Von Þóroddsdóttir er ævintýrahross, á því leikur ekki vafi.
Að minnsta kosti var það að heyra á Bjarna í dag. Raunar minnir mig að það hafi verið aðeins lakara hljóð í honum dag einn í síðustu viku! En svona hefur það nú löngum gengið fyrir sig hér á bæ, ætli maður kannist ekki við það.
Annars allt hefðbundið, má segja, og gengur allt vel, svona smámjakast í áttina, rétt eins og sólin hækkar á himni, eitt hænufet á dag. Ég er að verða þokkalega ánægður með klárana mína, svona miðað við árstíma.
Goði var mjúkur og góður á töltinu hjá Bjarna, Hlekkur er að verða drýgri á brokkinu, það opnast fljótt fyrir töltið í Vála. Þetta heyrði ég og sá í dag um þrjá yngstu Hlakkarsynina.
Þorkell hringdi í dag. Hann ætlar að koma á laugardaginn og járna svolítið fyrir mig. Það gengur alltaf vel hjá honum með Straum – utan einu sinni varð smá uppákoma, sem ekki hefur endurtekið sig.