Í gær var birt nýtt kynbótamat, niðurstaðan eftir að allir dómar ársins eru gengnir.

Og svo ég tali nú hreint út: Niðurstaðan er afar athyglisverð og óneitanlega hagstæð fyrir þann sem heldur út þessari síðu, thoroddsstadir.is. Vona að mér fyrirgefist þótt ég horfi á þessa niðurstöðu Blupps-ins og fjalli um hana af þessum sjónarhóli.
Fyrst ætla ég að segja frá því að Þóroddur hefur nú styrkt stöðu sína og hækkað um heil 2 stig frá sama tíma í fyrra.
20 hestar fylla nú flokk heiðursverðlaunastóðhesta, fæddir á árunum 1986-2002. Þrír þeirra eru undan gömlu Laugarvatnsmerunum.
Langefstur allra heiðursverðlaunahesta er Gári frá Auðsholtshjáleigu (129 stig). Hann er sonur Limru frá Laugarvatni, heiðursverðlaunahryssu í eigu Gunnars Arnarsonar og fjölskyldu. Limra státar m.a. af öðru heiðursverðlaunaafkvæmi, Vordísi frá Auðsholtshjáleigu.
Þóroddur frá Þóroddsstöðum (121 stig) er undan Hlökk frá Laugarvatni, einni mestu stóðhestamóður á öldinni sem var (f. 1984).
Þriðji heiðurverðlaunastóðhesturinn sem hér verður getið og prýðir þennan 20 hesta hóp er Númi frá Þóroddsstöðum (119 stig). Hann er undan Glímu frá Laugarvatni, eftirlætis- og snilldarhryssu sem hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi.

Sá hestur sem er nú næstur því að komast í þennan útvalda hóp (skortir aðeins eitt dæmt afkvæmi) er Garri frá Reykjavík (128 stig). Hann er sonardóttursonur Anga frá Laugarvatni, fyrrum heiðursverðlaunahests og forföður margra sterkra kynbótahrossa nú um stundir. Garri trónir nú efstur þeirra hesta sem náð hafa 1. verðlaunamörkum.

Og úr því að ég er farinn að glugga í töflu yfir þann hóp, þá prýða hann samtals 27 hestar – og hafa, eins og heiðurverðlaunahestarnir, ýmist fengið verðlaunin staðfest með löglegri afkvæmasýningu eða eiga það eftir (trúlega). Nokkrir eru raunar í ómögulegri stöðu til þess að fá þessa vegsemd staðfesta, sumir jafnvel dauðir eða fluttir út.
Í þessum hópi eru enn nokkrir sem eiga ættir að rekja til gömlu Laugarvatns/Þóroddsstaðahryssanna. Garri hefur þegar verið talinn, en aðrir eru feðgarnir Hrafnfaxi (125 stig) og Nökkvi (120 stig – sonur Anga) frá V-Geldingaholti, Aðall frá Nýjabæ (120 stig – dóttursonur Anga) og loks Illingur frá Tóftum (120 stig) sem kalla má hreinan Laugarvatns/Þóroddsstaðahest. Hann er undan Núma frá Þóroddsstöðum og Hríslu frá Laugarvatni.
.

%d bloggers like this: