SNÖRP GLÍMA

Texti: Bjarni Þorkelsson

Það vekur athygli að hart er nú brugðist við gamalli og nýrri kröfu Landssambands Hestamannafélaga um að öðlast beina aðild að Fagráði í hrossarækt. Það er raunar hægt að fara langt aftur í tímann til þess að sjá merki um áhuga og forystu hestamannafélaga í málefnum hrossaræktarinnar. Stjórn Hestamannafélagsins Fáks sendi erindi til Búnaðarþings í febrúar 1939. Þar er lagt að þinginu:

„að koma í veg fyrir að út verði flutt léleg hross eða ótamin og að komið verði upp hrossaræktarbúi á vegum ríkisins þar sem unnið verði aðallega að því að hrossin hækki og stækki frá því sem nú er, en haldi þó bestu einkennum sínum um fjör, léttleika í gangi og vaxtarfegurð“.

Enn er knúið dyra
Svo nær sé farið í tíma, fann þessi áhugi sér farveg í því að sameina fyrir alla muni LH og Félag Hrossabænda. Fluttar voru beinar tillögur um þetta mál á Landsþinginu á Ísafirði 2001, ef ég man ártalið rétt. Tillögurnar hlutu ekki hljómgrunn meðal fundarmanna þá. Þær voru hreinlega slegnar útaf borðinu með rökum eins og þeim að slík sameining væri ámóta fráleit og sameining Neytendasamtakanna og Kaupmannasamtakanna (Bergur Jónsson, Freyfaxa). Undirritaður benti á að L.H. væri svo að segja nýgengið í íþróttahreyfinguna og þar lægju tækifæri samtakanna. Það væri hugsanavilla að knýja nú dyra hjá Bændasamtökunum.
Enn virðist ekkert lát á hjá stjórn L.H. að banka uppá hjá hrossabændum, þótt lítt sé til dyra gengið þar á bæ. Nú hefur verið kynnt nýtt skipurit Landssambandsins, þar sem hver stjórnarmaður hefur forystuhlutverki að gegna á tilteknu sviði. Samkvæmt skipulaginu á eitt sviðið að sinna kynbótamálum, og tilnefna fulltrúa í Fagráð í hrossarækt, þótt engin lagagrunnur sé fyrir þeirri kröfu.

Í sögulegu ljósi
Til að skilja þennan óbilandi áhuga L.H. er nauðsynlegt að skyggnast frekar um í sögunni. Í óútkominni starfssögu Þorkels heitins Bjarnasonar á Laugarvatni segir hvernig atvikin höguðu því til árið 1961 að Þorkell var ráðinn til Búnaðarfélags Íslands að gegna starfi hrossaræktarráðunautar. Nokkrum mánuðum fyrr hafði hann verið ráðinn til tímabundinna og afmarkaðra verkefna fyrir Landssamband Hestamannafélaga. Var honum ætlað að heimsækja hestamannafélög, hvetja þau til dáða og leiðbeina þeim um rekstur tamningastöðva, svo nokkuð sé nefnt. Þorkell segir frá ýmsu sem á dagana dreif er hann rak erindi L.H., og síðar í frásögninni getur hann um afar farsæl samskipti við alla formenn L.H. á 35 ára starfsferli sínum.

Grípum nú niður í frásögn Þorkels:
„Segja má að þessi ráðning hafi verið formlegt upphaf að þrjátíu og fimm ára ferðavolki og nánum samskiptum við hestamenn í landinu, í stíl við þau sem hér hefur verið lýst. Þegar gluggað er í skýrsluna sést vel að auk þess að rækja þá þætti sem kveðið var á um í samningi mínum við formann L.H., gerði ég mér sérstakt far um að hyggja að og ýta undir starf að kynbótamálum. Á þessa lund má segja að allt mitt starf hafi verið síðan. Erfitt er að draga skýrar markalínur milli samstarfsins við áhugafélög annars vegar og hagsmunasamtök hins vegar og segja má að þau mörk hafi alveg þurrkast út þegar kom að hinum mannlega þætti, samskiptum við einstaklinga. Það var ekki til siðs að leiða einu sinni hugann að því hvort um var að ræða hrossabændur eða áhugamenn. Strangt tekið voru hrossabændur ekki einu sinni til í þá daga. Alls staðar voru rekin blönduð bú, og víðast hvar voru hrossin afgangsstærð í búrekstrinum, þótt áhuginn snerist um þau á nokkrum bæjum. Það er raunar deginum ljósara að það var ekki síst fyrir atbeina og áhuga búlausra kaupstaðarmanna sem þessi starfsemi fór aftur af stað eftir miðja 20. öldina, eins og betur er rakið seinna, og lengst af var hún borin uppi jöfnum höndum af áhugamönnum og bændum. Þetta er gott að hafa í huga þegar metin er gömul og ný krafa Landssambandsmanna um að hafa áhrif á stefnu og störf Búnaðarfélags Íslands – og seinna Bændasamtakanna – að hrossaræktarmálum. Þarna verður ekki komið við neinum samanburði við aðrar búgreinar, eins og ég vænti að menn sjái í hendi sér.”
(Tilvitnun lokið)

Hverjir teljast hrossabændur?
Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið, kann krafa L.H. um áhrif á ræktunarstefnu og dómstörf að hafa verið eðlileg fyrr á árum, að minnsta kosti skiljanleg. Raunar tilnefndi L.H. fulltrúa sína í dómnefnd kynbótahrossa á mörgum fyrstu lands- og fjórðungsmótanna. Frá þessu var þó horfið með tímanum, og svo kom að einungis búfræðikandidatar voru gjaldgengir í dómnefndir kynbótahrossa. Um það atriði hefur síðan lengst af ríkt sæmilegur friður, hvað sem sagt kann að hafa verið um störf dómnefnda að öðru leyti. Og vissulega er það svo að það eru fleiri atriði en þessi sögulegu sem standa með L.H.-mönnum. Félagsmenn í hestamannafélögum koma að sjálfsögðu úr öllum starfsstéttum, til dæmis eru þar margir bændur. Fjöldi annarra félagsmanna í hestamannafélögum eru hrossaræktendur að einhverju marki, margir af dæmafárri ástríðu og metnaði. Þessir verða seint kallaðir bændur, jarðnæðislausir menn sem hafa lífsafkomu sína af öðru en búskap. Þeim er þó, þegar betur er að gáð, frjálst að ganga í hrossaræktarfélög og öðlast þannig aðild að Félagi hrossabænda með fullum félagsréttindum og kjörgengi í áhrifastöður! Hvort þeir verða síðan varir við lýðræðislega teknar ákvarðanir um skipan í Fagráð er svo önnur saga, og verður ekki sögð hér.

Margvísleg verkefni LH
Hvað sem þessu líður hallaði Landssamband Hestamannafélaga sér jafnt og þétt að íþróttahreyfingunni, þegar fram liðu stundir – eins og eðlilegt má telja. Aðild að Í.S.Í. er löngu orðin að veruleika. Viðfangsefni L.H. eru að sönnu mörg önnur en hrossaræktarmál, og hafa sum verið á dagskrá í áratugi: Reiðvegamál, mannvirkjamál , dómaramál, agamál, landsliðsmál, keppnisreglur, öryggismál, umhverfismál, æskulýðsmál, menntamál. Allt eru þetta, ef grannt er skoðað, hefðbundin viðfangsefni íþróttahreyfingarinnar. Síðasttöldu málefnin eru hægt og bítandi að færast framar í röðina þegar meta skal áherslur og tilgang samtaka hestamanna. Fjölskyldu- og uppeldisstefna er að verða helsta bitvopn samtakanna, þegar barist er fyrir bættum skilningi ráðamanna og almennings og auknum fjárframlögum hins opinbera. Dapurlegar undantekningar sem birst hafa í gáleysistali alþingismanna að undanförnu, slæva ekki bitið í því vopni, þegar til lengri tíma er litið. Enda stefnir allt í það að þessir tilteknu alþingismenn verði fyrrverandi alþingismenn þegar í vor.

Skjólstæðingar tveggja ráðuneyta
Það má taka undir það álit að ýmislegt í ræðu hins ágæta fráfarandi formanns L.H., Jóns Alberts Sigurbjörnssonar, á landsþinginu í Borgarnesi, sé lítt til þess fallið að efla samstöðu hestamanna. Slíkt hið sama má raunar segja um hin hörðu viðbrögð við ræðunni. Þannig fór hrossaræktarráðunautur Bændasamtakanna mikinn í ræðustól á þinginu, stundum með réttu. Ef til vill gætti hann þó ekki nægilega þeirrar forsögu sem hér hefur verið tæpt á, og verður aldrei undan vikist að taka að minnsta kosti kurteislegt tillit til, þegar þessi mál ber á góma.
Skrif Bergs Jónssonar (formanns Félags tamningamanna) og Kristins Guðnasonar (formanns Félags Hrossabænda) á netmiðlum eru annað dæmi um þessi hörðu viðbrögð. Þótt formönnunum sé mikið niðri fyrir í ákafa sínum að hnekkja áliti Jóns Alberts, tekst þeim að koma að sannfærandi rökum fyrir máli sínu. Hér skal vafningalaust tekið undir orð þeirra um gildi þess að hrossabændur annars vegar og tamningamenn hins vegar hafi með sér félag, sem standi vörð um faglega og stéttarlega hagsmuni þeirra, auk þess að tryggja viðunandi starfsumhverfi. Það er eðlileg framtíðarskipan að Félag hrossabænda sé aðili að Bændasamtökum Íslands, heyri undir Landbúnaðarráðuneyti og beri ásamt Fagráði ábyrgð á íslenskri hrossarækt samkvæmt landslögum. Félagar í F.T. eru tamningamenn og reiðkennarar útskrifaðir úr Hólaskóla, sem einnig heyrir undir Landbúnaðarráðuneyti. Þar er einn af snertiflötum þessara félaga. L.H. eru hins vegar áhugamannasamtök sem eru aðili að Í.S.Í. og heyra undir Menntamálaráðuneyti.

Gætu hestamenn ekki sammælst um að sjá kostina sem felast í þessari stöðu og sækja í hana styrk til átaka? Landbúnaðarráðuneytið vaknaði af Þyrnirósarsvefni sínum gagnvart hestamennsku. Hver segir að Menntamálaráðuneytið geti ekki gert það líka?
Hverjum dettur í hug að hægt sé að mynda ein regnhlífarsamtök hestamanna, ef ekki er einu sinni hægt að leggja sameiginlegan skilning í svo einföld atriði og að hver styðji annan í brýnustu hagsmunamálum? Hvernig er vígstaða hestamanna sem eins hóps, ef allt logar í illdeilum á milli fylkinga?

Eðlismunur
Það er auðvelt að taka undir það að eðlismunur þessara samtaka sé slíkur, að sameining þeirra komi tæplega til greina. Einnig er ljóst að gildandi lög útiloka að L.H. fái aðild að Fagráði. Í ljósi þess má segja að markmiðssetning L.H. þar að lútandi hafi ekkert gildi. Undirritaður fulltrúi Hestamannafélagsins Trausta á 55. Landsþingi L.H. í Borgarnesi verður að viðurkenna að hann var að þessu sinni andvaralaus gagnvart þessu hefðbundna máli, taldi það léttvægt og úrslit þess fyrirsjánleg. Hitann af því fann hann ekki fyrr en eftirá – og settist þá niður og skrifaði þessa grein.
Það er von mín að hún veki til umhugsunar um þessi mál, setji það í víðara samhengi og kyrri ef til vill úfna sjói. Fátt er mér þó fjær en að biðja menn að sitja þegjandi hjá, ef rangindum er beitt. Innri mál kann að þurfa að útkljá með snarpri glímu– en umfram allt að hver líti í eigin barm. Ef til vill bíður ekkert brýnna verkefni nýs formanns L.H., góðbóndans Haraldar Þórarinssonar, en að bera klæði á þau vopn sem hér hefur verið brugðið? Bjarni Þorkelsson.

%d bloggers like this: