Loksins tókst að koma á löngu fyrirhugaðri folaldasýningu Hrossaræktarfélagsins Goða á konudaginn sjálfan, í blessuðu góðviðri. Skyldu menn nokkuð hafa munað eftir hinu fornkveðna, að Góa ætti til grimmd og blíðu og gengi í éljapilsi síðu?

Að venju var komið saman í reiðhöllinni á Minniborg, þar sem aðstaða er kjörin til viðburða af þessu tagi. Margt var um manninn, og segja má eins og í Njálu að allt væri „á för og á flaug“ í sveitinni. Þátttaka í sjálfri folaldasýningunni var enda með með mesta móti, vel á fjórða tug folalda í tveimur flokkum: Félagsmannaflokki og gestaflokki.
Stjórnskipulagið á þessari árlegu folaldasýningu gengur út á menntað einveldi, og eru lýðræði og samræðustjórnmál markvisst fótumtroðin. Dómari var að venju hinn framsækni Flóamaður, Óðinn Örn Jóhannsson, sem aldrei haggast eða lætur eiga hjá sér þótt hnútur fljúgi um borð. Er ekki vitað til þess að niðurstöður hans hafi nokkru sinni verið véfengdar, að minnsta kosti ekkert að ráði.
Að loknum dómum var gert kaffihlé, á meðan reiknaðar voru út niðurstöður og röð folaldanna. Veitingar voru fram bornar, og var létt yfir mönnum og gamanið að mestu græskulaust, þótt alvörumál eins og hitaveitu og þjóðaratkvæðagreiðslu bæri einnig á góma.
Að loknu kaffihléi voru niðurstöðurnar kynntar. Eins og sjálfsagt er í tilefni dagsins trónir kvenkynið hæst á stalli í félagsmannaflokki, hvort sem litið er til keppandans eða eigandans!.

Félagsmannaflokkur

1. Hetja frá Hömrum IS2010288771. F. Þóroddur frá Þóroddsstöðum M. Nútíð frá Hömrum u. Gusti frá Hóli. Eigandi: Auður Gunnarsdóttir.
2. Nökkvi frá Þóroddsstöðum IS2010188806. F. Keilir frá Miðsitju M. Blökk frá Sóleyjarbakka u. Þyrni frá Þóroddsstöðum. Eigandi: Bjarni Þorkelsson.
3. Kubbur frá Kringlu. F. Núpur frá Núpakoti u. Topari frá Kjartansstöðum M. Perla frá Þórisstöðum. Eigandi: Jón Haukur Bjarnason.

Gestaflokkur

1. Bláskeggur frá Kjarnholtum 1 IS2010188566. F. Kvistur frá Skagaströnd M. Hera frá Kjarnholtum. Eigandi: Magnús Einarsson.
2. Stjarna frá Hömrum. F. Bragur frá Túnsbergi M. Von frá Steinum. Eigandi: Arna Björk Arnardóttir
3. Hermína frá Kjarnholtum 1 IS2010288561. F. Mjölnir frá Hlemmiskeiði 3 M. Lyfting frá Kjarnholtum u. Degi frá Kjarnholtum.

%d bloggers like this: