Ráðstefnustjóri, frummælendur – sem ég þakka fyrir góð erindi – og góðir ráðstefnugestir.

 

 

Ég vil byrja á því að óska öllum verðlaunahöfum dagsins innilega til hamingju með sína vegsemd.

 

  1. Ég vakti máls á því við svipað tækifæri í fyrra að kynbótamat Þorvaldar Árnasonar, Bluppið, væri ákaflega traust og undanbragðalaust úrvinnslukerfi, sem nyti alþjóðlegrar viðurkenningar í fræðasamfélaginu. En við verðum alltaf að muna að Blup-ið er bara úrvinnslukerfi þeirra gagna sem það er matað á. Og þau gögn eru kynbótadómarnir, dómarnir á þeim hluta hrossanna sem til dóms eru leidd. Nú er svo komið að ekki er um handahófskennt val á þeim hópi að ræða. Það val fer fram heima á góðbýlunum,  og er stundað af  svo sundurleitum hópi að það hlýtur að verða mjög mismunandi. Ómögulegt virðist því annað en að líta á þetta forval sem  vandamál Blups- ins, jafnvel ógn – enda kom það sjónarmið glöggt fram á málstofunni á Hvanneyri sem efnt var til í tengslum við doktorsvörn Elsu Albertsdóttur í fyrra.

 

En hvað þá með dómana sjálfa, hvaða skilyrði  er mikilvægast  að þeir uppfylli? Jú, jú, teygnin, það er eitt. Ég ætla að láta teygnina liggja á milli hluta að þessu sinni, en vek hins vegar athygli á því að sjálfur hrossaræktarráðunauturinn, Guðlaugur Antonsson, hefur margsinnis sagt það frá upphafi starfsferilsins að teygni verði ekki haldið uppi með handafli, hennar verði að sjá stað í framgöngu hrossanna  og atgjörvi.

 

En það er annað sem er öllu mikilvægara í sambandi við dómana og þann hornstein sem þeir hljóta að verða að vera fyrir kynbótamatið og allt kynbótastarfið.  Það er auðvitað samræmi og samstilling þeirra, að þeir séu sem allra líkastir hvar og hvenær sem upp eru kveðnir.

 

Einmitt þetta, samræmi og samstilling dómanna hefur að undanförnu verið mjög til umræðu, að minnsta kosti í Fagráði, og engum held ég að blandist hugur um mikilvægi þess. Og þótt vera kunni uppi skoðanamunur á því hversu mjög misræmis  hefur gætt, þá hefur þegar verið brugðist við framkominni gagnrýni. Á sýningunni á Selfossi í vor var sett á laggirnar fjölskipuð dómnefnd, skipuð þeim dómurum sem ætlað var  að gegna formennsku í dómnefndum  það sem eftir lifði sumars. Þessu skrefi fagna ég, það hlýtur að vera til góðs, og ég legg til að slíkt fyrirkomulag verði jafnan haft á.

 

Valið á þessum dómnefndarformönnum hefur hrossaræktarráðunauturinn  í hendi sér, eins og fram hefur komið. Ég hef oft áður lýst þeirri skoðun minni að formennska í dómnefndum eigi að vera hár þröskuldur að stíga yfir, og slíkt ábyrgðarstarf sé aðeins á færi þaulreyndra dómara,velmenntaðra í búfjárrækt  og sjóaðra í ólgusjó alhliða hestamennsku, með fjölþætta reynslu af  öllum hestgerðum, helst líka þeim allra bestu.

Væri ekki  sterkur leikur, í þeirri viðleitni að auka tiltrú á  dómana og samstillingu þeirra, að hafa amk. einhuga stuðning  Fagráðs í hrossarækt við val á dómnefndarformönnum? Væri hrossaræktarráðunauturinn að brjóta odd af oflæti sínu, þótt hann rökstyddi vandlega og sannfærði þá ef til vill Fagráðsmenn um réttmæti vals síns á þessu lykilfólki? Ég held raunar að nokkuð hafi þegar áunnist í þessa átt, og er sannfærður um að litlu munar að um þetta atriði geti orðið sátt – að minnsta kosti varðandi skipanina hér heima. Öllu torveldara er við að eiga með dómnefndir sem starfa erlendis, þar sem formlega  eru ekki gerðar sömu kröfur, að minnsta kosti ekki hvað menntun varðar. Sú staðreynd er fleinn í holdi. Það er eiginlega óverjandi staða að dómar slíkra dómnefnda skuli koma fullgildir inn í Veraldarfeng, enda hef ég oft verið spurður að því hvernig Fagráð geti kvittað undir þetta.

