Eðli eða uppstilling
Texti: Bjarni Þorkelsson Myndir:
Það er ánægjulegt að efnt skuli til umræðu um hrossadóma á síðum hestablaðanna, eins og raun hefur á orðið. Hiklaust má segja að þótt allt sviðið sé undir – kynbótadómar, gæðingadómar og íþróttadómar – sé eðlismunur á umfjölluninni. Þannig hverfist umræðan um kynbótadóma um aðferðir og skipulag, fyrirkomulag og skilyrði afkvæmasýninga og raunar dómkerfið í heild sinni. Bent er á leiðir til að bæta matsaðferðirnar og rökstudd nauðsyn þess breyta vægi einstakra dómþátta. Þessi umræða er að verða sígild. Henni hefur ekki alltaf verið svarað af þeim sem helst eru til þess bærir, en nú bregður svo við að Þorvaldur Árnason – höfundur að aðlögun íslenskra hrossadóma að Blup-inu og primus motor í því að taka tölvur og gagnabanka í þjónustu íslenskrar búfjárræktar – hefur tjáð sig um verðlaunaveitingu kynbótahryssna. Að vonum fórst honum það allvel, þótt mátt hefði vonast eftir meira kjöti á beinunum. Þorvaldur lét þó í það skína að enn ætti hann tromp á hendi – nefnilega aðferð til að bregðast við því úrvali í gögnum sem ræktendur eru markvisst farnir að beita og valdið hefur skekkju í matinu. Eftir þessari bragarbót á Blup-kerfinu er einmitt beðið með nokkurri óþreyju, að minnsta kosti meðal þeirra sem enn hafa trú á því. Hinir munu að vísu láta sér fátt um finnast. Ef marka má viðtöl við ræktendur á síðum hestablaðanna, fjölgar stöðugt í þessum síðarnefnda hópi. Hlýtur það að vera verulegt áhyggjuefni fyrir greinina, ef grundvallaratriði njóta ekki almennrar tiltrúar.
Einmennings fyrirkomulagið
Umræða dagsins um gæðinga- og íþróttadóma er allt annars eðlis. Hún snýst um manneskjur, dómarana sjálfa, sem standa að vísu í starfi sínu berskjaldaðir úti á eyðihjarni. Tilefnin eru útúrkortadómar og hrópandi ósamræmi, gjörðir sem standast enga skoðun, atvik sem komu upp í sumar og afhjúpa veikleika þessa einmennings fyrirkomulags og setja það skör neðar en dómnefndarkerfi kynbótahrossanna. Vangaveltur um æfingaleysi dómaranna, skróp á upprifjunarnámskeiðum, menntunarskort og reynsluleysi af alvöru gæðingum eru að vísu grafalvarlegar. Þær blikna þó á móti áleitnum grunsemdum um að innan um og saman við í dómarastéttinni – jafnvel á sjálfu Landsmótinu – séu óvandaðir eða afvegaleiddir einstaklingar, sem gangi sífelldlega aftur og taki seint eða aldrei afleiðingum gjörða sinna.
Um Snorra og Þorvald
Það er ekki ætlun mín að spinna þennan þráð lengur að sinni, en taka til við þar sem frá var horfið um kynbótadómana og skilyrði afkvæmasýninga. Í 8. tbl. Hesta 2006 er vitnað í skrif Snorra Kristjánssonar um þessi mál. Ég tel að veigamestu rökin fyrir því að breyta þurfi skilyrðum um afkvæmaverðlaun hryssna komi ekki fram í þeim skrifum Snorra sem þarna er vitnað í. Þau rök hef ég margtuggið í ræðu og riti á undanförnum árum – og þau koma fram með óyggjandi hætti í grein Þorvaldar Árnasonar, þótt segja megi að hann reyni að skauta sem fimlegast framhjá þeim í niðurlagi þessarar tilvitnunar:
„…Fyrir stóðhesta með tugi dæmdra afkvæma byggir kynbótamatið nær alfarið á dómum afkvæmanna (sem eru leiðréttir með tilliti til sýningarárs, aldurs og kynferðis og þar með samanburðarhæfir og auk þess leiðréttir fyrir erfðagæðum hryssnanna sem eru mæður afkvæmanna). Fyrir hryssur með 5-6 dæmd afkvæmi kemur einungis uþb. helmingur upplýsinganna um kynbótagildi þeirra frá afkvæmunum. Þessar staðreyndir voru mönnum ljósar þegar forráðamenn íslenskrar hrossaræktar ákváðu núgildandi reglur um heiðurslaun hrossa með afkvæmum….“ (Tímaritið Hestar 8. tbl 2006, bls. 14).
Misráðin ákvörðun
Og nú segi ég: Það áttu þeir aldrei að gera. Þessi misráðna ákvörðun hefur kostað afkvæmasýningar hryssna trúverðugleikann. Það er viðurkennt að hross þurfa að eiga að minnsta kosti 15 dæmd afkvæmi til þess að geta hlotið eiginlegan afkvæmadóm, og við það lágmark miðast réttur stóðhesta til afkvæmaverðlauna. Aðeins ein hryssa hefur náð þessu marki til þessa dags, ef ég man rétt: Heiðurshryssan Hrafnkatla 3526 frá Sauðárkróki. Og einmitt vegna þessa þurfti að mæla hryssur á aðra stiku heldur en stóðhesta. Það hefur hins vegar aldrei fengist rætt hver sú stika ætti að vera, og varla hægt að ætlast til þess af leikmönnum að þeir skili fullmótuðum og skotheldum tillögum þar um. Það má taka heilshugar undir með Þorvaldi þegar hann segir: „…Hver þeirra [þ.e. afkvæmahryssnanna] ber allra verðmætustu erfðavísana fyrir framtíða[r] hrossastofninn fáum við þó aldrei fullgilt svar við….” Jafn ósammála er ég hins vegar þeirri fullyrðingu hans að það séu „…gild rök og góð hugsun bak við núgildandi reglur…“ Snöggir blettir eru á þessum reglum og afhjúpast þegar skoðuð er tafla Snorra Kristjánssonar á bls. 13 í fyrrnefndu 8. tbl. Tímaritsins Hesta. Fleiri gögn eru til um sama efni og hafa birst opinberlega á undanförnum misserum.
Magnús og Svanhildur
Svanhildur Hall stingur niður penna og fjallar um vilja og geðslag í hrossum, nánar til tekið „…hið fræga 100 daga próf sem stóðhestar af varmblóðskynjum geta gengist undir bæði í Evrópu og Ameríku…“ Það er áreiðanlega engin tilviljun að Svanhildur, sem er allreyndur kynbótadómari, velur sér þetta viðfangsefni. Svanhildur beinir því til lesenda að þeir velti fyrir sér hvort og hvernig hægt sé að aðlaga þetta próf að íslenskum veruleika og hagnýta í þeim tilgangi að fá áreiðanlegri niðurstöður um þessa mikilsverðu eiginleika. Sjálf gerir hún ekki ákveðnar tillögur í þessa átt – að minnsta kosti ekki að sinni.
Þess þarf hins vegar ekki lengi að bíða, er blaðinu er flett, að ákveðnar tillögur um breytingar á kynbótadómum líti dagsins ljós. Þar hleypir fram á ritvöllinn Magnús Lárusson, þrautreyndur dómari, kynbótaknapi, tamningamaður og kennari. Þótt Magnús lýsi í grein sinni áhuga sínum að hefja hægt stökk til virðingar, er engin leið að segja að reiðlag hans beri nú vott um það, heldur er hleypt af fullum krafti – eins og vera ber. Tillögur Magnúsar eru ekkert hálfverk eða kák. Þær eru fullunnar og tilbúnar til prentunar í nýrri útgáfu af ritlingnum „Kynbótadómar og sýningar“ – ef mönnum byði svo við að horfa. Meginatriði í tillögum Magnúsar eru þrjú: a) að jafna aftur hlutföll byggingar og hæfileika b) að jafna nokkuð vægi gangtegundanna og c) að fella niður einkunnir fyrir vilja/geðslag og fegurð í reið. Hér gefst kærkomið tækifæri til þess að taka undir ágæt rök Magnúsar varðandi fyrrnefndu atriðin tvö, og minna á það sem áður hefur verið sagt um þessi mál, t.a.m. í Tímaritinu Hestar. Undansláttarsjónarmið um fegurð og fjölhæfni eiga síst við, þegar keppt er að háleitum ræktunarmarkmiðum.
Þegar brekkan fyllir fang
Þriðja meginatriðið í tillögum Magnúsar Lárussonar vefst nú dálítið fyrir mér að taka undir, þótt vissulega megi kaupa nokkuð af þeim rökum sem fram koma. Er ekki dálítil mótsögn fólgin í því að gefast upp við að dæma eiginleika sem menn eru sammála um að skipti höfuðmáli í íslenskum hesti? Flestir gangnamenn hafa komist í þá aðstöðu að vera tilbúnir að gefa aleiguna fyrir hross sem uppfylltu fjallmannastaðal um vilja og dugnað. Við vissar aðstæður mundu sumir hiklaust hrópa yfir heimbyggðina að vilji og dugnaður væri það eina sem skipti máli í íslenskum hesti. Muna menn vísu Hjörleifs Kristinssonar sem segir allt sem segja þarf:
Leikur ekki lipran gang
lítt vill blekking þjóna.
Þegar brekkan fyllir fang
fyrst ég þekki Skjóna.
Meiri kröfur til dómara
Allir knapar afrekshrossa í kappreiðum og raunar hvers kyns keppni vita að viljinn og snerpan er það sem réði úrslitum að hæsta tindi var náð. Er alls kostar rétt að taka það fyrir gilt að dómarar hafi ekki auga og tilfinningu fyrir því hvort hrossin leggi sig fram sjálfviljug ellegar séu þvinguð? Er öldungis fullvíst að dómarar leggi sig nægilega eftir augljósum vísbendingum um vilja og geðslag hrossa? Það var útgefin stefna að verðlauna ekki taumstífa átakahesta með háum einkunnum fyrir vilja og geðslag, eftir að farið var að gefa eina einkunn fyrir þessa dómþætti. Hefur þeirri stefnu verið fylgt? Á Landsmótinu í sumar sáust dæmi um mjög frjálslega túlkun dómnefndar að þessu leyti, þótt augljós tækifæri hafi gefist til þess að beita einkunnaskalanum eins og fyrir er mælt. Oft hefur verið fundið að því á undanförnum misserum að dómarar kynbótahrossa noti vilja- og geðslagseinkunn til að verðlauna fótaburð og glæsilegt fas. Alhliðahross eigi undir högg að sækja á sviði þar sem tækifæri þeirra ættu fremur að liggja! Þau gangi undir mun þyngra próf en klárhrossin, en séu ekki metin að verðleikum þegar kemur til þess að bregða máli á vilja og geðslag.
Sjálf mælistikan er þó, þegar betur er að gáð, innbyggð í kröfurnar sem gerðar eru til alhliða hrossa: Afköst, snerpu og úthald á öllum gangi. Hér hafa dómarar kynbótahrossa verið á villigötum um hríð. Eru það rök fyrir því að fella dómþáttinn niður? Tæplega. Gerum fremur meiri kröfur til dómaranna, setjum þeim fyrir vandasamt verkefni. Þeir eiga að vinna í anda ræktunarmarkmiðanna. Að lokum um þetta atriði: Mætti ef til vill hugsa sér að hverfa aftur til fyrra horfs, dæma viljann og geðslagið hvort í sínu lagi og endurskoða vægið á einkunnunum með tilliti til þess hversu áreiðanlegar þær eru? Ef til vill að hafa geðslagseinkunnina bara vægislausa og leiðbeinandi?
Skekkt vægi
Um fegurð í reið mætti halda álíka ræðu. Sígilt viðfangsefni dómnefnda í búfjárrækt hlýtur að vera að komast til botns í eðlisgerð gripanna sem til dóms eru leiddir. Í hrossaræktinni eru margir þættir sem leitt geta menn af götu í þeirri viðleitni. Þaultamning og uppstilling á sýningabrautinni eru auðvitað eitt af því sem dómarar verða að þjálfa sig að sjá í gegnum. Kringdur makki og spánskt spor er hvort tveggja göfugt og verðugt viðfangsefni tamningamanna. Einkunnagjöfin fyrir fegurð í reið verður þó að taka mið af fleiri þáttum. Þar hlýtur reisingin og hálsgerðin að vega þungt, léttleiki á bol, taglburður og prúðleiki. Þessi dómþáttur gefur í raun einstakt tækifæri til að árétta megináherslur og hampa þeirri hestgerð, sem við sækjumst eftir.
Örðugt hefur reynst að skilja hafrana frá sauðunum með byggingardómunum einum. Upp á síðkastið kann okkur að hafa borið nokkuð af leið í leitinni að draumahestgerðinni. Hvað sem það er sem slær ryki í augun, bætti ekki úr skák að skekkt voru vægi byggingar og hæfileika fyrir nokkrum árum. Þessar staðreyndir hafa auðveldað miðlungi vel byggðum hrossum að komast á toppinn eða langleiðina þangað. Ég lét að því liggja hér að framan að ekki væri óeðlilegt að alhliða hross fengju tækifæri til stærri landvinninga þegar kæmi að einkunnagjöf fyrir vilja og geðslag. Á móti mætti með réttu segja að í einkunninni fyrir fegurð í reið liggi tækifæri klárhrossanna. Undantekningar sanna svo regluna!
Atlaga að æðri gildum
Það er ekki ætlun mín að taka afstöðu til allra þeirra góðu ábendinga og tillagna sem fram koma í grein Magnúsar Lárussonar. Ég get þó ekki stillt mig um að tæpa aðeins á tvennu. Í niðurlagi greinar Magnúsar segir hann: „…Breytinga er þörf núna vegna ýmissa ástæðna, svo sem vegna þess aðvið sækjumst eftir annarri hestgerð en sóst var eftir þegar dómkerfið var upphaflega gert…“. Má ekki alveg eins – og kannski miklu fremur – líta svo á að á þessari rúmlega hálfrar aldar vegferð hafi þokast einhver hænufet í átt að settu marki, og að myndin af draumahestgerðinni hafi ef til vill skýrst eitthvað í hugskotinu á þeirri vegferð, einmitt af því að við sjáum glitta í æ fleira af því sem skapar þá heildarmynd?
Magnús vill gefa hæga stökkinu meiri gaum, og gengur svo langt að leggja til að vægi þess verði 7% af hæfileikaeinkunn. Hratt stökk leggur hann til að fái aðeins 2% vægi. Ég verð að viðurkenna að hér gengur alveg fram af mér. Lægðu sprettinn, Magnús, líttu á. Allt mælir hér í mót: Öll reynsla kynslóðanna, öll saga hestsins frá öndverðri Íslandsbyggð, allt líf hans í ljóði og sögnum meðal landsins barna, allt frelsið í faxins hvin. Sköku-Brúnn og Skúlaskeiðs-Sörli bylta sér í gröfinni. Og ekki nóg með það: Þessi hugmynd gengur þvert á hnattrænan og sammannlegan skilning á eðli hestsins, hlaupadýrsins, flóttadýrsins. Hér er einfaldlega of langt gengið í því að gera hestinn að einhverju allt öðru en hann er skapaður til að vera. Þessi krafa er atlaga að gildum sem eru æðri en allir þeir smámunir sem við erum að hjala um hér í fásinninu og taka sig svo ljómandi vel út á litprentuðum síðum Tímaritsins Hesta.
Að lokum
Það er óhætt að taka undir það margendurtekna álit á síðum hestablaða að afkvæmasýning hryssna á LM 2006 hafi verið heldur snautleg. Var ástæða til þess af Fagráði að bregðast svo við gagnrýni á afkvæmasýningar hryssna, að fella niður öll skilyrði um þátttöku? Ég tel að svo sé ekki og hafi reynslan sýnt það svo ekki verður um villst. Það er von mín að þessi skrif – og þau sem vitnað hefur verið til – eigi erindi við Fagráð í hrossarækt.