Ágætu Limsfélagar og aðrir gleðimenn.
Þegar formaður Limsfélagsins hringdi og bað mig koma hingað í kvöld, leitaði ég strax í hugskoti mínu að undanbrögðum og löggiltri afsökun til að segja nei. Og tók það að minnsta kosti skýrt fram strax að ég kæmi ekki hingað sem skemmtikraftur, það væri alveg á hreinu. Helgi múrari bað mig vera alveg rólegan, mér væri frjálst að haga máli mínu eins og mér sýndist, þessi félagsskapur samanstæði af fólki sem hefði víðtækan smekk og óbilandi áhuga á öllu sem varðaði hrossarækt – sagðist hafa ætlað það að ég myndi ekki skorast undan að ræða slík mál, eða hvað? Þá sagðist Helgi vita til þess að ég ætti í handraðanum ýmislegt efni frá föður mínum, sem fróðlegt væri að hlýða á.
Að þessu sögðu sá ég mitt óvænna og játaðist undir suðurför. Ég ætla þó að segja aðeins fátt um hrossarækt, segja svo nokkrar sögur úr sveitinni, og leggja loks á skáldfákinn Pegasus – lánshest sem ég er með með mér hér í kvöld – og vita hvort mér tekst ekki að leggja hann einn eða tvo spretti.
Þegar Þorkell Bjarnason varð hrossaræktarráðunautur fyrir meira en hálfri öld, áttaði hann sig fljótt á því að stóðhestakosturinn var næsta fátæklegur, í raun og veru voru aðeins örfáir hestar til sem eitthvað gátu. Og það er best að segja það bara alveg eins og er: Að geta eitthvað, hvað þýddi það á þessum tíma, fyrir uþb. 50 árum? Það var að geta skeiðað.
Karl faðir minn hafði þó kynnst hrossum sem virkilega gátu skeiðað. Nefna má þrjá reiðhesta föður hans, Bjarna á Laugarvatni, sem voru alvöru vekringar og sigurvegarar á Lands- og fjórðungsmótum í skeiði: Trausti frá Hofsstöðum á Mýrum sigraði í 250 m skeiði 1958 á Skógarhólum, Blakkur frá Gullberastöðum 1961 á Gaddsstaðaflötum og Gustur frá Hæli 1962 á Skógarhólum. Uppáhaldshryssa Þorkels og upphafshryssa að allri hrossarækt okkar Laugarvatnsmanna var Fjöður frá Tungufelli í Lundarreykjadal. Það var flugvökur snilldarhryssa, hálsmjúk og hágeng.
Til þessara hrossa og margra fleiri sem hann kynntist víða um land sótti Þorkell á Laugarvatni þau viðmið sem hann varð snemma á starfsferli sínum ákveðinn að keppa að í íslenskri hrossarækt. Hans draumsýn var að fylla landið af fagursköpuðum og fótatraustum hrossum sem eitthvað gátu. Og það varð fljótt bjargföst sannfæring hans að gott skeið væri undirstöðuatriði til að tryggja raungæði tölts.
Og komst fljótt að því, eins og áður sagði, að hér væri verk að vinna.
Til að gera langa sögu stutta: Eftir 25 ár hafði náðst mikill árangur að þessu leyti, og árið 1986 var ákveðið að hefja töltið til vegs, að rétta hlut töltaranna. Vægi töltsins var aukið úr 16,7% í 28,6% af heildarvægi hæfileikaeinkunnar, en hafði haft sama vægi og skeið, og við því var ekki hreyft.
Skeiðið, undirstöðugangtegundin, var einfaldlega orðið það sterkt, að sjálfsagt var – og óhætt – að beina nú meiri athygli að því að verðlauna og betrumbæta töltið, þá gangtegund sem mestrar hylli naut og mestu máli skipti í allri almennri notkun og markaðssetningu hestsins, hvort sem var til keppni, útreiða eða ferðalaga.
Fram á sjónarsviðið voru nú komnir hestar eins og Hrafn frá Holtsmúla og Ófeigur frá Hvanneyri, Náttfari frá Ytra-Dalsgerði, Ófeigur frá Flugumýri, Gáski frá Hofsstöðum, Kjarval og Otur frá Sauðárkróki – hestar sem sameinuðu alla snilldarkosti , flugvakrir og fjölhæfir, og skildu eftir sig snillinga í röðum.
Og það er á þessum hestum sem við byggjum alla nútíma hrossarækt, og gildir einu hverju við sækjumst helst eftir, úrvals tölti eða flugskeiði – ég tala nú ekki um ef við höfum smekk fyrir því að rækta og eiga hesta sem búa yfir hvorutveggja og öllum öðrum gangi með. Slíka hesta erum við nú farin að fá fram, æ fleiri leyfi ég mér að segja, hesta sem búa yfir ofurgæðum á öllum helstu gangtegundum, hesta sem fóru þó ekki að sjást hér fyrr en á síðastliðnum áratug, amk. ekki í röðum stóðhesta.
Í þessa erfðaauðlind verður hægt að sækja um ókomna tíð – og það er einfaldlega að þakka þeirri áherslu sem lögð var og hér var nefnd. Það þurfti að synda á móti straumnum, vissulega. Það voru kannski ekki margir sem skildu þá áherslu sem Þorkell lagði strax og ævinlega síðan á skeiðið og ræktun fjölhæfra gæðinga. Þessi stefna var ekkert sérstaklega til vinsælda fallin, en hér gilti að vinna örugglega og hávaðalaust, vera þó fastur fyrir og gefa ekki nema hæfilega undir fótinn tískutildri og lýðskrumi – vissulega gat hann ekki hugsað þá hugsun til enda að verða valdur að því að skeiðið glataðist og ræktaðist úr.
Ég held að allir hugsandi menn skilji nú hvers virði þetta starf er, og á þess vegna bágt með að átta mig á því grunnfærnislega tali sem gengur fjöllum hærra, um að klárhestar beri skarðan hlut frá borði í dómum og sýningum. Átta menn sig ekki á því að ræktunartakmark íslenska hestakynsins þarf og á að vera háleitara en svo að það þjóni stundarhagsmunum einstakra hrossabúa? – sem hafa auðvitað allan rétt á því að fleyta rjómann ofan af eftir smekk, ilman og tilfinningu, en geta alls ekki ætlast til að ræktunartakmarkið sé hneigt að þröngum hagsmunum, nánar til tekið takmörkunum þeirra eigin hrossa. Svo virðist sem krafa þeirra aðila sem hæst láta sé sett fram í þeim tilgangi að gripir þeirra geti trónað á toppnum, hvað sem tautar og raular.
Jón heitinn í Skollagróf orti eitt sinn ágæta vísu undir umræðu um þá nýjar áherslur í reiðmennsku og sýningatækni. Á henni ætla ég að enda þennan hrossaræktarkafla ræðu minnar hér í kvöld:
Glötunar er gatan breið
gleði dvínar þokki
Þeir sem fyrrum skelltu á skeið
skekjast nú á brokki.