 

  1. Fátt er erfiðara viðfangs en að festast í hjólfari venju og hefða, sem flestir eru þó sammmála um að séu gengnar sér til húðar. Oft hefur verið vakið máls á því að ef til vill mætti betrumbæta fyrirkomulag dómstarfa  á sjálfu Landsmótinu – og hefur það raunar verið gert með góðum árangri, svo sem þegar hætt var að byggingardæma á landsmótum. Bent hefur verið á að ef til vill mætti fara sömu leið með hæfileikadóminn sjálfan og hafa bara eina allsherjar yfirlitssýningu á Landsmóti. Nú hefur komið fram bráðsnjöll hugmynd hjá Guðlaugi, sem hann kynnti á októberfundi Fagráðs, og  gekk upphaflega út á það að viðhafa hefðbundinn kynbótadóm, sleppa yfirlitinu, en gera meira úr kynningu og verðlaunaafhendingu kynbótahrossanna. Sú kynning færi fram á hringvelli, líkt og nú tíðkast með afkvæmahópana. Þótt önnur hugmynd kviknaði í framhaldinu við umræður í Fagráði um þessa útfærslu, lít ég alls ekki svo á að upphaflega hugmynd Guðlaugs hafi verið slegin út af borðinu, og legg áherslu á að henni sé haldið til haga eins og öðru sem lagt hefur verið til, þegar þessi mál eru kynnt og rædd – væntanlega m.a. í fundarferð Kristins og Guðlaugs í vetur. Sjálfur hef ég ákveðna sannfæringu fyrir því að heppilegasta leiðin í þessu sé eins konar blanda af þessum hugmyndum, þar sem útkoman yrði nýtt dómsstig, Landsmótsdómur. Þar yrði dómurinn úr hefðbundinni vorsýningu lagður til grundvallar,  með heimild til þess að hækka og lækka einkunnir, en yfirlitssýningunni sleppt. Með þessu fengist þaulprófuð niðurstaða, heilsteyptar og áhorfendavænar sýningar, en sniðnir af helstu vankantar hefðbundinna yfirlitssýninga, hvort sem um er að ræða þaulsýningar á lakari gangtegundum eða lævísa og löngum umdeilda aðferð við einkunnasöfnun – það er að afgreiða sumt í dómnum sjálfum og geyma annað þangað til í yfirlitinu. Þannig hafa stundum náðst háir dómar, án þess að allir kostir séu sýndir í einni heilsteyptri sýningu. Þetta heitir að spila á kerfið, allt löglegt auðvitað. Má ekki líka til sanns vegar færa, að á yfirlitssýningum verði til – í hita leiksins – þær tölur sem helst eru umdeildar og þykja stundum ekki standast skoðun? Og það sem kannski er allra mest um vert þegar öll spjót standa á okkur vegna álags og áverka á hrossunum: Það léttir mikið á að sleppa heilli yfirlitssýningu.
  2. Ég má til að minnast aðeins á útfærslu afkvæmasýninga á Landsmótinu í sumar. Formið á sýningunni sjálfri var prýðilegt og hrossin fengu vel að njóta sín. Þar var um mikla framför að ræða frá LM 2008, þegar útfærslan var fyrir neðan allar hellur. En það er vonlaust fyrirkomulag að drita þessum afkvæmasýningum hingað og þangað um dagskrána, eins og gert var í sumar. Í dagskránni vorustóðhestarnir  ekki einu sinni kynntir undir eigin nafni heldur eftir einhverri Blup –röð sem öllum er sama um og enginn hefur sett á sig, þegar  kemur að því að glöggva sig á dagskrárliðunum. Það er sjálfsagt réttlætismál að allir afkvæmahestar á  sama verðlaunastigi séu meðhöndlaðir sem einn hópur og komi fram í samfelldri stafrófsröð í dagskránni. Þannig yrði betur lögð áhersla á það að hér er um að ræða sýningu en ekki keppni, en á þeim skilningi hefur oft verið hamrað í Fagráði, og víst er að hvergi á það betur við en einmitt við afkvæmasýningar.  Það er dýrt spaug að mæta með 1. verðlauna afkvæmastóðhest norður yfir heiðar, státa af geysisterkum afkvæmahópi samvalinna úrvalsgæðinga – og lenda svo í þvi að sýna fyrir hálftómri brekku, vegna þess að sýningartíminn er í matarhléi og landsmótsgestir í óða önn að rífa í sig eða að fara á klósettið eftir daglanga þaulsetu í brekkunni. Það er óhætt að segja að vegur stóðhesta verði ekki öllu meiri, að minnsta kosti svona formlega séð, en að hljóta afkvæmaverðlaun á Landsmóti, og fæstir ræktendur geta vænst þess að ná verðugri hápunkti á ræktunarferli sínum. Viðurkenningin fyrir þetta afrek – sem ég er ákaflega stoltur af – hangir hérna um hálsinn á mér. Hérna er líka verðlaunapeningur sem ég fékk fyrir að eiga folald í þriðja sæti á folaldasýningu í heimasveit minni. Svipaðan pening fengu konan mín og dóttir fyrir þátttöku í kvennahlaupinu á dögunum. Ekkert barn í  pollaflokki hjá Hestamannafélaginu Trausta fær lakari grip en þennan á Vallamótinu – með þökk fyrir þátttökuna.

Bjarni Þorkelsson

%d bloggers like this: