Illa bítur orða stálið
algengast er það:
Halda fund og hugsa málið
hafast ekkert að.
Þótt efalaust sé í þessa vísu – sem sögð er vera eftir Geir í Eskihlíð – hægt að sækja ágæta leiðbeiningu um það hvernig átakaminnst verði komist frá sérhverju álitamáli, virði ég þau góðu ráð að vettugi: Læt á það reyna hversu vel mér bítur orða korðinn, stritast við að sitja við skriftir, leggja orð í belg, hafast að.
Á vef Eiðfaxa 23/3 2013 er látið að því liggja að útgefin og staðfest úrslit og röð skeiðhestanna í 150 m. sprettfæri á kappreiðum Meistaradeildar, séu ekki hafin yfir vafa. Ástæðan er sögð sú að knapi hafi truflað keppinaut sinn á sprettinum, og sé slíkt athæfi vítavert – samkvæmt kappreiðareglum L.H. – og viðurlögin þau að dæma skuli „gerandann“ úr leik, en leyfa skuli „þolandanum“ að hleypa aftur, einum.
Ef til vill hefði glöggskyggn og sanngjarn blaðamaður komið auga á fleiri dæmi en þetta eina sem hann tilgreinir – m.a. varð sá fyrir sambærilegri truflun í seinni spretti, sem olli henni í þeim fyrri! Að þessu sögðu er þó rétt að halda því til haga, að einungis þetta eina tilvik var tilsagt eða kært. Má virða það blaðamanni til betri vegar. Hér er þó áréttuð ósk um að ástunduð sé gagnrýnin blaðamennska og gætt meðalhófs í umfjöllun um menn og málefni. Þótt hér mætti að áður gefnu tilefni segja ýmsa hluti um ódrengileg niðurrifsskrif, og hversu miklu gagnlegri hestamennskunni væri uppbyggjandi og sanngjörn blaðamennska – sem þyrfti vissulega ekki að vera í upphöfnum hyllingarstíl – verður það þó látið bíða betri tíma.
Þeir sem muna tímana tvenna, vita sem er að algengt er að knapa skeiðhests, sem orðið hefur fyrir augljósri truflun, sé leyft að að reyna aftur. Þannig er oftlega virkjað seinna ákvæðið, sem nefnt er hér að ofan.
Hinu fyrra ákvæði viðurlaganna, sem kveður á um að dæma skuli úr leik, hefur mér vitanlega aldrei verið beitt í skeiðkappreiðum, a.m.k. síðastliðna hálfa öld, allan þann tíma sem undirritaður hefur fylgst með (skeið)kappreiðum á Íslandi. Eðlilegt er að velta því fyrir sér hverju sætir, því ljóst er að á ýmsu hefur gengið.
Ég hygg að meginskýringin sé sú að hér er ekki um ásetningsbrot að ræða. Allir velmeinandi menn sjá það í hendi sér að enginn knapi veldur af ráðnum hug truflun af því tagi sem hér um ræðir og alloft á sér stað. Í hita leiksins í upphafi spretta, strax og flaggið fellur eða básarnir opnast, er nánast ógjörningur að hafa svo góða stjórn á hestunum að ekki geti farið óhönduglega , það vita að minnsta kosti allir þeir sem tekið hafa þátt í leiknum. Alþekkt er að hlaupahestarnir velji sér svo braut, og þá stendur sá best að vígi sem fyrstur er af stað.
Hér hafa sumsé lengst af ráðið sanngirnissjónarmið, og reynsla kynslóðanna hefur mótað hugarfar og leikreglur, ekki síður en hið skrifaða orð. Vandséð er til hvers muni leiða, ef kappreiðareglunum yrði beitt með þeim hætti sem blaðamaður Eiðfaxa virðist hallur undir. Þetta tiltekna mál, sem blaðamaðurinn gerir að umtalsefni, er að vísu ekkert stórmál – en gengi það eftir að spretturinn yrði dæmdur ógildur, gæfi það fordæmi sem gæti orðið örlagaríkt. Sé ég fyrir mér að þau kærumál myndu engan enda taka. Hér er kominn vísasti vegur til að koma því á kné sem eftir er af kappreiðamenningu Íslendinga. Gáum að því.
Bjarni Þorkelsson.