Á þriðudag í liðinni viku hlaut Fáfnir frá Þóroddsstöðum 1. verðlaun á kynbótasýningu á Gaddsstaðaflötum.
Fáfnir er 5 vetra stóðhestur undan Aroni frá Strandarhöfði og Klukku frá Þóroddsstöðum, en hún er undan Þorra frá Þúfu og Áslaugu frá Laugarvatni, flugvakurri Stöllu- og Kjarvalsdóttur (besti tími í 250 m skeiði 22,4).
Fáfnir hlaut f. byggingu 8,59, f. hæfileika 8,03, og í aðaleinkunn 8,26. Hæst ber einkunnina fyrir samræmi: 9,5.
Fáfnir sýndist dável og hlaut sanngjarnan dóm. Hann hefur raunar oft verið betri, amk. á tölti og brokki, síðast hjá Danna viku fyrir sýningu, er hann prófaði hann í fyrsta og eina skiptið fyrir sýningu. Hins vegar er það svo með Fáfni að hann tamdist fremur hægt, og er bara ekki kominn mikið lengra en þetta ennþá. Hann er gríðarstór og þurfti að hafa svolítið fyrir því að gangsetja hann. Töltið er orðið afar taktvisst og mjúkt. Stokkast hið geysimikla tagl með fágætum þokka, þá hann er látinn kasta toppi og rúmlega það.
Við trúum því að hann eigi töluvert inni, hann Fáfnir, og erum bara prýðilega ánægðir, Þóroddsstaðabændur, með stöðuna í dag.
Við fórum líka með Funa í byggingardóm, hann fékk 8,50. Funi er undan Sæ frá Bakkakoti og Blökk, dóttur Þyrnis og Jöru frá Laugarvatni, Hrafnsdóttur 802 frá Holtsmúla. Það er efnisfoli, Funi, en á mörkunum að vera tilbúinn í slaginn. Hans tími mun koma.