Já, Magnús í Kjarnholtum gerði það ekki endasleppt við okkur í morgun. Hann fylgdi okkur að vaði á Tungufljóti skammt fyrir ofan Kjarnholtabæina, og svo upp með fljótinu að vestanverðu – allt á þessum líka fínu götum.
Við fórum svo nýjan reiðveg á bak við Laugafell, allgóðan á köflum. Héldum svo sem leið liggur að Efstadal, þar sem góðir vinir létu í té girðingu fyrir hrossin. Allt gekk eftir óskum, Vísir frábær, segir Ragnheiður, mylur töltið og tekur ekki í taum – og fallega sýndist mér Krummi ganga hjá Þorkeli. Þorkels-Skjóna er farin að kringja makkann vel hjá Bjarna, og í kjölfarið fylgir meiri fótaburður. Hún stefnir í að verða spilandi góð. Allt hefðbundið með hrossin hjá okkur Freyju, enda eru þar á ferð margreyndir eðalgæðingar – í bland.