Það var hálfgaman aððí vestur í Borgarnesi í kvöld. Eftir tvísýna keppni varð Bjarni Bjarnason Íslandsmeistari í 100 m flugskeiði.

Og þótt ég verði auðvitað – í samræmi við reglu og hefð íþróttakeppninnar – að nefna knapann fyrst, þá kæmi það nú fyrir lítið að vera ekki vel ríðandi þegar kemur að því að leggja til skeiðs í svona harðri keppni fljótustu skeiðhrossa landsins. Það var nefnilega Hera frá Þóroddsstöðum sem afrekið vann, hin léttbyggða, farfúsa og flugviljuga Kjarvalsdóttir og Gunnar frá Þóroddsstöðum, sem var undan gömlu Sif minni og Berki frá Laugarvatni. Hera hefur svo sem minnt hressilega á sig fyrr, orðið önnur á amk. tveimur stórmótum og farið 100 m skeiðið best á 7,52 sekúndum – en þetta er stærsti titillinn til þessa.

Í hressilegum mótvindi og svo sem engum sumarhita fór Hera sprettfærið á 7,79 sek. Önnur varð tilvonandi Berlínarfarinn Spyrna frá Vindási (7,82 sek). Knapinn var Eyjólfur Þorsteinsson. Spyrna er undan Aroni frá Strandarhöfði og Stjörnu í Vindási, Hervarsdóttur frá Sauðárkróki og Fjaðrar frá Hnjúki, ef ég man rétt. Þriðji varð Jökull frá Efri-Rauðalæk (7,95), undan Óði frá Brún og Spyrnu frá Hellulandi, knapinn Teitur Árnason. Í fjórða sæti varð Gjálp frá ytra-Dalsgerði (8,08), undan Krafti frá Bringu og Gígju frá Ytra-Dalsgerði, knapi Guðmundur Björgvinsson. Fimmti varð Hörður frá Reykjavík (8,17), undan Reyki frá Hoftúni og Jónínu Akranesi, knapi Daníel Ingi Smárason.
Margir fleiri fallegir sprettir sáust.

Á sunnudaginn verða seinni tveir sprettirnir í 250 m skeiðinu, og kannski verður eitthvað frásagnarvert á heimasíðu Þóroddsstaða þann daginn.

%d bloggers like this: