Um okkur

Hrossaræktarbúið á Þóroddsstöðum er í eigu þeirra Bjarna Þorkelssonar og Margrétar Hafliðadóttur. Hross þeirra eiga um hálfrar aldar ræktunarsögu, og ef  betur er að gáð má rekja hana enn lengra, allt til hinna fyrstu skipulegu kynbóta á íslenska hrossakyninu á öndverðri 20. öld. Hrossin sem nú eru kennd við Þóroddsstaði, voru áður kennd við Laugarvatn, þar sem foreldrar Bjarna  bjuggu, þau Þorkell heitinn Bjarnason og Ragnheiður Ester Guðmundsdóttir. Þessi fjölskyldustarfsemi hlaut árið 1996 nafnbótina Ræktunarmaður ársins.

 

Um langa hríð hefur markvisst verið ofið saman þeim þáttum sem traustastir hafa þótt hverju sinni, víða verið leitað fanga og ekki alltaf verið horft í tilkostnað. Stundum hefur verið sótt um langvegu með hryssur undir úrvalshesta, en einnig hafa verið fengnir á leigu – til notkunar heima á búinu – stóðhestar á borð við Hrafn frá Holtsmúla, Gáska frá Hofsstöðum og Stíganda frá Sauðárkróki, svo aðeins séu nefndir heiðursverðlaunahestarnir.

Af heimahestum sem notaðir hafa verið á búinu má nefna gamla Fáfni 747 frá Laugarvatni (f. 1968), sem enn á syni í reiðhestahópnum á Þóroddsstöðum (2011). Næst má  nefna tvenna bræður: Annars vegar Galdur og Núma Glímusyni, og hins vegar Hlakkarsynina Ham, Þyrni og Þórodd.  Þrír þeir síðastnefndu hafa hlotið einkunnirnar 8,50 – 8,60 –  8,74 sem einstaklingar og hafa þannig skipað sér á fremsta bekk í röðum stóðhesta. Goði bróðir þeirra hefur hlotið hæstu byggingareinkunn allra tíma, 9,02. Margir sterkir kynbótagripir hafa komið frá Þóroddsstöðum um dagana. Þegar þetta er skrifað, hér um bil 60 árum eftir að önnur formóðir Laugarvatns-/Þóroddsstaðahrossanna, Fjöður frá Tungufelli (f. 1952), leit fyrst dagsins ljós, er staðan þessi:

Fimm hryssur (Fjöður, Sif, Sjöfn, Glíma og Limra) hafa hlotið heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og margar aðrar fyrstu verðlaun. Tvö af afkvæmum Limru frá Laugarvatni (eigandi Gunnar Arnarson ehf.) hlutu heiðursverðlaun fyrir afkvæmi 2011, þau Gári og Vordís frá Auðsholtshjáleigu. Gári fékk Sleipnisbikarinn á LM 2011.

Sex stóðhestar hafa hlotið 1. verðlaun f. afkvæmi (Fáfnir, Angi, Galdur, Númi, Þyrnir, Þóroddur) og tveir stóðhestar heiðursverðlaun að auki (Þóroddur, Angi). Raunar hefur Númi einnig náð heiðursverðlaunaárangri, en var þá kominn til Danmerkur, og hefur því ekki hlotið formlega viðurkenningu fyrir afrekið.  Hátt á annan tug  stóðhesta hefur hlotið 1.verðlaun sem einstaklingar og fjöldi hryssa.

Skeiðhross eru eftirlæti fjölskyldunnar, og myndu sumir segja að jaðri við áráttu eða fíkn, að etja þeim oft og víða. Bestu tímar fjölskylduhrossanna eru 7,42 sek. í 100 m. flugskeiði (Hera), 13,9 sek í 150 m. skeiði (Hera, Áki og Gunnur) og 21,41 í 250 m. skeiði (Íslands-og heimsmet Heru 2016). Kolbeinn varð heimsmeistari í gæðingaskeiði á HM 2007 í Hollandi, og annar í 250 m skeiði (21,5) á sama móti. Íslandsmeistari í 150 m skeiði 2011 varð Bjarni Bjarnason á Veru frá Þóroddsstöðum, en besta tíma sínum til þessa náði Vera hjá Bjarna á Andvaramótinu í september 2011 (14,14). Á kappreiðum í Mosfellsbæ í maí 2011 náði Vera einnig úrvalstíma 14,35 sek. Knapinn var þá Camilla Petra Sigurðardóttir. Frá þessu verður ef til vill betur sagt í sérstökum kappreiðaþætti hér á síðunni, enda af mörgu að taka ef rifja á upp kappreiðasögu Laugarvatnshrossanna, jafnvel allt aftur til 1950!

Á Þóroddsstöðum eru jafnan til sölu hross sem henta þeim sem gera miklar kröfur og eru reiðubúnir að greiða sanngjarnt verð. Kynbótahross og reiðhross eru seld innanlands og utan, og rétt er að vekja athygli á því að á Þóroddsstöðum er kappkostað að rækta hreingeng og fjölhæf gæðingshross, prúð og fótatraust.