Fór í dag austur á Hvolsvöll að sækja fóðurbæti – og notaði auðvitað ferðina. Kom fyrst til Brynjars Stefánssonar á Selfossi.
Brynjar sýndi mér brúna hryssu Stefáns Pálssonar, undan Þóroddi. Hún er að verða fimm vetra. Ég var afskaplega ánægður með hana, tölt og brokk til fyrirmyndar – og nóg skeið segir Brynjar, en ekki þaulæft ennþá.
Næst kom ég til Daníels, og stóð þá altygjaður á fóðurganginum einn af „tvíförunum“, sonum Þórodds: Otkell frá Kirkjubæ, rauðstjörnóttur, glófextur, faxprúður. Eyrun höfuðdjásn og fallegt er augað. Svona líta þeir nú ótrúlega margir út. Ég sá svo til hans um leið og ég renndi úr hlaði, þarna er hestefni á ferðinni.
Að síðustu kom ég til Elvars Þormarssonar. Þeir feðgar eiga Þóroddsson af áðurnefndri gerð, bolléttan og fangreistan. Hér er kominn Vörður frá Strandarhjáleigu. Elvar sýndi mér gripinn, og var óánægður með hann, nýjárnaðan og jafnvægislausan. Ég sá þó glitta í sitthvað skemmtilegt. Elvar segir folann flugvakran og mjög vel töltgengan, brokkið styrkist óðum.
Þegar heim kom sá ég frétt af vetrarmóti Sleipnis. Þar varð efst í unghrossaflokki Þórey Þóroddsdóttir frá Fróni (frá Ragnari Tómassyni), en hana sá ég einmitt um daginn hjá Steindóri bónda í Hólum – og líkaði vel.
Þetta var góður dagur.