Þóroddur er hestagull og hefur sýnt það oft á velli hvort sem er á kynbótabrautinni eða gæðingakeppni. Hann stóð efstur í flokki 5 vetra stóðhesta á Landsmóti árið 2004 með einkunnina 8,74 (9,04 fyrir hæfileika) sem er hæsta einkunn sem fimm vetra hestur hafði þá fengið. Meðal helstu kosta Þórodds má nefna frábæra mýkt á tölti með miklum fótaburði, framgripi og löngu afturfótaskrefi, brokkið gott og skeiðið afburða. Þóroddur tók þátt í A-flokki á Landsmótinu á Vindheimamelum 2006 – þá 7 vetra gamall – og endaði í öðru sæti með 9,04 í aðaleinkunn. Knapi var Daníel Jónsson – eins og jafnan.
Á LM 2011 á Vindheimamelum hlaut Þóroddur 1. verðlaun fyrir afkvæmi. Hann átti þá 48 dæmd afkvæmi, og vantaði aðeins 2 afkvæmi til að hljóta heiðursverðlaun, samkvæmt gildandi reglum. Umsögn um afkvæmi Þórodds er svohljóðandi:
„Þóroddur gefur meðal stór hross með skarpt, þurrt höfuð en ekki beina neflínu. Eyrun eru fínleg og vel borin. Hálsinn er vel reistur og grannur, en frekar lágt settur á brjóstið. Bakið er breitt og vöðvað en stundum svagt, lendin löng og öflug. Afkvæmin eru langvaxin og fótahá. Fætur eru þurrir með öflugar sinar, yfirleitt réttir að aftan en útskeifir að framan. Hófar eru efnisþykkir og prúðleiki um meðallag. Flest afkvæmi Þórodds eru alhliðageng með rúmu, taktgóðu og mjúku tölti og skrefmiklu brokki. Skeiðgeta er afbragð og skeiðið ferðmikið og öruggt. Afkvæmin eru ásækin í vilja og fara prýðilega.
Þóroddur gefur hálsgrönn og fótahá, rúm alhliða ganghross, skeiðið best. Þóroddur hlýtur fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi.“