Í samtali við Eiðfaxa á þriðjudaginn sögðu forsvarsmenn ráðstefnunnar að „frummælendur séu valdir með tilliti til þess að farið sé ítarlega yfir hvernig við höfum staðið að málum í íslenskri hrossarækt á undanförnum áratugum“ , svo vitnað sé orðrétt í fréttina. Ég segi nú bara: Hver var að biðja um þess háttar fræðslufund á þessu stigi málsins?
Er þetta ekki svipað og boðað væri til fundar – við skulum segja á Kirkjuþingi – til að ræða viðbrögð við ósæmilegri hegðun biskups eða presta, og svo kæmi hver ræðumaðurinn af öðrum, tilnefndur af Biskupsstofu, og ræddi fjálglega um ýmist kristnitökuna eða siðaskiptin?
Hér er önnur tilvitnun í þetta Eiðfaxaviðtal. Forsvarsmenn málþingsins eru spurðir útí það hvers vegna enginn hrossaræktandi sé í hópi frummælenda: Og svarið er: „Hinsvegar hafi ekki verið auðvelt að ákveða hver ætti að vera helsti og eini talsmaður allra hrossaræktenda í landinu ef á annað borð ætti að velja einn úr þeim hundruðum sem þar hafa haslað sér völl“.
Svo mörg voru þau orð. Hver segir að það hafi verið nauðsynlegt að velja bara einn úr þessum stóra hópi? Hér eru a.m.k. 4 frummælendur í dag, allir úr þröngum hópi innmúraðra, eins og áður segir. Það hefur ekki verið auðvelt að velja þá, býst ég við. Mátti ekki fækka þeim um eins og einn eða tvo og eftirláta félagskerfi hrossabænda að útnefna ræðumenn úr sínum hópi, og taka þannig beiskan kaleik frá skipuleggjendum ráðstefnunnar?
Hingað kominn, þrátt fyrir allt, verð ég að viðurkenna það, að ég er ekkert sérlega fús til að taka þátt í þeim umræðum sem boðaðar eru, á meðan ég hef ekki verið virtur svars um þau atriði sem á brenna. Af hverju ætti ég að halda áfram að klifa á því sem engu er gengt? Telur Fagráð sig of gott til að svara erindum sem til þess er beint? Af hverju stendur formaður Félags hrossabænda og aðrir Fagráðsfulltrúar þess félags ekki með félögum sínum, styður þá og styrkir til að fá sanngjarna úrlausn sinna mála, þegar augljóslega er á þeim brotið?
Það er algerlega óásættanlegt að ekki skuli gert ráð fyrir því í auglýstri dagskrá málþingsins að reifuð skuli formleg erindi sem Fagráði voru send í sumar – og þeim svarað á mannamáli.
Ég er ekki í hópi þeirra manna sem telja að kynbótakerfið í heild sinni sé óferjandi og óalandi og óráðandi öllum bjargráðum. Margir eru herskárri en ég, að minnsta kosti heima í eldhúskrók. Það er hins vegar lykilatriði að horfst sé í augu við veruleikann.
Það eru brotalamir innan kerfisins, og það eru þær brotalamir sem gera það að verkum að trúverðugleikinn laskast og hugmyndir um gjörbyltingu dómstarfanna fá byr undir báða vængi, t.d. krafan um að skipta upp dómnefndum og að dómarar dæmi hver fyrir sig svo rekja megi allar einkunnir til upphafs síns, að ég ekki tali um þær hugmyndir að engar upplýsingar um ættir og uppruna fylgi hrossunum í dóminn, hvað þá eldri dómar.
Þetta eruð þið sjálf búin að kalla yfir ykkur, dómarar góðir, en ekki við sem opnum stundum kjaftinn þegar mikið liggur við.
Strax og Fagráð gaf það út í júlí að boðað yrði til þessa málþings í september rétti ég og félagar mínir fram sáttahönd og sögðumst í bréfi til Fagráðs vera fúsir til samstarfs og samvinnu um málefni hrossaræktarinnar, þrátt fyrir það sem á hefði gengið. Í þá sáttahönd hefur ekki enn verið tekið.
Bjarni Þorkelsson.