Á sunnudaginn var haldinn – og vel heppnaður – Stóðhestadagur Eiðfaxa á Brávöllum við Selfoss. Þetta er tilraun til að endurvekja gömlu Gunnarsholtsstemninguna, að sögn þeirra sem að stóðu. Og svei mér ef það tókst ekki bara bærilega, enda lék veðrið við.

Okkur Þóroddsfélögum var boðið að taka þátt, og stóðum við fyrir heilli afkvæmasýningu, hvorki meira né minna. Þóroddur var sjálfur í fararbroddi, og ég held að óhætt sé að segja að skartað hafi af honum hjá Danna (sjá mynd), sem löngum fyrr, þótt ekki sé hann í mikilli reiðþjálfun. Sex afkvæmi fylgdu hestinum, mjög góður hópur: Grunnur frá Grund, Hvatur frá Dallandi, Dalvar frá Horni, Hilda frá Kvistum, Gjöf frá Vindási, Elding frá Laugarvatni.
Sýningin mæltist vel fyrir og vakti góð viðbrögð.
Vonandi er að opnist æ fleiri augu fyrir þeim meginkostum sem Þóroddur og mörg afkvæma hans eru gædd – og hafa ef til vill umfram flest hross: Heilsteyptar gangtegundir, fimm talsins og flestar úrtökugóðar, getu og vilja til þess að bera þær á borð hvenær sem eftir er leitað, hverja á fætur annarri: Forréttur, þrír aðalréttir og desert.
Það er svo sér kapítuli að segja frá uppliti tryppanna undan honum, og gæti verið fróðlegt fyrir ýmsa að koma heim á Þóroddsstaði nú í vor og sjá hve þau bera af á margan hátt, einkum fyrir frábæra eyrnastöðu og eyrnagerð, fallegt auga og annan fríðleika – og einnig fyrir myndarskap og grannan og mjúkan háls, svo aðeins fátt sé nefnt!

%d bloggers like this: