Það væri gaman að geta tekið undir með ritstjórn (?) isibless.is, þegar blaðamanni Eiðfaxa er hælt á hvert reipi fyrir umfjöllun um Stóðhestaveisluna í Ölfushöll, sem haldin var á laugardagskvöldið – en ég var ekki þar staddur og er því ekki dómbær á umfjöllunina. Hins vegar hef ég alltaf vitað að Eiðfaxamenn eiga sína góðu daga á ritvellinum – eiga það jafnvel til að liggja á hreinum kostum sprett eftir sprett, ef svo ber undir, svo notað sé kunnuglegt líkingamál eða orðalag úr hestaheimi.
Stundum eru þessir góðu kunningjar þó lausir á kostunum, fatast skeiðflugið þrátt fyrir snarpar hrifsur, hrökkva upp og koma jafnvel á kýrstökki í mark. Slíkir tapsprettir hafa verið til umræðu um sinn, vonandi þó ekki lengi enn.
Ég geng í hring
í kringum allt sem er.
Og innan þessa hrings
er veröld þín.
Minn skuggi féll um stund
á gluggans gler.
Ég geng í hring
í kringum allt sem er.
Og utan þessa hrings
er veröld mín.
(Steinn Steinarr)
Einhvern veginn svona er kannski helst hægt að komast að orði þegar lýstur saman ólíkum hugmyndaheimum, og kristallast að undanförnu í skrifum um úrslit kappreiða. Þegar betur er að gáð er þessi birtingarmynd fullkomins samgönguleysis auðvitað ekkert ný af nálinni í giljareitum hófapressunnar. Óneitanlega væri þó heppilegra að færari vegir, jafnvel gagnvegir, lægju milli ritstjórna hestablaðanna og lesenda þeirra, áskrifenda og velunnara til áratuga – jafnvel að kurteislegt tillit yrði tekið til athugasemda þeirra síðarnefndu, en ekki einlægt skellt við skollaeyrum, ef þeir manna sig upp í að láta í sér heyra. Einstefna á sjálfsagt við á öngstrætum borga – sem úrræði samgönguyfirvalda, og þá í bókstaflegum skilningi – en tæplega er það nú góð almenn regla um samskipti fjölmiðils við lesendur sína. Þótt hér verði ekkert fullyrt, má jafnvel ætla að slík samskipti beri í sér feigð, sambandið sé dæmt til að rofna.
Eins og margir munu vera búnir að átta sig á er ég hér að vísa til fádæma „smekklegrar“ athugasemdar á vef Eiðfaxa sem ber yfirskriftina Berin eru súr. Þar sendir ritstjórinn tóninn þeim mönnum sem á dögunum gerðu málefnalegar athugasemdir við fréttaflutning blaðamanns af skeiðkappreiðum Meistaradeildar. Ég ætla ekki að elta ólar við það tiltekna mál. Hins vegar langar mig að halda áfram að klappa þennan kappreiðastein, og beina sjónum að kappreiðasögunni, ef takast mætti að varpa ljósi á ýmis almenn atriði, sem virðast nú farin að vefjast fyrir – og hafa svo sem komið til tals fyrr.
Árið er 1923, staðurinn nýhaslaður skeiðvöllur Fáks við Elliðaár. Kynntur er til sögunnar Skuggi Þórðar Auðunssonar í Eyvindarmúla í Fljótshlíð, sex vetra hlaupagammur sem fæddur var Úlfari bónda Jónssyni í Fljótsdal í sömu sveit. Skuggi „vakti mikla athygli, varð fyrstur í sínum flokki…….“ segir í bók Einars E. Sæmundsen, „Fákur“ bls. 134. „Fákur“ kom út árið 1949 – og geymir sögu samnefnds hestamannafélags fyrsta aldarfjórðunginn. Til marks um áherslur og hlutverk félagsskaparins er hér vakin athygli á því að þetta er nánast eingöngu kappreiðasaga!
Síðar í sama kafla bókarinnar er þessi frásögn, og dreg ég nú ekkert undan. Frásögnin, sem birtist fyrst í dagblöðunum, er bæði æsispennandi og lærdómsrík – og gaman að bera hana saman við fréttaflutning Eiðfaxa og annarra fjölmiðla af kappreiðum nú, 90 árum seinna! Við skulum svo – í huganum – færa þetta til samtímans á sjónvarpsöld og ímynda okkur að Mývetningurinn knái og fótfrái, Sigurbjörn Árni Arngrímsson, sé hér í þularhlutverki: Lýsi sprettunum á sinn óviðjafnanlega hátt og haldi uppi fjörinu!:
„Á næstu kappreiðum, 13. júlí, bættist Eyvindarmúla-Skuggi í hópinn og var þá skipað í flokk með Inga-Skjóna, Sólheima-Mósa og Sörla gamla, er þá var 15 vetra. Vann Sörli sprettinn, hafði höfuðið ríflega framar Skugga, en hlauptími beggja sami, Skjóni á hlið Skugga og hlauptími Mósa hálfri sek. lakari en Skjóna. Þeir kepptu svo aftur saman í fyrra úrslitaflokki og komu allir svo að segja í einni þvögu að marki. En þó var sá sjónarmunur á þeim, að fyrstur teygði Skjóni sig yfir markið, þá Skuggi og Sörli þriðji, allir með sama hlauptíma, en Mósi á miðri síðu Sörla og munaði 1/10 úr sek.
Þessir fjórir hlaupagarpar kepptu svo til þrautar um verðlaunin, ásamt Hrafni og Erni, er fyrstir höfðu orðið og jafn-fljótir í síðara úrslitaflokki (aðeins sjónarmunur Hrafni í vil). En þessi síðasti sprettur varð dálítið sögulegur. Á hlauplínu voru hestarnir meira og minna æstir og trylltir, allir nema Sörli gamli; hann beið rólegur eftir merkinu eins og hann var vanur. Hann stóð vestastur á vellinum, þá Skjóni, Mósi, Skuggi, Hrafn og Örn austastur.
Loksins sér ræsir sér færi að skjóta. Hrökk þá Skuggi við og skellti sér á síðuna á Mósa, er hrakti Skjóna þétt að Sörla. Voru þessir fjórir svo að segja í einni þvögu, er þeir náðu framtakinu. En þá skipti engum togum, unz Skuggi skauzt fram úr hópnum, en hinir fylgdu fast eftir og Mósi aftastur eins og fyrri. Hélt Skuggi vellinum alla leið og kom fyrstur að marki og Mósi honum næstur, hafði rifið sig fram úr hinum þegar kom suður fyrir banka, nema Sörla, en skreið svo fram með honum á síðustu stökkunum, að Sörli var með snoppu við lend Mósa á marki.
Dómnefnd dæmdi hestunum verðlaun eftir þeirri röð, sem þeir komu að marki, en þeim dómi vildi eigandi Sörla ekki hlíta. Heimtaði hann og ýmsir fleiri að spretturinn yrði dæmdur ógildur og hestarnir látnir keppa til þrautar ; studdu þeir kröfu sína með því, að knapinn á Skugga ( Arthur Guðmundsson ) hefði riðið fyrir hestana, sem vestan við hann voru á vellinum og með því tafið þá. En mönnum þeim, sem hæst létu, var bent á, að því aðeins mundi slíkt geta átt sér stað, að riðið væri fyrir hesta á hörku spretti, að knapinn, sem það gerði, sæti á fljótasta hestinum. Og við það sat. Dómnefnd kvikaði ei frá úrskurði sínum og hestunum voru greidd verðlaun samkvæmt þeirri röð, sem að ofan getur.“
Ég læt nú staðar numið í bili. Þessi gamla saga af Skugga í Eyvindarmúla er raunar aðeins lengri, og hver veit nema niðurlag hennar birtist hér einhvern næstu daga.
Bjarni Þorkelsson.