Þóroddur frá Þóroddsstöðum verður til afnota í Skagafirði frá 20. júní nk.
Þóroddur hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á LM 2012 í Reykjavík, sællar minningar. Í dómsorðum segir m.a. um þennan senuþjóf afkvæmasýningarinnar:
“Flest afkvæmi Þórodds eru alhliðageng með rúmu taktgóðu tölti og skrefmiklu brokki og feti. Skeiðgeta er afbragð og skeiðið ferðmikið og öruggt. Hrossin eru ásækin í vilja og fara vel, sum með úrvals fótaburð.
Þóroddur gefur reist, langvaxin og fótahá, rúm alhliða ganghross, skeiðið best. Þóroddur hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi.“
Margt fleira forvitnilegt kemur fram í dómsorðunum. Segja má að þar sé sagður kostur og löstur á gripnum, rétt eins og starfsskylda kynbótadómaranna býður. Síðan þetta birtist hefur þó ásannast það sem margir vissu, að markvisst hefur verið unnið gegn hestinum innan úr dómarahópnum, sennilega árum saman. Þær raddir hafa ekki þagnað, þótt hesturinn hafi unnið til æðstu viðurkenningar. Þannig hefur – innan úr sjálfu kerfinu – verið kastað rýrð á niðurstöður dómanna og kynbótamatsins og gert lítið úr samstarfsmönnum og þeim sem leiða hrossaræktarstarfið.
Þótt tjón eigenda Þórodds af þessum völdum sé óskaplegt, geta þó eigendurnir borið höfuðið hátt um þessar mundir. Eftir kynbótadóma vorsins er ljóst að meira en helmingur (42 af 81) allra dæmdra Þóroddsafkvæma hefur hlotið 1. verðlaun, og fjöldi þeirra háa og jafna dóma. Arnoddur frá Auðsholtshjáleigu, Hringur frá Skarði, Hrynur frá Hrísdal, Hvatur frá Dallandi, Hera frá Árbæ, Von frá Þóroddsstöðum, Gjöf frá Vindási og Lifun frá Ásbrú eru allt fljúgandi alhliða gæðingar. Lord frá Vatnsleysu, Þrumufleygur frá Álfhólum og Hilda frá Kvistum eru með tígulegustu klárhrossum sem sjást.
Æ fleiri Þóroddsafkvæmi geta sér nú gott orð á keppnisvellinum – í gæðinga- og íþróttakeppni og nú síðast í skeiði. Nægir að nefna Vörð frá Strandarhjáleigu, Grunn frá Grund, Grafík frá Búlandi, Hvessi frá Ásbrú og hina flugvökru og frábæru Þórdísi frá Lækjarbotnum, en mörg fleiri eru nú að stíga sín fyrstu spor á keppnisvellinum.
Hryssueigendur sem treysta sér til þess að leggja eigið mat á stöðuna, kalt og yfirvegað, skoða niðurstöðu keppni og kynbótasýninga með opin augun – og ylja sér síðan við framtíðardrauma um hross af því tagi sem hér hafa verið nefnd – þeir eru hvattir til að hafa samband við Ingimar á Ytra-Skörðugili s. 891 9560 eða Björn á Vatnsleysu s. 894 2833 v/ fyrra gangmáls í Skagafirði, en Bjarna á Þóroddsstöðum s. 844 5758 v/ seinna gangmáls á Þóroddsstöðum í Grímsnesi.