Það verður að viðurkennast – það vefst svolítið fyrir að skrifa um landsmótsþátttökuna. Sjálfsagt af því að hversdagsleg færsla á heimasíðu getur tæplega komið því til skila hversu stór stundin var, þegar Þóroddur kom fram með tólf afkvæmum sínum og hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi.
Viðtökurnar voru engu líkar, brekkan fullsetin. Afkvæmin voru kynnt í tvennu lagi. Í fyrri hópnum voru sex brún hross: Þrumufleygur frá Álfhólum, Lord frá Vatnsleysu, Hilda frá Kvistum, Gjöf frá Vindási, Rómur frá Gíslholti, Hringur frá Skarði. Í seinni hópnum voru sex rauð hross: Grunnur frá Grund, Hrynur frá Hrísdal, Hvessir frá Ásbrú, Otkell frá Kirkjubæ, Elding frá Laugarvatni, Vökull frá Sæfelli. 9 stóðhestar og 3 hryssur. Að síðustu kom svo inn á brautina sjálfur höfðinginn og snillingurinn Þóroddur frá Þóroddsstöðum – og gleðigjafinn Daníel Jónsson á honum eins og vant er.
Allt voru þetta úrtöku gæðingar, hæfileg blanda af glæstum klárhrossum og fantagóðum alhliða ganghrossum og flugavekringum. Og utan hópsins – af ýmsum ástæðum – ekki minni kappar en stóðhestarnir Hvatur frá Dallandi og Vörður frá Strandarhjáleigu, auk sjálfs Arnodds frá Auðsholtshjáleigu, sem kominn er til útlanda. Alls tóku þátt í landsmótinu 16 Þóroddsafkvæmi, 8 kynbótahross og 8 gæðingar.
Að geta stillt upp slíkum hópi samvalinna gæðinga, það segir allt sem segja þarf – og losar mig undan því að þurfa að skrifa öllu meira um sjálfa afkvæmasýninguna, og leggja þannig frekara mat á eigið lífsstarf.
Hins vegar kann að vera að við þessi tímamót rifjist upp eitt og annað sem vert væri að halda til haga. Þótt fagnaðar- og sigurtilfinning sitji nú skör hærra en aðrar tilfinningar, er ekki hægt að líta framhjá því að sá andróður sem hesturinn hefur sætt um skeið, er ekki með öllu einleikinn. Allir hestar þurfa að ganga í gegnum vissa eldskírn almenningsálits, brekkudómara og sjálfskipaðra besserwissara – sem eru ef betur er að gáð, jafnan manna ófróðastir um staðreyndir mála og kæra sig raunar kollótta um þær.
Það er hins vegar með öllu óþolandi, að innan sjálfs matskerfisins, í dómarahópnum, sé fólk sem leynt og ljóst vinnur gegn ákveðnum stóðhestum og talar niður afkvæmi þeirra, en stuðlar að og talar fyrir velgengni og velmegun annarra stóðhesta og keppinauta. Það er krafa okkar sem komum með hross til dóms, að þau séu metin alls staðar eins og án tillits til ættar og uppruna. Til okkar ræktenda og sýnenda eru gerðar endalausar kröfur um að allt sé í topplagi og sífellt eykst kostnaðurinn sem við þurfum að bera. Við höfum því væntanlega stöðu til þess að gera okkar kröfur, m.a. um mönnun dómnefnda, jafna aðstöðu og sanngjörn tækifæri til þess að sýna hvað í hrossunum býr.
Ég hef margsinnis lýst skoðun minni um formenn dómnefnda, að vanda skuli sérstaklega val á þeim, og að einungis komi þar til greina vel menntaðir og reynslumiklir dómarar og hestamenn í besta skilningi þess orðs. Það er hins vegar forgangsmál nú að hyggja að eftirfarandi:
Fólk í dómarastétt sem uppvíst hefur orðið að því að þykjast allt vita um afkvæmi einstakra stóðhesta, nánast án þess að líta á þau, er búið að fyrirgera rétti sínum til þess að sitja dómaramegin borðsins í þessu stóra sameiginlega verkefni sem íslensk hrossarækt er.
Þetta verða forystumenn og Fagráð í hrossarækt að skilja – og taka til sinna ráða. Það ætti líka að vera umhugsunar- og umfjöllunarefni fyrir Fagráð hvort og hversu mjög þessi téða snilligáfa einstakra dómara hefur haft áhrif á niðurstöður kynbótamatsins. Það er óneitanlega margt sem bendir til þess, en sjálfsagt óvinnandi vegur að færa sönnur á það.
Hvað sem því líður: Við þetta verður ekki lengur unað.