Bjarni fór í dag með Von og Eldingu í kynbótadóm í Reykjavík. Það er skemmst frá því að segja að það gekk afbragðsvel.
Von fékk 8,33 í aðaleinkunn og tryggði sér farseðil á LM 2011. Hún fékk 9 fyrir fótagerð og skeið og hvorki meira né minna en 9,5 fyrir vilja og geðslag. Sýningin var frábær, kraftmikil og örugg. Engar endurtekningar eða þaulsýningar, og svo var bara hætt, þótt enn mætti ríða og ferðirnar ekki fullnýttar.
Sama var í raun upp á teningnum þegar Elding var sýnd, þótt ekki jafnist Elding á við Von þegar kemur að krafti og yfirferð. Elding hlaut 7,79 í aðaleinkunn.
Hryssurnar eru báðar undan Þóroddi, Von undan Dömu og Elding undan Bliku. Hvor um sig hækkar um um það bil 50 stig frá hinni skelfilegu miðsumarsýningu á Hellu í fyrrasumar. Á því eru til ýmsar skýringar, en ekki verður farið nánar út í þá sálma hér.