Á þessum fyrsta afmælisdegi afastráksins Hróa Bjarna- og Freyjusonar, ætla ég að segja frá því að við gerðum dágóða ferð suður um helgina – nefnilega á Metamót Hestamannafélagsins Spretts. Síðan við vorum þar síðast á ferðinni er sem kraftaverk hafi verið unnið, svo glæsilegt er mótssvæðið orðið undir styrkri stjórn formannsins, míns gamla vinar og bekkjarbróður Sveinbjörns Sveinbjörnssonar frá Hruna.
Mótið fór hið besta fram, eins og hefðbundið er. Veðrið setti þó óneitanlega strik í reikninginn, og segja má að kappreiðarnar á laugardagsmorguninn hafi verið alónýtar, kuldi og rok á móti, völlurinn níðþungur – enda tímarnir eftir því.
Á sunnudaginn var allt annað upp á teningnum, þótt nokkuð vætti. Góðir tímar náðust. Blængur frá Árbæjarhjáleigu (kn. Daníel Ingi Smárason) vann 250 metrana á 22,7, annar varð Jökull Efri-Rauðalæk (kn. Teitur Árnason) á 22,9, þriðja Hera frá Þóroddsstöðum (kn. Bjarni Bjarnason) á 23,9. Heru hlekktist á í startinu, var að lyfta sér þegar opnað var og varð sein út fyrir bragðið. Henni var svo hleypt fram á línu og tekin fimlega niður þótt á kýrstökki væri, og allt fór skaplega úr því. Hera er rétt orðin góð (kannski tæplega?) af fótarmeini, sem að sjálfsögðu hefur líka hindrað þjálfun hennar og hreyfingu að undanförnu.
150 metranir voru afar skemmtilegir og spennandi. Eftir afar harða og drengilega keppni, þar sem Óðni fipaðist undir lokin, bar Hnikar frá Ytra-Dalsgerði (kn. Erling Ó. Sigurðsson) sigurorð af öðrum stórvekringum, fór sprettfærið á 14,18 sek. Annar varð Óðinn Búðardal (kn. Sigurbjörn Bárðarson) á 14,37, þriðji Tumi frá Borgarhóli (kn. Teitur Árnason) á 14,43. Dúkka frá Steinnesi (kn. Tryggvi Björnsson) og Blossi frá Skammbeinsstöðum (kn. Ævar Örn Guðjónsson) voru svo í næstu sætum, líka undir 15 sekúndum. Gola frá Ólafsfirði (kn. Líney M. Hjálmarsdóttir) fór á 15,05. Næstar komu Gletta frá Bringu (kn. Ragnar Tómasson) á 15,13 og Blikka frá Þóroddsstöðum (kn. Bjarni Bjarnason) á 15,16. (Þetta er skrifað eftir minni, því engin heildarúrslit í 150 m skeiði hafa birst í hófapressunni).
Það var virkilega gaman að sjá að Hnikar og Erling eru komnir til baka, ef svo má segja – Hnikar meiddist alvarlega fyrir 2-3 árum og var vart hugað framhaldslíf sem afrekshesti á skeiði.
Þessir höfðingjar, Erling og Sigurbjörn, þátttaka þeirra og metnaður í skeiðkappreiðum, er kannski meira virði en margan grunar við fyrstu sýn. Ég ætla ekki að fjölyrða um það núna, en segi samt að fordæmið sem þeir setja öllu yngra áhugafólki um skeið er stórglæsilegt. Takk fyrir það!
Bjarni Bjarnason var með Blikku Þoku og Kjarvalsdóttur í 150 m skeiðinu, 7 vetra gamla og nánast algeran byrjanda. Hún er nú búin að fara 8 spretti á kappreiðum (þar af 4 nú). 7 þeirra hafa tekist og árangurinn fer síbatnandi. Nú fór hún á 15,16 sek, og var í aðeins seilingarfjarlægð frá verðlaunasæti.
Bjarni var líka með hest frá góðum vini okkar, Guðmundi Gíslasyni sem eitt sinn bjó á Torfastöðum í Biskupstungum. Það er Seiður frá Ytra-Dalsgerði, efnilegur skeiðhestur sem fór nú á 17 sek á sínum fyrstu kappreiðum, að sjálfsögðu mjög fákunnandi.
Í A-flokki gæðingakeppninnar voru að þessu sinni tvö 6 vetra gömul Þóroddsstaðahross, Hnokki og Tinna. Hnokki hlaut 8,37 í einkunn og mikla athygli mótsgesta, það var auðfundið. Tinna fékk 8,27 og kynnti sig einnig vel. Þetta var frumraun beggja á stóru móti, og kannski bara byrjun á einhverju miklu meira.
Ég get ekki látið hjá líða að minnast á það að nokkur afkvæmi Þóroddsstaðahestanna tóku þátt í mótinu og gerðu það gott. Best stóðu sig Þóroddsbörnin Vörður frá Strandarhjáleigu (úrslit í A-flokki) og Melkorka frá Hellu (úrslit í tölti) og Þyrnissonurinn Þytur frá Efstadal (úrslit í tölti, 2. sæti)