Ég fékk á dögunum bréf frá framkvæmdastjóra Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins. Það var einhvers konar viðbragð við opnu bréfi okkar fjögurra félaga til Fagráðs í hrossarækt. Ég ætla ekki að birta bréfið hér, enda lítið á því að græða fyrir áhugamenn um málefnið. Hins vegar ætla ég að birta hérna neðanmáls svar okkar félaga við þessu viðbragði framkvæmdastjórans.
2. júlí 2013
Til stjórnar RML
og framkvæmdastjórans Karvels L. Karvelssonar.
Um leið og kvittað er fyrir móttöku svarbréfs dags. 28. júní 2013, er vakin athygli á því að aðeins fátt af efni bréfsins virðist eiga við sem viðbrögð við erindi okkar félaga. Vissulega var erindinu beint til Fagráðs í hrossarækt og afrit sent stjórn RML – til þess tryggja það að réttar upplýsingar bærust stjórninni um gang mála. Í svarbréfinu segir að tekin sé afstaða til þess „……sem viðkemur framkvæmd dómstarfa“. Ekki sjást þó merki þess – þótt erindið gefi ótal tilefni til þess að tekin sé slík afstaða. Vonandi hefur stjórn RML beint því til Fagráðs að svara erindi okkar félaga undanbragðalaust, þótt ekkert sé um það getið í svarbréfinu.
Það geta ekki talist tíðindi að dómurum sé „ætlað að haga störfum sínum af fagmennsku og gæta hlutleysis“, eins og segir í bréfi framkvæmdastjórans. Hins væri vert að geta, hver viðurlög yrðu, ef útaf brygði með þessi atriði, eins og raun hefur á orðið.
Þá er vakin athygli á því að samkvæmt okkar skilningi á afsagnarbréfi umrædds dómara, þá er uppsögn hans ótímabundin, en ekki bundin við þetta ár, eins og stjórn RML og framkvæmdastjórinn virðist skilja það – og sætta sig við.
Lokasetning bréfsins vekur upp stóra spurningu: Getur stjórn RML sætt sig við að kynbótadómar, sem kveðnir eru upp erlendis – af dómurum sem ekki eru „á vegum eða á ábyrgð RML“ – séu eftir sem áður lagðir til grundvallar kynbótamati íslenska hrossastofnsins, með sama rétti og þeir dómar sem kveðnir eru upp á Íslandi – af dómurum sem uppfylla öll ytri skilyrði um „háskólagráðu í búfjárfræðum og þurfa að hafa staðist sérstakt hæfnispróf Bændasamtaka Íslands“ ? – eins og segir í bréfi framkvæmdastjórans.
Þetta er samvisku- og jafnræðisspurning sem lengi hefur vofað yfir, álitamál sem tími er til kominn að þar til bærir aðilar, þ.m.t. stjórn RML, taki rökstudda afstöðu til. Bent hefur verið á leiðir til þess að leysa þessi mál, en lítt verið til hurðar gengið að hlusta á þær raddir. Nú er líka kominn tími til þess að menn horfist í augu við það að höfuðástæða hinnar almennu kröfu sem nú er gerð um kerfisbreytingar á dómnefndafyrirkomulaginu, og rakið er í nokkrum liðum í erindi okkar félaga, er bullandi vantraust sem grafið hefur um sig að undanförnu. Það vantraust á m.a. rætur í gríðarlegum mun á vinnubrögðum og einkunnagjöf dómnefnda, að dómnefndir eru ekki alltaf skynsamlega saman settar og að menn eru settir til verka sem þeir ráða ekki við. Til flestra þeirra átakamála sem upp hafa komið að undanförnu, hefði aldrei þurft að koma, ef betur hefði verið að þessum málum staðið og rækilega tekið til í dómarahópnum. Það ásannast best þegar dómnefndir eru vel skipaðar.
Það eru vissulega vonbrigði að framkvæmdastjóri og stjórn RML virðist ekki skynja alvarleika málsins, jafnvel þótt skýrt sé að kveðið í erindinu: Að freklega hafi verið á okkur brotið, hugsanlega svo að til skaðabótaskyldu hafi stofnast. Allt virðist nú á huldu um framhaldið. Ekki er hægt að ráða af bréfinu að málið sé í ákveðnum farvegi, eða að þrýst verði á að erindinu verði svarað. Þrátt fyrir þessi fátæklegu viðbrögð munum við bíða átekta þar til svar berst frá Fagráði í hrossarækt.
Virðingarfyllst, Bjarni Þorkelsson, Páll Bragi Hólmarsson, Vilhjálmur Þórarinsson, Már Ólafsson.