Þessi fallega genga hryssa heitir Melkorka frá Hellu. Hún var dæmd í kynbótadómi í Hafnarfirði í vor, og fékk aðeins uþb. 7,30 fyrir hæfileika – 7,5 fyrir tölt. Sú einkunnagjöf vekur upp spurningar: Eru hér á ferðinni almennir niðurrifs-, þunglyndis- og hleypidómar, eða er þetta virkilega ein birtingarmynd þeirrar sterku tilhneigingar í dómkerfinu almennt um þessar mundir: Að gera eðaltölt að meðaltölti?
Melkorka er um þessar mundir lægst dæmda afkvæmi Þórodds frá Þóroddsstöðum, með aðaleinkunn upp á 7,47.
Ég fékk svohljóðandi bréf frá eigandanum um daginn:
Sæll Bjarni,
Í vor fór Þóroddsdóttirin okkar, Melkorka frá Hellu, í kynbótadóm. Í ljósi umræðna sl. vikna eftir dómaraskandalinn á Selfossi langaði mig að benda ykkur á gripinn sem skoraði rétt rúmlega 7,30 fyrir hæfileika, þar af 7,5 fyrir tölt. Hryssan var sýnd á Sörlastöðum þar sem Svanhildur Hall og Sveinn, sem einnig var á Selfossi, auk Herdísar ef ég man rétt, dæmdu. Er það ekki frásögu færandi nema hvað að fólk furðaði sig á dómnum eins og gengur og gerist. Kom mér þetta á óvart sem eiganda, en ákvað að vera ekki hlutdræg og sætta mig við orðin hlut þar sem ég væri augljóslega blind á gæði umræddrar hryssu.
Vikuna þar á eftir við kynbótasýningar á Selfossi opinberar Magnús skoðun sína á Þóroddi og hans afkvæmum, þar sem Sveinn var m.a. meðdómandi. Tengingin við mína hryssu er einnig hjúskapur Svanhildar og Magnúsar, þar sem ég efast ekki um að ræktunarmarkmið umræddra hjóna sé samrýmt. Fóru þá að renna á mig tvær grímur en lét ég kyrrt liggja að segja nokkurn hlut. Viku eftir sýninguna á hryssunni minni fer sýnandinn hennar, hann Snorri Dal, með hana í töltkeppni í Sörla þar sem hún ber sigur úr býtum með einkunnina 6,89. Nú síðast á Gullmótinu í Fáki lenti hún í B-úrslitum með einkunnina 7,23, en því miður var Snorri með tvo hesta og þurfti að velja á milli og ákvað að geyma Melkorku heima þar sem hún hafði, augljóslega, ekki fengið mikla keppnisþjálfun þar sem markið var sett á kynbótasýningar í vor.
Mín skoðun er sú að ekki sé eðlilegt að hryssa fái 7,5 fyrir tölt í kynbótadómi með þeirri athugasemd að hún sé „framtakslaus“, þegar hún sigrar töltkeppni viku síðar með mjög góða einkunn. Ég læt vera mat á öðrum gangtegundum, sem bera þess þó merki að vera henni ekki hliðhollar.
Í kjölfar þessa fann ég mig knúna til að senda RML og Bændasamtökunum bréf og krefjast þess að dómurinn á hryssunni væri afmáður í ljósi framangreindra atburða þar sem mér þótti alvarlega vegið að ákveðnum aðilum, þar á meðal þinni ræktun.
Ég vil þakka ykkur fyrir að láta þetta mál ekki þagna og krefjast úrbóta, bæði fyrir ykkur og okkur hin sem trúum á ykkar ræktun. Gaman verður að sjá hvernig mál framvindast.
Ég læt fylgja með í viðhengi mynd af hryssunni frá mótinu í Sörla.
Kveðja, Helga Björk