Í tilefni af örlitlu hænufeti í rétta átt, sendi ég svohljóðandi skeyti til LH – skrifstofu í morgun:
„Komið þið sælar.
Lýsi sérstakri ánægju með nýju stöðulistana, þar sem allt er haft í réttri röð, mismunandi eftir greinum.
Þetta er mjög mikilvægt að hafa í lagi í framtíðinni – að LH hafi forystu um að varðveita réttan skilning á eðli hlutanna. Nóg er af ruglinu samt, bæði í almennri umræðu og fjölmiðlum.
Rétt hugtakanotkun á þessu sviði stuðlar vonandi að því að virðing sé borin fyrir hrossunum sjálfum og afrekum þeirra. Á það hefur vantað upp á síðkastið.
Með bestu kveðju, Bjarni.“
Fyrir þá sem átta sig ef til vill ekki á tilefninu:
Er hér um gamalt baráttumál að ræða hjá undirrituðum, m.a. rækilega undirstrikað á Hrossaræktarráðstefnu haustið 2009 í svofelldum orðum:
„Suma daga eru vefsíður, blöð og tímarit, sem kenna sig við hesta og hestamennsku, stútfull af tilefnum til þess að reisa við rönd. Sá sem hér stendur er raunar seinþreyttur til vandræða og lætur alla jafna yfir sig ganga í fjölmiðlum ýmislegt sem flokka má sem ófaglega og hlutdræga umfjöllun, atvinnuróg og steigurlæti besserwissera.
Nú má enginn skilja orð mín þannig að aldrei sé borið á borð fyrir okkur lesendur eitthvað gómsætara en þarna var nefnt, og vissulega hefur verið brugðist við ábendingum um það sem betur má fara, eins og í dæminu sem tekið verður hér á eftir.
En það er satt að segja assgoti hvimleitt að sjá fyrirsagnir eins og þessar um gæðingakeppni fyrir austan fjall í sumar: Friðdóra sigraði A – flokkinn, Sigursteinn sigraði B – flokkinn o.s.frv. Þetta ágæta fólk var nefnilega ekki meðal hinna eiginlegu keppenda. Í gæðingakeppni eru það hestarnir sem etja kappi hver við annan. Um íþróttakeppnina gildir hins vegar að þar eru knaparnir í aðalhlutverki og hljóta sín sigurlaun í eigin nafni.
Það er raunar tímanna tákn að fréttirnar skuli vera þannig orðaðar. Þessi ólíka keppnistilhögun, gæðingakeppnin og íþróttakeppnin, virðist nú um stundir vera komin í einn graut hjá almenningi, keppendum og dómurum og mótshöldurum, hverjir svo sem bera mesta ábyrgð á því hvernig komið er. Fagtímarit um hestamennsku geta hins vegar ekki verið þekkt fyrir að kunna ekki skil og greinarmun á gæðingakeppni og íþróttakeppni. Prentmiðlar af því tagi verða að fara fyrir í þeirri viðleitni að koma orðum að hlutunum í samræmi við eðli þeirra og tilgang. Þar hafa þeir ríkar skyldur.
Um kappreiðar gildir sama regla og um gæðingakeppni, þar er hesturinn í aðalhlutverki og á ævinlega að teljast fyrst þegar getið er um afrek í kappreiðum. Í mínum uppvexti hefði þótt fráleitt að segja svo frá kappreiðaúrslitum að Sigurður Ólafsson, Geiri í Gufunesi eða Jón í Varmadal hefðu unnið skeiðið – nei það voru Gletta eða Hrollur, Óðinn eða Þór, Randver eða Logi. Fyrst þegar ég heyrði menn tala svona – Sigurbjörn vann skeiðið eða Erling lá á góðum tíma – fannst mér það bara broslegt barnahjal eða agalaust kjaftæði útúrdrukkinna beitarhúsamanna. Nú er þetta sjálfsagt orðalag hjá kappreiðaþulum og fréttamönnum. Og hestarnir? Ekki nefndir.
Þessi persónu- og knapadýrkun er komin út í algerar öfgar og ég vil undirstrika það að enginn af þeim mönnum sem hér hafa verið nefndir, né nokkurt annað af því fólki sem hæst hefur borið í hvers kyns keppni, gæti neitt nema því aðeins að að hafa afrekshest í klofinu. Hvenær skyldum við annars heyra samtal eins og þetta: Hver vann aftur 7 vetra flokk stóðhesta á Landsmótinu 2008? Ja, það var annað hvort Þórður eða Danni. Eða vas sa sú?“