Sölvi bættist í hópinn í morgun, er riðið var frá Efstadal. Hann er með 5 hross, sum fílefld. Riðið var með veginum alveg að Laugarvatni, það er svo sem sæmilegur sumarreiðvegur og eiginlega mun betri en tilsvarandi reiðvegur upp í Tungum. Síðan var farinn þjóðvegurinn upp Hálsinn og vestur fyrir Langamel – vonandi í síðasta skipti með bílaumferðina í bak og fyrir, því nýi vegurinn er alveg að verða tilbúinn að taka við henni.

Eftir stutt stopp í nýju réttinni á Gildruflöt, var haldið vestur með fjöllum. Ég reið Sokka mínum á undan um þetta undraland æskunnar, og grunaði víða „gamalt spor eftir lítinn fót“. Reiðfærið er engu líkt á þessum slóðum, hjá Fardal og Selöldu og niður á Velli. Svo var haldið niður með hraunbrúninni, yfir nýja veginn og áfram hlemmigötur allt vestur í Kaldárhöfða, um Kringlumýri og Drift. Skálinn í Kringlumýri hefur heldur betur fengið andlitslyftingu hjá Miðengismönnum. Það var sannarlega vel til fundið hjá Ingvari að semja við þá um að fóstra skálann. Það vakti athygli okkar að skálinn stóð opinn. Ætli það sé meiningin?
Frænkurnar Gríma og Flétta slógu í gegn hjá Ragnheiði minni í dag. Hvítingur var magnaður hjá Þorkeli vestur með fjöllum, Hreppur fer síbatnandi, en Krummi þurfti aukakennslu og sat eftir, þegar öðru hafði verið sleppt í Kaldárhöfða. Freyja hleypti fyrir á Beitivöllum, þegar Gimsteinn tók sig útúr og ætlaði beint heim – og var á hinni 5 vetra gömlu Fregn, sem temst nú vel hjá henni. Bjarna gengur mjög vel með þá skjóttu frá Þorkeli. Hann reið nú Kjalari í fyrsta skipti, mjög þægilegum.

%d bloggers like this: