Þorsteinn Vigfússon. Hér er hann með þrjá gráa (ljósmynd Magnús Trausti Svavarsson).
Magnús Trausti Svavarsson og Hólmfríður Björnsdóttir á Blesastöðum voru valin ræktunarmenn ársins 2005 af Fagráði í Hrossarækt. Þegar svipast er um í ættum hrossa þeirra, sést vel hversu afgerandi þátt í þessari vegsemd eiga hross ættuð frá Húsatóftum á Skeiðum. Þar er fremst í flokki gæðingshryssan Raun frá Húsatóftum, dóttir Váks frá Brattholti og Bryðju frá Húsatóftum. Bryðja var undan Gáska 920 frá Hofsstöðum og Musku frá Húsatóftum, dóttur Hryðju frá Björk í Sandvíkurhreppi. Raunar er Vákur ættaður af öðrum nágrannabæ, því hann er sonur Gassa frá Vorsabæ, en móðirin hin kunna ræktunarhryssa Perla frá Kjartansstöðum, sem ól að mestu aldur sinn í Brattholti í Biskupstungum.

Bláþræðir – Saga gráu hrossanna á Húsatóftum

Kvenleggur gráu hrossanna á Húsatóftum á sér hartnær heillar aldar samfellda sögu, sem stundum hefur hangið á bláþræði. Sá bláþráður holdgerist um þessar mundir í gráskjóttri hryssu í eigu Þorsteins Vigfússonar, sem Blæja heitir, og er að verða alhvít. Blæja varð ung fyrir slysi, sem kostað gat hana lífið, en yfir það komst hún á tæpu vaði. Móðir Blæju er Þruma frá Húsatóftum, grá að lit, dóttir Hryðju, sem fædd var á Björk í Sandvíkurhreppi. Faðirinn er Teigur frá Húsatóftum, Dáðarson, Muskudóttur, Hryðjudóttur, þeirrar er þegar er getið.
Þessa bláþráðasögu sagði Þorsteinn undirrituðum á dögunum. Mér þótti hún bæði merkileg og skemmtileg, eins og von er af manninum. Vegna þessa, og eins hins, að hrossakyn Þorstein er orðið þekkt og útbreitt, hefi ég ritað frásögn Þorsteins. Gef ég nú orðið vini mínum Steina á Húsatóftum:

Skjóna
„Það var í kringum 1890 að afi minn Þorsteinn Jónsson á Húsatóftum kemur á markað fyrir sunnan, þar sem höndlað var með útflutningshross. Þau urðu að standast mál, þeir vildu ekki smæstu hrossin í námurnar. Þar var þá rauðskjótt hryssa ættuð úr Húnavatnssýslu að talið var, breiðblesótt og hvítt allt, nef og nasir. Það var talið ómögulegt að selja hana í námurnar vegna hvíta litarins, það sækti svo í það bruni. Afi kaupir þessa hryssu, og er það upphaf þeirra Húsatóftahrossa sem nú eru á dögum. Skjótta hryssan vann sig í álit, og sýndi fljótt af sér þá hluti sem enn eru einkenni á þessum hrossum: Hún var ákaflega dugleg að bjarga sér, þótt í harðæri væri. Það þurfti helst aldrei að gefa henni inni, hún gekk aldrei úr holdum og hægt að taka hana til brúkunar hvenær sem var. Þetta þótti höfuðkostur þá. Svo var þetta afburða dugnaðarhross.

Leira
Skjóna eignast hryssu vorið 1902, sem Leira var nefnd. Vigfús Þorsteinsson, faðir minn, fékk undan Leiru brúnan hest, fyrsta hestinn sinn, sem varð honum mikill gæfuhestur. Katrín systir hans fékk svo gráskjótta hryssu undan Leiru sem fædd var 1918. Þetta folald átti ekki að fæðast, en talið var það undan gráum hesti frá Efri-Brúnavöllum. Sá var talinn undan hesti frá Sóleyjarbakka sem trúlegast var undan Kóplands-Grána, sem frægur er í sögunni.
Kötu-Grása
Undan Kötu-Grásu veit ég að Villi bróðir hans pabba fékk ljósaskjóttan hest, sem varð hans reiðhestur meðan hann var á Húsatóftum – og lengur. Svo eignaðist pabbi undan henni rauðstjörnóttan hest sem Neisti hét og var honum afar kær. Hann var þó seldur 1937 – ég var þá tveggja ára. Það hafði fokið kúahlaðan hjá föður mínum. Peningar lágu ekki á lausu. Einhver segir sem svo að nú hefði sá rauði þurft að vera yngri, en hann var þá tíu vetra.
Þetta barst svona með blænum og komu nú menn úr Reykjavík að líta á gripinn. Það enti með því að Sæmundur Gíslason yfirlögregluþjónn keypti þann stjörnótta og borgaði fyrir hestinn allt efni í hlöðuna – og vel það. Þessi hestur varð fjörgamall. Pabbi minntist aldrei framar á hestinn, en ég hafði auðvitað veður af þessum atburðum og lék forvitni á. Þegar ég stálpaðist fór ég að spyrja um Neista, vildi jafnvel fara að sjá hestinn. Nei, Steini, sagði þá faðir minn, þú getur ekki gert mér það.

Gola – Hæra
En svo ég haldi áfram með þennan kvenlegg, þá fæðist undan þeirri gráskjóttu – Kötu-Grásu – grá hryssa undan Nasa frá Skarði, og var kölluð Gola. Hún var aldrei tamin, og það kom mikið til af því að hún lendir á þessum árum þegar mæðiveikin kemur upp. Það var þröngt í búi, kreppan í algleymingi og almenn fátækt. Fólkið þurfti að hafa að borða, og Gola var alltaf látin eiga folöld í því skyni, þau voru höfð til frálags. En svo 1939 fæðist undan henni grá hryssa sem þó er látin lifa, og kölluð Hæra. Hún var undan Surti 133 frá Kirkjubæ. Um Surt segir Gunnar Bjarnason í Ættbók og sögu, að engin skráð afkvæmi séu til undan honum í bókum Búnaðarfélagsins. Hæra var seld fylfull að móálóttum hesti undan Kára 162 frá Hemlu. Það var Jón í Björk í Sandvíkurhreppi sem keypti og það fékkst fyrir hana gott verð. Ég man eftir því að Jón kom eitt sinn á þeim móálótta að Húsatóftum. Hann var þá að ríða til fjalls.
1940 fæðist aftur folald undan Golu og Kára, að þessu sinni grá hryssa. Pabbi sá í henni framhaldið á þessu stofni. Hún kastar ung gráum hesti. Það var Þytur, síðasti reiðhestur pabba, þekktur gæðingur á Suðurlandi sem keppti fyrir Hestamannafélagið Smára á landsmótum, auk félagsmóta. Svo kemur hún með gráa hryssu 1945 eða 1946.
Galli mikill var á þessari Káradóttur, hún tolldi aldrei heima. Hún kom alltaf fram einhvers staðar þegar vetraði, það var engin leið að vita hvar – og ævinlega fylfull. Fyrir bragðið var hún alveg óeigandi, og þar kom að hún var felld.
Litla-Grána var þá orðin tveggja vetra. Hún fóðraðist illa um veturinn, og pabbi er sannfærður um að hún sé ormaveik. Fengið var meðal hjá Jóni Pálssyni dýralækni og hellt í nös, og það drap hana.
Þar með var allt hryssukynið á Húsatóftum farið, og ósýnt um framhaldið. Ég var ekki mjög ánægður með það þegar Þytur fór að sýna sig í tamningunni hjá mér. Pabbi fann það og hefur sjálfsagt liðið eins, því Þytur var alveg einstakur hestur, blossandi viljugur og gammvakur.

Hryðja
Pabbi hringir nú í Jón í Björk og spyr hvort hann eigi einhverja hryssu, helst gráa, undan Hæru gömlu. Jón játti því, segist eiga gráa hryssu, sem hann kallaði Hryðju, fylfulla við Bráni frá Vorsabæ. Eru nú kaupin ákveðin í gegnum símann, og ekki spurt um verð. Þetta minnti svolítið á fyrri kaupin, báðar hryssurnar með fyli.
Ég sótti svo Hryðju síðla vetrar eða um vorið, og kastaði hún í Húsatóftahögum gráu merfolaldi. Það var tamið í fyllingu tímans, en fórst fljótlega eftir það. Þetta var ágætis hross, en ekki þó það sem ég hafði vonast eftir. Ég hélt því að ég væri að verða fyrir vonbrigðum með þessa hryssu, hana Hryðju.
Nú víkur sögunni að Glóblesa 455 frá Eyvindarhólum.
Þorkell Bjarnason hafði beðið mig að ríða Glóblesa á fjórðungsmótinu á Hellu 1961. Hann hafði sjálfur haft með klárinn að gera um veturinn, en var nú í dómarasæti og gat því ekki lokið ætlunarverkinu, að sýna hestinn í kynbótadómi. Sýningin átti að byrja klukkan 9 árdegis á laugardegi. Svo stóð á heima á föstudeginum að hey var flatt, og að verða þurrt. Við brugðum á það ráð að lana heyið og geyma það svo yfir helgina. Við vorum að til klukkan fjögur um nóttina. Ég hugsaði mér að vakna klukkan sex og stillti klukkuna í því skyni.
Mamma vakti mig hálf sjö, vekjaraklukkan hafði svikið. Ég var kominn út með það sama, í vinnugallann þar sem ég hafði farið úr honum og var ferðbúinn. Pabbi varð eitthvað var við þetta, og biður mig að finna sig. Segir mér að vara mig á því að sprengja ekki klárinn. Hann viti að hann mæðist ekki, en hann yrði að fá að pissa. Ég yrði að gæta þess að ríða honum ekki verr en svo af stað.
Ég tók nú Bleik. Okkur skilaði drjúgum af stað, fór þó ekki hart. Við Kálfhól pissaði klárinn, þá var ég ánægður. Þegar hann pissaði aftur við Þjórsárbrú fannst mér ferðinni borgið. Fyrir hálf níu kom ég á mótsstaðinn, og hafði þá ferðalagið tekið hálfan annan tíma. Mér fannst ég geta haldið áfram lengi enn, klárinn vissi ekki af þessu.
Glóblesi hlaut efsta sæti í kynbótasýningunni, og var nú ákveðið að halda Hryðju undir hann. Skyldi það gert að ári. En svo gengur það nú ekki. Það var búið að taka eftir því að það var móálótt tryppi í hrossunum, sem aldrei sást haggast.
Nú kemur Loftur gamli á Sandlæk og fer að spyrja pabba hvort hann hafi orðið nokkuð var við móálóttan hest í hrossunum, hann sé týndur. Pabbi spyr hvort þetta sé fullorðinn hestur.
– Nei, segir Loftur, þetta er tvævetur ræfill.
– Ja, það er hérna móálótt tryppi, ég hélt að það væri meri, segir þá pabbi.
Nei, það var þá hestur, og ógeltur í þokkabót. Þar var kominn Móalingur á Sandlæk, faðir hans Reynis míns. Þrjár merar voru nú fylfullar og pabbi ekki glaður – og ég ekki heldur, því nú brugðust vonirnar um að leiða Hryðju undir Glóblesa.
Móalingur var undan Feng 309 frá Hróarsholti, Skuggasyni 201 frá Bjarnanesi og dóttur Berghyls-Brúns 106. Móðirin var jarptoppótt hryssa á Sandlæk, undan Kárasyni frá Húsatóftum.
Reynir var fæddur 1963 og hann varð minn reiðhestur og eftirlætisgæðingur það sem eftir er. Hann fer aldrei úr því sæti.”

Hér lýkur frásögn Þorsteins. Hryðja, dóttir Hæru og Úlfsstaða-Blakks 302 var hálmstráið sem Þorsteinn sótti niður í Flóa á útmánuðum 1961, og segja má að það hafi orðið hennar hlutskipti að tengja saman eldri og yngri kynslóð Húsatóftahrossanna, þótt fædd væri af bæ. Það komu góðir hestar undan Hryðju, enginn þó betri en Reynir Þorsteins Vigfússonar á Húsatóftum, sem var gullfallegur gæðingur, alveg sérstakur reyndar. Hannibal og Gormur voru synir Svips frá Akureyri, hinir prýðilegustu hestar. Nebbi sonur Gorms var afrekshestur á borð við Bleik á Húsatóftum, sem tæpt hefur verið á. Um afkvæmi Hryðju sagði, er hún hlaut sína heiðursviðurkenningu á Fjórðungsmóti á Hellu 1972.
„Synir Hryðju eru svipmiklir reiðhestar, fjölhæfir í gangi og búa yfir mikilli getu. Sá elsti þeirra, Reynir, er að glæsileik og kostum í fremstu röð sunnlenskra gæðinga. Hryðja hlýtur 1. verðlaun.”
Reynir er sá hestur sem fyrstur vakti landsathygli á Húsatóftahrossum, auk þess að vera margfaldur sigurvegari á heimavelli. Síðast vann hann Hreppasvipuna 19 vetra gamall. Hann var í úrvali gæðinga á fjórðungsmóti á Hellu 1972 og Landsmóti á Vindheimamelum 1974. Knapinn var hinn stolti eigandi, eins og þá var alsiða: Menn riðu sínum hestum sjálfir, en sátu heima ella.
Bjarni Þorkelsson

Greinin birtist áður í Sunnlenska fréttablaðinu í tilefni sjötugsafmælis Þorsteins Vigfússonar 7. febrúar 2005. Greinin er nú lítillega breytt.

%d bloggers like this: