Ræða Bjarna Þorkelssonar á Aðalfundi Félags Hrossabænda 16. nóvember 2012.
Góðir félagar.
Það væri óneitanlega ekki nema sanngjarnt og verðugt að tala svolítið fallega um stöðuna í íslenskri hrossarækt. Hér verður að vísu ekki gripið til neinnar skrúðmælgi, en sé horft á heildarmyndina, þarf enginn að fara í grafgötur með það að allt potast þetta í rétta átt hjá okkur. Engin léleg hross sjást orðið á sýningum og hópurinn sem kalla má úrvalsgóðan stækkar nokkuð ört. Eðli málsins samkvæmt er framförin þó hægust meðal topphrossanna, og mælist þar í hænufetum fremur en stórum stökkum – og hefur alltaf gert. Glöggt sáust dæmi þess þegar gamlir sigurvegarar komu fram í skrautsýningum síðustu landsmóta og stóðust vel samanburðinn – að minnsta kosti.
Á hrossaræktarráðstefnunni í fyrrahaust gerði ég að umtalsefni afkvæmasýningar stóðhesta og verðlaunaveitingu á LM 2011 á Vindheimamelum. Gott á ég með að viðurkenna og þakka, að myndarlegar var staðið að verki nú í sumar.
En þótt staðan sé góð að mörgu leyti, ber ýmsa skugga á og lúta að afkomu hrossabænda, framkvæmdaatriðum kynbótasýninga og keppnisgreina og tilhögun dómstarfa. Menn láta sumsé ekki af að gagnrýna og leggja til nýjar leiðir – nú eða gagnrýna það að farnar séu nýjar leiðir. Fjölmargar vel undirbúnar tillögur frá fulltrúum Hrossaræktarsamtaka Suðurlands hlutu nú gott brautargengi á Aðalfundi Félags Hrossabænda – og eru til marks um ofanritað.
Ég ætla ekki að gera þessar ágætu tillögur að umfjöllunarefni hér, en herði fremur róðurinn og sting uppá breyttu fyrirkomulagi – ekki síst í ljósi þess sem gengur nú fjöllum hærra um áverka á keppnishrossum og ófyrirleitin þvingunarúrræði sem beitt er til að uppfylla ósanngjarnar kröfur. Í skugganum af þessu stöndum við nú öll, og enginn má undan líta. Raunar má skoða þetta erindi mitt sem viðbragð við ákalli dýralæknis hrossasjúkdóma um að brugðist verði við með afgerandi hætti, svo sem með uppskurði og endurskoðun á kerfinu, keppnisgreinunum, keppnishörkunni, kröfuhörkunni gagnvart málleysingjunum.
Það vekur óneitanlega athygli – og verður að segja að kveði við nýjan tón – að Sigríður Björnsdóttir rekur þessi vandamál ekki eingöngu til knapanna, eins og alsiða hefur verið til þessa, heldur telur hún að endurskoða þurfi umgjörð keppni og sýninga og þær hugmyndir sem við höfum mótað okkur um getu og form íslenska hestsins. Þessi nálgun gefur færi á því að skoða málið í miklu víðara samhengi en gert hefur verið, og kemur í veg fyrir að kerfið – eins og það leggur sig – geti þvegið hendur sínar og hengt einstaka menn upp í gálgann, öðrum til viðvörunar.
Fyrir þetta er sérstök ástæða til að þakka Sigríði, og auðvitað ekki síður þau úrræði sem hún bendir á í nokkrum tölusettum liðum, og ég tel að flestöll sé vert að skoða – verð þó að viðurkenna að undir einum liðnum, þeim fimmta, kann að liggja eldfimt deilumál um tannbroddaröspun, sem heppilegra væri að láta liggja í láginni að sinni. Það er þó algert aukaatriði og dregur á engan hátt úr meginboðskapnum. Ég vil að fram komi að ég tel að það sé gæfa okkar hestamanna að Sigríður skyldi hafa valist til þessa starfs. Og nú er rétt að rifja upp gamalt mál, rammíslenskt: Það er vinur sem til vamms segir.
Áður en lengra er haldið ætla ég að mæla eindregið með því að ekki verði fallið frá þeirri nýbreytni sem upp var tekin á LM 2012 að efna til sérstakrar kynningarsýningar á kynbótahrossum, þeirra sem ekki komust í verðlaunasæti. Þótt hún hafi ekki tekist að öllu leyti eins og til var ætlast svona í fyrstu tilraun, var þó margt gott um hana, og ég hef fulla trú á því að slík sýning eigi eftir að vinna sig í álit, einkum ef tekst að tryggja þar góða þátttöku.
Mín tillaga gengur út á það að þeir sem ná að tryggja hrossi sínu farseðil á Landsmót, geti valið um það fyrirfram hvort það fari í dóm aftur á sjálfu Landsmótinu. Aðeins þau hross sem í dóm færu, kæmu til álita í verðlaunasæti. Þau hross sem ekki færu í dóm, hlytu veglega kynningu, sem að samanlögðu yrði þó ekki mjög tímafrek – ef til vill tæki slík kynning aðeins svipaðan tíma og yfirlitssýningin, og þannig sparaðist allur sá tími sem hinn eiginlegi kynbótadómur tæki.
Daginn eftir eða einhvern næstu daga kæmu svo öll hross fram í kynningaratriði, hver flokkur fyrir sig og væri skyldumæting. Hrossin yrðu kynnt í stafrófsröð þar til kæmi að þeim (tíu) hrossum sem efst stæðu í flokknum og ynnu til verðlauna.
Enginn vafi er í mínum huga að þetta fyrirkomulag gæti skapað heilnæmara andrúmsloft. Mun fleiri kynbótahross hlytu jákvæða athygli og með þessu móti yrði vel undirstrikað það sígilda viðhorf að kynbótasýning sé ekki fyrst og fremst keppni eða sætaslagur. Nú kannski spyr einhver : Hvað er jákvæð athygli? Og því er best að svara með því að benda á það sem alls ekki getur flokkast undir jákvæða athygli og verður hlutskipti allt of margra landsmótshrossa Það hross sem kemur inn á landsmót með háan dóm úr vorsýningu, en á svo ekki góðan dag á landmótinu sjálfu, það fær ekki jákvæða athygli. Þau fjölmörgu hross sem standa sig að því er virðist svipað og á vorsýningu, en lækka samt sem áður á einum, tveimur eða þremur stöðum, kannski bara um hálfan, þau fá ekki heldur jákvæða athygli. Hversu hátt hlutfall sýningarhrossanna á Landsmótinu í Reykjavík í sumar skyldu annars hafa fengið jákvæða athygli og þátttaka þeirra skilið eftir jákvæða tilfinningu í brjósti eigenda sinna? Tilfinningu sem ætla má að allir þátttakendur á Landsmóti sæktust eftir, Landsmóti þar sem samankomið er landsúrval úr öllum aldursflokkum. Og hvað situr eftir í hugum áhorfenda um slík hross? Var til einhvers barist? Það er vitað að slíkra spurninga spyrja menn sig, kannski aldrei fremur en nú að loknu landsmótinu í Reykjavík.
Að sinni að minnsta kosti, meðan reynsla yrði fengin af þessu nýja fyrirkomulagi, yrði þó ekkert frá þeim tekið sem tilbúnir eru í hefðbundinn einkunnaslag – að minnsta kost þangað til okkur verður settur stóllinn fyrir dyrnar í tengslum við það sem fyrr var nefnt um almenna endurskoðun á sýningahaldi og kröfum til sýningar- og keppnishrossa.
Þarna gæfist hrossaræktarráðunauti upplagt tækifæri til að líta upp frá dómstörfunum og ræða við brekkuna um það sem fyrir augu ber – og það er ekki svo lítils virði að míni mati. Í stuttu máli: Á þennan hátt gæti skapast – að minnsta kost meðfram – ennþá betri farvegur fyrir þau jákvæðu gildi sem löngum hafa falist í orðinu kynbótasýning.
Og það sem mest er um vert: Með þessu móti yrði augljóslega komið nokkuð til móts við þau tilmæli sem dýralæknir hrossasjúkdóma hefur beint til þeirra sem fyrir sýningum og keppni standa, og snýr að kynbótahrossum – sýningum og keppni þar sem nú er barist um kommur og sæti til síðasta dags á mótunum, með tilheyrandi þreytu- og álagsmeiðslum. Álagið á hrossunum sem færu þessa nýju leið, yrði að minnsta kosti stórum minna.
Mér er það ljóst að hægt er að finna veilur í þessu fyrirkomulagi, kannski fyrst og fremst vegna þess að það tekur ekki til þeirra hrossa sem látin væru fara hefðbundna leið. Ég vona þó að hér sé kominn umræðugrunnur og að hvorki ráðunauturinn sjálfur né sérstakir (og kannski sjálfskipaðir) varðmenn kerfisins leggi kapp á að skjóta niður það sem hér er sagt, heldur taki það til vandlegrar íhugunar. Raunar tel ég einsýnt að þetta verði skoðað með jákvæðu hugarfari, í ljósi yfirlýsingar Fagráðs frá því í vetur leið, þar sem segir m.a.:
„Vonast fagráð eftir málefnalegri umræðu þar sem fram komi frekari hugmyndir að úfærslum á kynbótahluta landsmótsins með það að markmiði að sýningin rúmist innan tímaramma og verði glæsilegri og áhorfendavænni en nokkru sinni fyrr.“
Ég hef skynjað það að menn hafa áhyggjur af þessari áverkaumræðu, telja að hún skaði hreyfinguna. Umræðuna verðum við þó að taka, þótt sár sé. Ég tel að vísu að það sé ábyrgðarlaust og hafi of lengi viðgengist að menn hafi hátt og séu fullir vandlætingar þegar áverka keppnishrossa ber á góma – án þess að líta í eigin barm og gera tillögur til úrbóta. Um leið og ég fylgi þessari tillögu minni úr hlaði, má ég til að minna á aðrar breytingatillögur sem ég hef lagt fram á undanförnum árum um fyrirkomulag kynbótasýninga, tillögur sem lúta m.a. að því að draga úr álagi og keppnishörku, en hafa litlar undirtektir fengið. Má þar nefna tillögu um sérstakan Landsmótsdóm, þar sem dómurinn og yfirlitssýningin yrðu sameinuð í eina sýningu, með heimild til hækkunar og lækkunar einstakra einkunna. Aðra hugmynd hef ég viðrað, sem lýtur að því að leggja alfarið niður yfirlitssýningar – ekki bara á Landsmótum – og yrði þá lagt kapp á að hrossin fengju strax sanngjarna einkunn fyrir hvern dómþátt, þótt þaulsýningar legðust af. Og fleiri tillögur má með góðum vilja lesa út úr því sem hér verður enn sagt.
Annars er það svo að hér duga engin vinsamleg tilmæli eða bónarvegur um að bætt verði úr því ástandi sem lýst er í skýrslu Sigríðar, heldur verðum við hestamenn að gera undanbragðalausu kröfu – til okkar sjálfra fyrst og fremst. Fróðlegt væri að heyra sem fyrst sambærilegar uppástungur um það hvernig mætti draga úr hinni óvægnu keppnishörku, sem á sér stað í íþrótta- og gæðingakeppni, þar sem ekki síður er barist til hinstu stundar. Það er svo sem ekki eftir neinu að bíða að ríða á vaðið og leggja til að strax verði létt af þungu fargi og strikað yfir töltkeppnina – og svo verði farið að upphugsa nýjar leiðir fyrir fallegar töltsýningar, t.d. í anda Reynis heitins Aðalsteinssonar eins og boðað hefur verið undir heitinu töltfimi.
Það er eiginlega með ólíkindum að sjá hvað eftir stendur þegar maður reynir að koma orðum að og lýsa töltkeppni eins og hún fer fram nú um stundir í þremur liðum: Fyrst er riðið lúshægt á einhvers konar þvinguðu fet-tölti, síðan er ýmist keyrður upp hraðinn eða snarhægt niður (oft með taumaskaki), og að lokum er svo beðið um kappreiðar á tölti. Aldrei er beðið um eða gert ráð fyrir eðlilegu milliferðar- eða fegurðartölti. Upp á slíkt er ekki boðið í töltkeppni á Íslandi í dag. Geta menn sætt sig við það, líka í ljósi þess sem nú blasir við svart á hvítu að munnáverkar í töltkeppni eru verri en í nokkurri grein annarri?
Ég hef stundum sagt frá því hversu mjög ég harmaði það að veðreiðar og tilheyrandi sjónvarpsútsendingar lögðust af á Íslandi, a.m.k. í bili. Það var ótrúlega klaufalegt og byggðist á kolröngu stöðumati og undirgefni við bólusjónarmið. Innihaldslaus gylliboð voru tekin fram yfir áhuga, reynslu og mannauð sem til var hjá Ríkissjónvarpinu, sem staðið hafði fyrir afar vel heppnuðu sjónvarpi, útsendingum sem sáust um land allt og héldu áhorfendum föngnum, fjölda manns úr öllum aldurshópum. Glæsilegu upphafi nýrra tíma var stefnt í voða. Þótt ég óttist að hér verði ekkert aftur tekið, vona ég sannarlega að hægt verði að reisa veðreiðarnar úr rústum. En því er ég að segja þetta hér? Gáum betur að því.
Í ljósi niðurstaðna Sigríðar, þar sem fram kemur – með eðlilegum fyrirvara – að kappreiðahross séu síst af öllum keppnishrossum meidd eða mædd af áverkum, þá er kannsi ástæða til þess fyrir okkur hestamenn að íhuga hvort skaðinn af því að hætta þegjandi og hljóðalaust að bjóða uppá kappreiðar í stökki og brokki, sé margþættari en margan gat grunað: Þar er þó altént hraði og spenna, hraði og spenna sem heimtar útrás og hefur verið yfirfærð á aðrar keppnisgreinar, hraði og spenna sem eiga sannarlega heima á kappreiðavellinum – en ekki á hringvelli sem ætlaður eru til að sýna fima og flinka íslenska gæðinga – af sannri reiðlist.
Ég var í gærkvöldi að fletta prófkjörsbæklingi frá ónefndum flokki. Þar voru rifjaðar upp hendingar úr kvæði eftir Tómas Guðmundsson, sem mér finnst eiga erindi við okkur öll, sem stöndum nú frammi fyrir þeim napra veruleika sem lýst er í skýrslu Sigríðar Björnsdóttur:
„Á meðan til er böl er bætt þú gast,
og barist var á meðan hjá þú sast,
er ólán heimsins einnig þér að kenna“.
Ég þakka fyrir gott hljóð.
Bjarni Þorkelsson