Það er víst kominn tími til að segja smávegis frá þátttöku Þóroddsstaðahrossa á LM 2011, fyrst um kynbótasýningu, og í næsta pistli örlítið um skeið.
Óhætt er að segja að oft hafi bein Landsmótsþátttaka Þóroddsstaða/Laugarvatnshrossa verið meiri en nú. Jafnvíst er að áhrifa þeirra gætir meir en nokkru sinni, því fjölmörg þátttökuhross eiga ættir hingað að rekja.
Hæst ber þar sjálfan Sleipnisbikarhafann og heiðursverðlaunastóðhestinn, Gára frá Auðsholtshjáleigu, sem er undan einni Laugarvatnsmerinni, afrekshryssunni Limru. Vordís dóttir hennar fékk raunar líka heiðursverðlaun í vor, og fær þau formlega afhent á Hrossaræktarráðstefnunni í haust, ef að líkum lætur. Þá átti Limra eina félegustu 4ra vetra hryssuna á mótinu, hina glæsilegu og gangmjúku Rímu frá Auðsholtshjáleigu – og raunar fjölmarga afkomendur aðra.
Undan annarri Laugarvatnshryssu, Hlökk, var einn af 1. verðlaunastóðhestum mótsins, Þóroddur frá Þóroddsstöðum. Honum fylgdi geysisterkur hópur, fimm stóðhestar og ein hryssa: Arnoddur frá Auðsholtshjáleigu (8,51), Hringur frá Skarði (8,48), Grunnur frá Grund (8,47), Hvessir frá Ásbrú (8,34), Von frá Þóroddsstöðum (8,33) og síðast en ekki síst Þrumufleygur frá Álfhólum (8,27). Ef marka má einkunnir er ljóst að enginn stóðhestur á mótinu státaði af svo samvöldum afkvæmahópi hátt dæmdra þátttökuhrossa – og á hliðarlínunni, varahross í afkvæmasýningunni, voru þrjú landsmótshross í viðbót, öll 5 vetra: Gjöf frá Vindási (8,22), Dalvar frá Horni (8,15) og Þraut frá Hólum (8,13).
Það stendur á einum stað í fornri bók að þeir segi mest af Ólafi konungi sem hvorki hafi heyrt hann ná séð. Þetta rifjaði Guðmundur Andri Thorsson upp í blaðagrein á dögunum, en ég tek það hér traustataki vegna þess hve viðeigandi það er, þegar minnt er á þá sem hafa farið hamförum í áróðri og árásum á stóðhestinn Þórodd frá Þóroddsstöðum, sem 12 vetra gamlan vantaði nú aðeins tvö dæmd afkvæmi til að hljóta heiðursverðlaun fyrir afkvæmi.
Það var stoltur ræktandi sem fylgdist á landsmótinu með glæsilegum og samstæðum hópi flugvakurra alhliða gæðinga – afkvæmahópi Þórodds – og ekki orð um það meir.