Heyrði í dag skrýtna sögu af vel þekktu hestafólki – og kynbótadómurum – sem kom í hesthús hjá landsþekktum tamningamanni.

Sá leiddi fram á stétt glæsilegt hross, og það stóð ekki á því negla saman einn byggingardóm uppá 8,40 – 8,50. Svo var spurt: Undan hvaða hesti er gripurinn? Þegar því var svarað, kom nú skrýtinn svipur og helst var að skilja að þetta þyrfti sennilega endurskoðunar við, það stæðist varla að sá hestur gæfi svona fallegt!

Því miður er þessi saga aðeins staðfesting á því sem ég hef bæði heyrt og frétt áður.
Sem betur fer er fátítt að slíkar sögur séu sagðar af fólki sem gegnir því ábyrgðarstarfi sem hér var nefnt til sögu. Kynbótadómarar hegða sér nefnilega fæstir svona, og njóta fyrir bragðið flestir virðingar. Sú virðing er að vísu grundvölluð á fleiru, eins og eðlilegt má teljast. Auk alhliða mannkosta og menntunar má segja að reynsla vegi þar þyngst – og svo það að hestamennskan sé þessu fólki í blóð borin.

Dómnefndaforystu hefur borið á góma í Fagráði, fyrst lítillega í fyrravetur og svo af endurnýjuðum krafti í haust og vetur. Kannski segi ég meira frá þeirri umræðu í næstu pistlum, og kynni betur afrakstur hennar.

Annars er það að frétta í dag að sá gamli blekbóndi sem hér heldur á penna fór á bak þremur hrossum og teymdi það fjórða. Batnandi mönnum er best að lifa. Hvítingur var fínn, er afskaplega vel taminn og góður í taumum hjá Þorkeli. Það verður gaman að honum í vetur spái ég.

Sá glitta í skemmtilega hluti hjá Eldingu og Dís hjá Bjarna, það var hálfgaman að því eins og Jón Ósmann myndi hafa sagt.

%d bloggers like this: