Haldið áfram að járna í kuldanum – og skroppið á bak tamningatryppum og einstaka heimahrossi. Gáfum líka ormalyf 2ja og 3ja vetra tryppum, sem við slepptum svo samanvið fylfullu hryssurnar og veturgömlu tryppin í Heimamýri.
Þar er tryggt vatn, en annars horfir til vandræða með það, allt botnfrýs í þessu hörkum sem gengið hafa. Við opnuðum heim úr Krossholti og útbjuggum svo hrossin kæmust í vatn heim við hús. Það fer einhvern veginn allur dagurinn í að hafa þetta allt í lagi – og gefa hér í dag og þar á morgun. Athuga betur með graðhesta og tittina niður í Stangarlækjargryfjum á morgun, kannski þarf ég að taka þá hingað heim í tún í bili, svo þeir hafi tryggt vatn. Höskuldur Þráinsson kom að spjalla við okkur feðga um miðjan daginn. Hann býr nú á Laugarvatni og ríður út í Útey hjá Heimi. Hann er glöggur og minnugur karlinn – og áhugasamur um hrossin okkar, t.d. sem hann sá á Völlunum í sumar. Margir sem koma tala nær eingöngu um eigin hross! Líka kom hingað við annan mann Haraldur nokkur Harðarson frá Eiðsstöðum í Blöndudal, frændi vor segir hann og altént af heimaslóðum móður minnar. Þeir voru að leita að rauðri hryssu sem tapast hafði frá Bjarnastöðum (Óla Hjalt). Ekki var hún hér en ég lofast auðvitað til að láta vita ef hún kynni að rekast hingað.