Suma daga eru vefsíður, blöð og tímarit, sem kenna sig við hesta og hestamennsku, stútfull af tilefnum til þess að reisa við rönd. Sá sem hér stendur er raunar seinþreyttur til vandræða og lætur alla jafna yfir sig ganga í fjölmiðlum ýmislegt sem flokka má sem ófaglega og hlutdræga umfjöllun, atvinnuróg og steigurlæti besserwissera.
Nú má enginn skilja orð mín þannig að aldrei sé borið á borð fyrir okkur lesendur eitthvað gómsætara en þarna var nefnt, og vissulega hefur verið brugðist við ábendingum um það sem betur má fara, eins og í dæminu sem tekið verður hér á eftir.
En það er satt að segja assgoti hvimleitt að sjá fyrirsagnir eins og þessar um Gæðingakeppni fyrir austan fjall í sumar: Friðdóra sigraði A – flokkinn, Sigursteinn sigraði B – flokkinn o.s.frv. Þetta ágæta fólk var nefnilega ekki meðal hinna eiginlegu keppenda. Í gæðingakeppni eru það hestarnir sem etja kappi hver við annan. Um íþróttakeppnina gildir hins vegar að þar eru knaparnir í aðalhlutverki og hljóta sín sigurlaun í eigin nafni.
Það er raunar tímanna tákn að fréttirnar skuli vera þannig orðaðar. Þessi ólíka keppnistilhögun, gæðingakeppnin og íþróttakeppnin, virðist nú um stundir vera kominn í einn graut hjá almenningi, keppendum og dómurum og mótshöldurum, hverjir svo sem bera mesta ábyrgð á því hvernig komið er. Fagtímarit um hestamennsku geta hins vegar ekki verið þekkt fyrir að kunna ekki skil og greinarmun á gæðingakeppni og íþróttakeppni. Prentmiðlar af því tagi verða að fara fyrir í þeirri viðleitni að koma orðum að hlutunum í samræmi við eðli þeirra og tilgang. Þar hafa þeir ríkar skyldur.
Um kappreiðar gildir sama regla og um gæðingakeppni, þar er hesturinn í aðalhlutverki og á ævinlega að teljast fyrst þegar getið er um afrek í kappreiðum. Í mínum uppvexti hefði þótt fráleitt að segja svo frá kappreiðaúrslitum að Sigurður Ólafsson, Geiri í Gufunesi eða Jón í Varmadal hefðu unnið skeiðið – nei það voru Gletta eða Hrollur, Óðinn eða Þór, Randver eða Logi. Fyrst þegar ég heyrði menn tala svona – Sigurbjörn sigraði skeiðið eða Erling lá á góðum tíma – fannst mér það bara broslegt barnahjal eða agalaust kjaftæði útúrdrukkinna beitarhúsamanna. Nú er þetta sjálfsagt orðalag hjá kappreiðaþulum og fréttamönnum. Og hestarnir? Ekki nefndir.
Þessi persónu- og knapadýrkun er komin út í algerar öfgar og ég vil undirstrika það að enginn af þeim mönnum sem hér hafa verið nefndir, né nokkurt annað af því fólki sem hæst hefur borið í hvers kyns keppni, gæti neitt nema því aðeins að að hafa afrekshest í klofinu. Hvenær skyldum við annars heyra samtal eins og þetta: Hver vann aftur 7 vetra flokk stóðhesta á Landsmótinu 2008? Ja, það var annað hvort Þórður eða Danni. Eða vas sa sú?
Það er kannski ekki alveg út í hött – í framhaldi af þessum hugleiðingum um stjörnudýrkun og óljós mörk – að minnast á að það hefur komið til tals í Fagráði að skerpa þurfi á þeirri hugsun að kynbótasýningar séu ekki keppnisgrein. Þannig hafa Fagráð og hrossaræktarráðunautur frábeðið sér að skipta sér af vali á kynbótaknapa ársins.
Hinn yfirlýsti tilgangur kynbótasýninga er að finna og útnefna þau hross sem líklegust eru til þess að þoka okkur nær ræktunarmarkmiðunum. Margir telja þó að dagsformi og stundarhrifningu, reiðlist og sýningatækni sé gert óþarflega hátt undir höfði í kynbótasýningum nú um stundir. Nokkra hef ég heyrt ganga svo langt að segja að kynbótadómarar séu viljugir að gefa einkunnir í samræmi við það sem þeir sjá lakast í fari hrossanna, en leiði hjá sér hinar betri hliðar. Refsað sé fyrir mistök eins og í ströngustu íþróttakeppni, og hrossin eigi sér ekki viðreisnar von, þótt betur takist til í næstu ferð.
Þótt ég taki á engan hátt undir að þetta sé hin almenna regla, kann að felast í þessu sannleikskorn. Nefnilega það korn sem fyllti mælinn og hratt af stað þeirri umræðu í Fagráði að kynbótasýningar séu ekki keppnisgrein og hvatti þann sem hér stendur til þess að gera grein fyrir því sjónarmiði, sem ég leyfi mér að segja að allir Fagráðsmenn tækju undir, þótt enn hafi ekki verið formlega ályktað um málið.
Ég talaði hérna um dagsform og stundarhrifningu – það má líka kalla það kommuslag – sem segja má að einkenni sýningar í einstaklingsflokkum á landsmóti. Í fljótu bragði er kannski ekkert sérstaklega athugavert við þetta, þótt ég sé fremur gagnrýninn á alla þá vinnu sem lögð er í endurdóma á nýlega dæmdum hrossum. Ef til vill er þess skammt að bíða að fram komi nýtilegar hugmyndir um annars konar fyrirkomulag, já nýtt dómstig, sem aðeins verði notað á landsmótum: t.d. yfirlitssýningar þar sem dómarar hefðu í höndum dóminn frá forskoðun og heimilt væri að hækka og lækka einkunnir.
Afkvæmasýningar eru gott mótvægi við það sem hér hefur verið gert að umtalsefni. Þær eru ekki stundarkeppni, heldur sýning á afrakstri margra ára þrotlauss hugsjónastarfs, oftast áratuga. Tækifæri áhorfenda til að meta og bera saman afkvæmahópa og stinga út feður og formæður að ófæddum folöldum sínum hafa löngum mælst vel fyrir, kannski betur en flestir aðrir dagskrárliðir. Því miður virðist hafa sótt í það far að afkvæmasýningar kynbótahrossa hafi orðið hornreka á landsmótum í tímapressu og óvæginni kröfu um að fækka kynbótahrossum og stytta dagskrárliði. Og allir vita að heiðursverðlaunahryssur, stolt eigenda sinna og eftirlæti áhorfenda, hafa verið gerðar brottrækar af landsmótum af þessum sökum, en einnig vegna þess að rangar ákvarðanir voru teknar um þátttökuskilyrði þeirra.
Ég hef lagt til að róttækar breytingar verði gerðar á landsmótahaldi, til þess að skapa betra næði og athygli fyrir atburði sem fyrir augu ber. Ég lagði þessar hugmyndir fram á Landsþingi LH í fyrrahaust. Þær ganga út á það að halda Landsmót á hverju ári. Annað árið yrði sérstakt unglingalandsmót, líkt og haldið er á vegum UMFÍ, og hefur slegið algjörlega í gegn. Foreldrar og aðstandendur keppenda gætu á slíkum mótum einbeitt sér að verkefninu. Allt mótshaldið myndi hverfast um börnin og unglingana, líka athygli áhorfenda og fjölmiðla.
Hitt árið yrði svo gæðingakeppni og kynbótasýning, hægt væri að gera veg afkvæmasýninga meiri, bjóða heiðursverðlaunahryssur velkomnar á ný. Nú gæfist nægur tími til þess að sjá allt sem fram fer, jafnvel að borða og fara á klósettið.
Það er skemmst frá því að segja að þessi tillaga hlaut engar afgerandi undirtektir, enda ekki óeðlilegt að menn þyrftu að hugsa málið. Í þeim anda var þessari tillögu líka svarað á þinginu og hvatt til þess að haldin yrði opin ráðstefna um málefni og fyrirkomulag Landsmóta. Fagráð hefur í framhaldinu hvatt til þess að slík ráðstefna yrði haldin. Hvað dvelur Orminn langa?