Heiðraða samkoma.
Það er góður siður að byrja á að kynna sig.
Ég heiti Bjarni Þorkelsson og er frá Íslandi. Hestamennska og hrossabúskapur hefur orðið hlutskipti mitt í lífinu, bæði leikur og starf. Það má með nokkrum sanni segja að það hafi ekki verið neitt val, því við þetta er ég alinn upp, og á engar minningar eldri en þær sem tengjast hestum. Ég var farinn að ríða út löngu áður en ég varð einfær um það, í fangi föður míns, Þorkels Bjarnasonar, fyrrverandi landsráðunautar í hrossarækt. Það er best að nefna hann hérna strax, því það er ómögulegt að tala um íslenska hrossarækt í sögulegu samhengi án þess að hann komi við sögu. Hann gegndi þessu skyldustarfi í 35 ár, en líf hans hverfðist í raun allt um hesta: Hann notaði hesta, hugsaði um hesta, talaði um hesta, skrifaði um hesta og dreymdi um hesta. Og allt þetta gerir hann enn í dag. Mamma – sem hefur líka yndi af hestum – hefur sagt mér frá því að hún hafi vaknað við hávaðann í honum eina nóttina. Hann sat uppi í rúminu og lét ófriðlega.
– Hvað gengur á maður, spurði mamma.
– Nú, sérðu ekki að ég er að reka tryppin?
Til að svara þeim álitamálum sem hérna blasa við, verðum við að byrja á því að skilgreina hvað við eigum við með íþróttakeppni. Í svari mínu geri ég ráð fyrir því að átt sé við þær greinar sem keppt er í á Heimsmeistaramótum íslenskra hesta, t.d. fimmgangur, fjórgangur, tölt, skeið. Það er nauðsynlegt að hafa þetta í huga frá upphafi til enda.
Vissulega er samband milli ræktunarmarkmiða – eins og þau endurspeglast í dómum kynbótahrossa – og þeirra krafna sem gerðar eru til keppnishrossa í íþróttakeppni. Þetta samband er augljóst þegar horft er til kröfu sem gera á um skörp skil milli gangtegunda, jafnvægis á gangi, fótaburðar og mýktar.
Það er ekki jafnaugljóst samband milli ýmissa annarra atriða. Sumt af ræktunarmarkmiðunum eru almenns eðlis og varða fyrst og fremst hreysti og endingu, og koma auðvitað öllum hestgerðum til góða, en ekki einni fremur en annarri. Þannig er nýjasta skilyrði fyrir sýningarétti kynbótahrossa röntgenmyndataka vegna spatts.
Það má svo sem spyrja hvort kröfur um byggingu, sem er 40% af aðaleinkunn kynbótahrossa, komi íþróttakeppninni nokkuð við, að minnsta kosti á meðan lappirnar bila ekki á keppnishrossunum og íþróttadómarar taka ekki meira tillit til hestgerða en raun ber vitni. Gætum við ef til vill sæst á það?
Tökum við 40 % frá á þennan hátt, þá eru einungis 60 % eftir. Ef við ætlum að rækta ofurskeiðhest, má taka fet, tölt, brokk og fegurð í reið út úr ræktunarmarkmiðinu. Þá eru einungis eftir skeið, stökk og vilji af þeirri heildarmynd sem ræktunarmarkmiðin gera ráð fyrir. Málið er að verða tiltölulega einfalt, eða hvað?
Þetta dæmi er tekið hér einungis til að sýna fram á það svart á hvítu í hvílíkar ógöngur við kæmumst fljótt ef við ætluðum að láta dómkerfi kynbótahrossa þóknast þröngum sérhagsmunum.
Það er í hæsta máta eðlilegt og nauðsynlegt að ræktunarmarkmiðin séu miklu víðtækari og háleitari en svo að þau þjóni bara tiltölulega þröngu sviði íþróttakeppninnar. Hvernig ætti annars að vera hægt að koma til móts við svo margþættan og ólíkan tilgang, sem birtist í einni saman upptalningu keppnisgreina íþróttakeppninnar, svo ekki sé minnst á önnur keppikefli? Ekki ætlum við að taka upp sérkerfi fyrir skeiðhesta, annað fyrir töltara, það þriðja fyrir fjórgangara o.s.frv. Þetta hefur mönnum svo sem dottið í hug, en hefur jafnan verið slegið út af borðinu með góðum rökum.
Öðru máli er að gegna með einstaka ræktendur: Einn gæti sem best haft séstakan áhuga á því að rækta heimsmeistaraefni í tölti, annar í skeiði o.s.frv. Sá þriðji gæti sem best hugsað sér að rækta fyrst og fremst góða reiðhesta, sem henta best til ferðalaga þvers og kruss um Ísland.
Það er vel þekkt að einstaka ræktendur stytti sér leið með þessu móti, leggi ofuráherslu á fáeina dómþætti en hunsi jafnvel aðra. En þessir sömu menn verða hins vegar að hlíta því,að slíkt vinnulag og aðferðafræði komi á einhvern hátt niður á samanlögðum árangri í kynbótadómunum.
Það er ekki nema sanngjarnt, ekki síst gagnvart þeim sem leggja sig fram um að ná árangri í öllum dómþáttunum 15.
Og nú kynni einhver að spyrja? Er nauðsynlegt að leggja sig eftir öllum þessum þáttum? Kannski, kannski ekki.
Hvað gerðist ef menn væri ekki hvattir til dáða af opinberu, langvarandi ræktunarmarkmiði og ströngu og metnaðarfullu dómkerfi, sem stæði af sér skammsýni og tækifærismennsku? Þegar dr. Þorvaldur Árnason var í sínu námi í Skotlandi forðum daga, að leggja grunn að því að aðlaga hrossadóma að Blup-kerfinu, sagði hann svo í bréfi til föður míns:
„Rannsóknir og leitun endurbóta tel ég vænlegri til árangurs………en vafasöm bein tilraunastarfsemi með dómstigann, sem þá stjórnast mest af tilfinningum einstakra hestamanna. Það hvað tókst fljótt að skapa dómstiganum fast form og hvað þú hefur staðist tillögur …………….til breytinga, tel ég megingæfu. Vegna þessa er ef til vill hægt að fá sæmilegt arfgengismat á umræddum eiginleikum”…………. (Tilvitnun lýkur)
Með öðrum orðum: Það byggðist á festu og langtímahugsun, að hægt var að þróa vísindalega aðferð við úrvinnslu dómanna.
Það er hægt að hugsa sér að æ fleiri færu bara að stytta sér leið og sveifla sér eftir tískubylgjum og markaðskröfum, rækta einhæf hross, sem aðeins uppfylltu fá af ræktunarmarkmiðunum. Ef þeir hinir sömu komast langt á þessu, er þar með hætt við að hið opinbera ræktunartakmark yrði aðeins dauður bókstafur. Ég hef bent á að ef til vill höfum við að þessu leyti ekki verið nægilega á verði, jafnvel svo að á einstökum sýningum hafi fjölhæfir og flugvakrir hestar orðið að láta í minni pokann fyrir einhæfum tölturum.
Ef við gætum ekki að okkur gæti farið svo að hinn fagri, hrausti og fjölhæfi íslenski gæðingur heyrði sögunni til, sá sem okkur dreymir þó enn um og getur allt: Fetað, tölt, brokkað, skeiðað, stokkið – með fítonskrafti og heillandi í fasi – en jafnframt borið okkur um heiðar og hálendi, eldhraun og eggjagrjót. Við viljum að hann sé þýður og stinnur, mjúkur og stæltur, þægur og þreki hlaðinn, hugljúfur og harðskeyttur – ævinlega tilbúinn til að uppfylla óskir þess sem á honum situr. Einn og sami hesturinn, íslenski gæðingurinn. Þetta eru þær kröfur sem Íslendingar gera til sinna allrabestu hesta. Kröfurnar eru raunhæfar og dæmin eru mýmörg. Að kasta þessum draumahesti fyrir róða væri ófyrirgefanlegt slys. Og besta verkfærið sem við höfum til að standa vörð um slíka hestgerð er núverandi ræktunarmarkmið og dómkerfi.
Önnur hlið þessara mála er áhugi og viðleitni einstakra ræktenda til að sveigja dómkerfið að veikleikum sinna eigin hrossa. Í stað þess að reyna að bæta eigin framleiðslu, reyna þeir að fá dómkerfið til þess að taka mjúklega á veikleikunum – jafnvel að hefja þá upp í æðra veldi. Þessi ásókn beinist að einkunnagjöfinni fyrir höfuð, bak og lend, réttleika og jafnvel háls og herðar – en einkum og sér í lagi að fótagerðinni, sem er þó undirstöðueiginleiki – í bókstaflegum skilningi.
Vissulega er þetta spurning um hugarfar. Íslendingar geta ekki einblínt á tísku og markað í þrengsta skilningi. Þeim ber menningarleg skylda til þess að varðveita hestakyn sitt, sem hefur til að bera eiginleika sem finnast hvergi annars staðar í heiminum. Þessa skyldu hafa þeir gagnvart öðrum búfjárkynjum líka. Varðveisla þessara landnámskynja og viðgangur þeirra er stór þáttur í að vera Íslendingur. Þau hafa lifað af með okkur hörmungar og harðindi, eldgos og felli – og sjö alda erlenda kúgun.
Það eru skiptar skoðanir um þessi mál meðal Íslendinga og íslenskra bænda. Meðal þeirra eru vissulega til menn sem gefa ekkert fyrir þessa menningarlegu skyldu. Margir íslenskir kúabændur vilja ólmir flytja inn norskar kýr, til þess, segja þeir, að hámarka afurðirnar, og það þótt við það kunni að glatast ómetanlegir eiginleikar, sem eru dæmigerðir fyrir íslenska kúakynið og gera það einstakt í veröldinni. Þessir bændur tala eins og þetta sé þeirra ákvörðun einna – og samtaka þeirra – en ég segi hiklaust að þetta sé mál allrar íslensku þjóðarinnar, og afgerandi ákvarðanir um framtíðarskipan þessara mála verði að taka með lýðræðislegum hætti. Sama mundi gilda um það að eiga á hættu að glutra niður menningararfinum sem holdgerist í íslenska hestinum, litafjölbreytni hans og því að hann skuli vera, þegar best lætur, jafnvígur á fimm gangtegundir – svo aðrir eðliskostir séu látnir liggja milli hluta.
En hvað um ræktendur íslenska hestsins í öðrum löndum, sem hafa lengi verið góðir viðskiptavinir okkar, en jafnframt keppinautar. Hafa þeir þessa skyldu? Það væri ekki óeðlilegt að menn velti þessari spurningu fyrir sér hér í kvöld. Sjálfum finnst mér að það hljóti að orka tvímælis. Erlendum ræktendum hlýtur að vera algjörlega í sjálfsvald sett hvernig þeir líta á þessi mál. Tíska og markaður geta verið þeirra kjörorð. Við því er ekkert að segja, þeir hafa frjálst spil.
Og þó. Ég vil leyfa mér að spinna þennan þráð áfram:
Síðustu vikur hefur fátt verið meira rætt á Íslandi en staða íslenskrar tungu, skyldur okkar og möguleikar að standa vörð um hana svo hún skolist ekki burt í orðaflaumi heimstungna og Íslendingar týnist svo í þjóðahafið. Þótt hér verði ekki tekið undir neinar heimsendaspár í þessa veru, er þessi umræða af hinu góða og áhyggjurnar skiljanlegar: Ekki bara okkar sjálfra vegna, heldur líka vegna þess sem íslensk tunga hefur lagt af mörkum til heimsbókmennta og heimsmenningar.
Getum við, sem hér erum saman komin í dag, sammælst um að líta svipuðum augum á íslenska hestinn: Að hann sé framlag lítillar þjóðar til heimsmenningar, og líka þess vegna beri okkur skylda til að varðveita hann með öllum sínum eðliskostum. Og þar með er málið farið að koma fleirum við en Íslendingum einum, þótt enginn taki af þeim ábyrgðina.
Hins vegar mætti spyrja: Úr því að við höfum þessar ábyrgð, Íslendingar, fylgja því ekki líka einhver réttindi? Um þetta mætti hafa nokkur orð, þótt augljóslega séum við þá komin út í aðra sálma. Rétt er þó að minna á það forskot og sérstöðu sem við höfum út frá þessu hér, þótt fleira mætti sjálfsagt tína til:
1 Landfræðilegum aðstæðum við uppeldi og þjálfun. Þessar landfræðilegu aðstæður eru vel að merkja líka veigamikil ástæða fyrir víðfeðmu ræktunartakmarki, því íslenski markaðurinn – sem er stærsti og besti markaður íslenskra hrossabænda – krefst hrossa sem duga til ferðalaga vítt og breitt um landið. Það er alveg sama hvað menn hafa hampað mörgum bikurum að aflokinni keppni á bestu sýningavöllum landsins, já og heimsins vil ég segja – í hugum þessa fólks jafnast ekkert á við það að mega frjáls um fjöllin ríða. Það er sá toppur á tilveru okkar hestamanna, sem ekkert fær slegið út. Þessari tilfinningu vilja líka útlendingar allra helst kynnast, um það vitnar hin sívaxandi hestaferðaþjónusta, sem er að verða meiriháttar atvinnuvegur á Íslandi.
2 Möguleikum okkar á að vera að minnsta kosti fyrri til að nota bestu kynbótahrossin, þau sem fædd eru á Íslandi
3 Þeim stuðningi sem Stofnverndarsjóði er heimilt og raunar skylt að veita, ef líkur væru taldar á að annars glatist úr landi ómetanlegt erfðaefni. Þessi sjóður var settur á fót fyrir meira en 30 árum að tilhlutan Þorkels Bjarnasonar, fyrrum hrossaræktarráðunautar. Sjóðurinn er nú mjög öflugur, og fyrir ávöxtun hans eru nú árlega veittir styrkir til margvíslegra háskólarannsókna, sem munu koma íslenskri hrossarækt til góða um ókomin ár – á alþjóðavísu.
4 Síðast en ekki síst ætla ég að nefna hér til sögunnar Veraldar-Feng, hinn alþjóðlega gagnagrunn og ættbók íslenska hestakynsins, sem taka ætti af öll tvímæli um að Ísland sé upprunaland þess. Veraldar-Fengur lýtur stjórn Íslendinga og er á ábyrgð þeirra.
Mig langar til að víkja sérstaklega að einni þeirra spurninga sem fyrir liggur að svara hér, um samsvarandi reglur um útbúnað í íþróttakeppni og kynbótasýningum. Um þetta atriði vil ég aðeins segja þetta:
Vissulega nýtast fleiri hestar í keppni og ná betri árangri, ef leyfilegt er að þyngja þá á framfótum. En við megum ekki gleyma því að í eðli sínu eru sumir þessara einungis meðalhestar. Það er engin spurning að giltu sömu reglur um járningar og fótabúnað fyrir íþróttakeppni og kynbótasýningar, myndi það flýta mjög fyrir framförum í ræktuninni. Þeir stóðhestar – og afkvæmi þeirra – sem ná hylli á þessum forsendum, myndu ekki njóta eftirspurnar á við hina sem sannað geta eðlisgæði sín á aungri vigt.
Undir öðrum lið er kannski hægt að víkja að samanburði á íþróttakeppni og gæðingakeppni annars vegar og kynbótasýningum hins vegar. Á þessu er viss eðlismunur, sem endurspeglast í því að hinar fyrrnefndu greinar heita keppni, en hin síðarnefnda sýning. Í þessum nöfnum kemur skýrt fram hugsun gömlu mannanna, sem hófu þessa göngu, og ég held að þeim hefði ekki hugnast alls kostar sá samsláttur þessara hugtaka, sem orðið hefur meðal fjölmargra hestamanna. Þeir vildu í raun ekki að þessi keppnishugsun yrði allsráðandi í kynbótasýningunum, þótt vissulega röðuðu þeir alltaf kynbótahrossunum í sæti eftir frammistöðu og ætluðu kynbótagildi. Það má til gamans minna á það að faðir minn sagði stundum eitthvað á þá leið þegar hann var að lýsa kynbótasýningum, að hann vildi alveg eins taka með sér heim neðstu hryssuna í tilteknum flokki eins og þá efstu. Þetta gætu kannski sumir túlkað þannig að hann stæði ekki alltof vel við orð sín og gjörðir, en í rauninni lýsir það miklu fremur þeirri sýn að allt orkar tvímælis þá er gert er og fleira er matur en feitt kjöt. Dagsform og stundarhrifning er ekki alltaf það sem stendur best með, þegar til lengdar lætur. Satt að segja efast ég um að fas eða útgeislun sé eiginleiki sem hafi hátt arfgengi. Sumir vilja að þessum þætti verði gert ennþá hærra undir höfði í dómunum, en ég held að kynbótafræðingar séu á einu máli um að hátt arfgengi eiginleika sé nauðsynleg forsenda fyrir því að réttlætanlegt sé að auka heildarvægi hans.
Ég ætla að gamni mínu að varpa fram tveimur fullyrðingum, sem menn geta svo sem hugleitt hvort stangast á, en eru báðar sannfæring mín:
Ég get hugsað mér að út úr ræktuninni komi vel heppnaður einstaklingur, sem er þó alls ekki sérlega heppilegur í íþróttakeppni.
En ég held líka að það sé engin tilviljun að allir helstu sigurvegarar í keppnisliðum Íslendinga á undanförnum Heimsmeistaramótum skuli vera afsprengi stóðhesta sem í hávegum voru hafðir í dómkerfinu. Dæmin þekkja allir: Hvinur frá Holtsmúla (undan Kjarki frá Egilsstaðabæ), Hlynur frá Kjarnholtum (undan Kolskeggi frá Kjarnholtum), Snarpur frá Kjartansstöðum (undan Hrynjanda frá Hrepphólum), Fengur frá Íbishóli (undan Fáfni frá Fagranesi), Fálki frá Sauðárkróki (undan Fána frá Hafsteinsstöðum), Bassi frá Möðruvöllum (undan Gassa frá Vorsabæ), Silfurtoppur frá Lækjamóti (undan Toppi frá Eyjólfsstöðum), svo aðeins séu nefndir nokkrir af nýlega krýndum heimsmeisturunum. Þessi dæmi nægja til þess að sýna og sanna að það þarf engar áhyggjur að hafa af því að ekki ræktist heppilegir keppnishestar í íþróttakeppni – á meðan við höldum okkar striki og leggjum rækt við grunngildi og rétta grundvallarhugsun í hrossarækt.
Það er von mín að þessar hugleiðingar taki með beinum eða óbeinum hætti á mörgum þeirra atriða, sem hér eiga að vera til umfjöllunar. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að koma þessum hugðarefnum á framfæri. Það hefur verið einstaklega ánægjulegt og lærdómsríkt að anda að sér andrúmsloftinu sem hér ríkir, og einkennist framar öðru af vinarþeli í garð íslenska hestsins.
Ég þakka að lokum fyrir gott hljóð.