Ráðstefnustjóri, frummælendur – sem ég þakka fyrir góð erindi – og góðir ráðstefnugestir.
Af því að ég er ekki viss um að önnur betri tækifæri gefist til þess, þá vil ég fyrir hönd móður minnar – sem ekki gat komið hingað af heilsufarsástæðum – og allrar fjölskyldunnar þakka fyrir þann sóma sem minningu föður míns er sýndur hér í dag. Fyrst þakka ég auðvitað gefendunum að listgripnum, sem eru hrossaræktarsamtök um gervallt land, Leifi Kr. Jóhannessyni fyrir hugmyndina, Sveini Steinarssyni og stjórn Hrossaræktarsamtaka Suðurlands fyrir forgöngu og atbeina í málinu, Félagi hrossabænda fyrir stuðning sinn, Kára Arnórssyni fyrir veitta aðstoð – og síðast en ekki síst listakonunni Siggu á Grund.
Ég verð að viðurkenna það að ég varð djúpt snortinn þegar ég sá leiftrið í auganu á dýrinu, sem virðist þarna lifandi komið. Svona geta aðeins þeir gert sem leggja líf og sál og fágæta alúð í verk sín og búa yfir undranæmi gagnvart viðfangsefninu. Hver gæti búið þetta til sem ekki er ofurelskur að hestum?
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að við erum fjarskalega þakklát fyrir þetta framtak. Það þarf enginn að óttast að ég fari að tjá mig um það hvernig Þorkeli Bjarnasyni farnaðist í sínu lífsstarfi. Hitt get ég óhikað vottað að hestarnir og starfið áttu hug hans allan og kannski er líka hér óhætt að nefna líf og sál, alúð og næmi, þótt ólíku kunni að vera saman að jafna.
Ég vil líka óska öllum verðlaunahöfum dagsins innilega til hamingju með sína vegsemd. Sjálf ræktunarverðlaunin hafa fallið í skaut Bergs og Olilar. Það er engin tilviljun að svo skuli hafa skipast. Bergur og Olil hafa byggt upp einstaka aðstöðu fyrir starfsemi sína austur í Flóa og byggja hrossarækt sína á gömlum merg, fagmennsku og metnaði. Ég get ekki annað en hugsað til Jóns heitins Bergssonar á Ketilsstöðum, sem um áratugaskeið var einn örfárra alvöru hrossabænda og fipaðist aldrei í þeirri viðleitni að síbæta hjá sér hrossin.
Og það er hægt að halda áfram með heillaóskirnar. Ég var viðstaddur doktorsvörn Elsu Albertsdóttur við LBHÍ á Hvanneyri á dögunum, og síðan áheyrandi að fróðlegum erindum á opinni og alþjóðlegri ráðstefnu um málefni hrossaræktarinnar. Þetta fór allt fram á ensku, og reyndist nú sumt af þessu tormelt fagmál og fræðihugtök, eins og nærri má geta. Af þessum sökum kann ýmislegt að hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá þeim sem hér stendur, og aðeins hefur lært einfalda skólaensku. Ég vil þó taka fram að sú enska dugði mér ágætlega til skilnings og skemmtunar á FEIF –ráðstefnunni úti í Amsterdam um árið, og ekki síst eftir að leikurinn barst í Rauða hverfið. Förum ekki nánar útí það, en óneitanlega er freistandi að rifja upp gamla vísu um sveitamann sem lenti í svipaðri aðstöðu á þessum slóðum. Hann kom þar að glugga, þar sem honum sýndist fyrst vera myndastytta af konu eða gína. Svo veitti hann því athygli að stóratáin hreyfðist. Framhaldið má ráða af vísunni, sem er bæði stæld og stolin, og gæti hljómað svona, þegar örlítið er búið að fikta við hana:
Bóndi vék burt með hægð/ blómrós er lyfti tá./ Svona er feðranna frægð/ fallin í gleymsku og dá.
Að öllu gamni slepptu, þá er vonandi að helstu niðurstöður doktorsritgerðarinnar – og málstofunnar í heild – verði teknar saman og birtar á íslensku. Það er alveg nauðsynlegt til að halda fólki sæmilega upplýstu um gang þeirra merkismála sem þarna voru á dagskrá.
Kynbótamat Þorvaldar Árnasonar er ákaflega traust og undanbragðalaust og nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar í fræðasamfélaginu. Það tekur allt með í reikninginn, gott og slæmt, leiðréttir fyrir hluta af umhverfisáhrifum og gildir fyrir daginn í dag. Handahófskennt val og einkunnateygni eru einar helstu stoðir þess og forsendur fyrir áreiðanlegri spá og/eða einkunn um kynbótagildi gripanna, áreiðanlegri en fengist höfðu með eldri aðferðum. Nú er löngu komið á daginn að þessar aðferðir rekast ekkert alltof vel saman. Það er falin í þessu ákveðin þversögn, sem ég hef svo sem oft vakið athygli á. Teygni – og einkum teygnigleði – vinnur nefnilega mjög sterkt á móti handahófsvalinu. Það er keppikefli að fá sem flest hross til dóms, en hrakleg meðferð lakari hrossanna – í krafti einkunnateygni – verður til þess að úrvalið fer fram heima á hlaði góðbýlanna í æ ríkara mæli. Menn verða einfaldlega leiðir á því að fá mjög lágar einkunnir á hrossin sín og meta það svo að þeir séu mun betur settir með þau án dóms.
Þetta forval virðist nú vera eitt helsta vandamál Blups-ins, heyrist mér, og var þrásinnis til umræðu á málstofunni á Hvanneyri um daginn, bæði í sambandi við doktorsvörnina og erindi annarra fræðimanna. Það er hins vegar ekkert nýtt undir sólinni – voru það ekki Adam og Eva sem fyrst manna ástunduðu markvisst forval og sýndu Drottni aðeins hreinu börnin sín en földu þau óhreinu?
Ég veit að Þorvaldur hafur haft áhyggjur af þessu forvali í allmörg ár. Hann batt vonir við að sumpart mætti ráða bót á þessu með því að skilgreina nýjan eiginleika sem lagður yrði til grundvallar í kynbótamatinu. Þessi eiginleiki snýst einfaldlega um það hvort hrossið mætir til dóms eða ekki, þ.e. að það teljist því til tekna að mæta til dóms. Hafi ég skilið það rétt þá var annað aðalviðfangsefni Elsu í doktorsverkefninu að meta áhrif þess að taka þennan eiginleika með í reikninginn. Niðurstöðurnar sýna fram á að það sé ekki ómaksins vert.
Það hljóta að vera ákveðin vonbrigði. Erum við þá komin á upphafsreit í þessu forvalsmáli? Hvað er þá til ráða? Kannski þarf að hugsa svolítið út fyrir rammann. Ég er mað ákveðnar hugmyndir, en af því að ég er ekki vísindamaður og reiknimeistari, ætla ég fyrst að bera þær upp í vernduðu umhverfi – svo sem eins og Fagráði – og vita hvaða undirtektir þær fá. Síðan mætti bera þær upp við Þorvald, ef þær verða ekki slegnar út af borðinu strax. Altént er kominn tími til að stöðva fælingarmátt kerfisins og slaka ögn á forvalsklónni.
Ég sagði áðan og ítreka það nú að kynbótamatið væri traust og sannfærandi úrvinnslukerfi. Hinu er þarflaust að gleyma að það byggir ekki á ótvíræðum forsendum eins og máli og vog, líkt og gildir að sumu leyti um aðra búfjárrækt. Mannlegur þáttur og persónulegt mat er hið ráðandi afl við kynbótadómana sjálfa, og gildir í raun um hvorn tveggja aðaldómþáttanna, byggingu og hæfileika. Af þessum ástæðum hefur löngum staðið nokkur styrr um dómstörfin, eins og oft er minnt á. Samt sem áður hafa hrossabændur að mínu mati lengst af og undantekningalítið búið við óyggjandi og örugga dómnefndaforystu vel menntaðra mannkostamanna, sem flestum er hestamennska í blóð borin. Það er grundvallaratriði að standa vörð um þetta og stefna ekki í hættu því trausti sem nauðsynlega þarf að ríkja um kynbótadóma. Allt þetta tal og skrif um vægisbreytingar, þröskulda, sýningaform, hringvelli og stöðlun aðstæðna – svo gott og nauðsynlegt sem það er – er hjóm eitt hjá sjálfum dómstörfunum, að þau séu samræmd og sanngjörn og undir öruggri stjórn. Þess vegna verður að nýta mannauðinn og virkja þá sem undanfarinn áratug hafa reynst best til forystu fallnir að þessu leyti, og uppfylla þau skilyrði sem hér voru talin.
Ég hef orðið vitni að því í sumar og lagt fram gögn í Fagráði sem benda til þess að ekki hafi tekist sem best til um samræmi í dómum sumarsins. Hefur ýmsu verið kennt um, sýningastöðunum sjálfum og vallaraðstæðum, skipan dómnefnda og heimatilbúnum og mismunandi áherslum þeirra og síðast en ekki síst formennsku í dómnefndum. Ég ætla ekki að úttala mig frekar hérum við þetta tækifæri, en vil fremur beina sjónum að því sem til ráða er til úrbóta. Ég hef talað fyrir því að Fagráð í hrossarækt hafi endanlega um það að segja hverjum verði falin formennska í dómnefndum, á sama hátt og það hefur lagt blessun sína yfir þá sem til greina koma sem almennir kynbótadómarar. Þetta kann að vera skilvirkasta og sársaukaminnsta leiðin til þess að koma þessum málum í fastari skorður. Kannski eiga eftir að koma fram betri hugmyndir. En auðvitað verður fyrst að viðurkenna vandann – og horfast í augu við hann.
Við vitum af dýrkeyptri reynslu í þjóðmálunum að undanförnu að það hefur mörgum reynst erfitt. Ég hef hins vegar enga ástæðu til að ætla að það gildi um þá mætu menn sem fara nú fyrir í málefnum hrossaræktarinnar, hvort sem er við dómstörf úti á akrinum eða við grúsk á fræðasviði.